Fyrirtæki fá hjálp til að læra á lög grannlandanna

08.02.18 | Fréttir
Gade i Reykjavik
Ljósmyndari
Yadid Levy / Norden.org
Erfiðleikar við að fá yfirsýn yfir lög og reglur í grannlöndunum er meðal hindrana sem fyrirtæki sem vilja koma undir sig fótunum í öðru norrænu ríki glíma við. En nú hefur Stjórnsýsluhindranaráðið komið á fót upplýsingagátt sem á að liðsinna atvinnulífinu að þessu leyti - mikilvægur árangur vinnunnar við að afnema stjórnsýsluhindranir árið 2017.

Norræna stjórnsýsluhindranaráðið afgreiddi í fyrra sex hindranir fyrir frjálsri för milli Norðurlanda og gat afgreitt þær út af borðinu sem leystar.

Þar með er orðið auðveldara fyrir sjónskertan einstakling að taka leiðsöguhundinn sinn með sér til Noregs og fyrir læknanema í Svíþjóð að taka kandídatsárið á Álandseyjum. Samar við landamæri Noregs og Svíþjóðar eiga auðveldara með að viðhalda hreindýragirðingum sínum og dregið hefur úr skriffinskunni sem ungir atvinnulausir Svíar hafa þurft að ganga í gegnum til þess að geta stundað starfsnám erlendis innan ramma mannaskiptaáætlana Evrópusambandsins.

Lítil skref í átt til stórrar hugsunar

Vinna Norræna stjórnsýsluhindranaráðsins lítur þannig út - að með mörgum smáum afmörkuðum skrefum er stuðlað að því að raungera hina metnaðarfullu pólitísku sýn um landamæralaus Norðurlönd.  

Það er einnig orðið auðveldara fyrir fyrirtæki að fá yfirsýn yfir lög og reglur grannríkjanna til þess að geta rekið fyrirtæki. Hin nýja upplýsingargátt www.nordenbusiness.org er nokkurs konar vegvísir um reglur nágrannalandanna varðandi skráningar, viðurkenningu á framleiðsluvörum, hvar viðkomandi fyrirtæki er skattlagt og hvar starfsmennirnir eru almannatryggðir.

Skapar ný störf

„Stjórnsýsluhindranaráðið hefur undanfarið ár átt í viðræðum við atvinnulífið um það hvernig koma má í veg fyrir stjórnsýsluhindranir sem hamla hreyfanleika og hagvexti. Upplýsingagáttin verður framlag sem um munar við að skapa ný atvinnutækifæri og efla hagvöxt á Norðurlöndum,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og fulltrúi í Stjórnsýsluhindranaráðinu.

Upplýsingagáttin hefur verið fulltrúum atvinnulífsins mikið forgangsmál en þeir fengu Stjórnsýsluhindranaráðinu í hendur lista fyrir tveimur árum þar sem tilgreindar voru 15 stjórnsýsluhindranir sem ynnu gegn úr fjölgun starfa og hagvexti á Norðurlöndum.

27 hindranir leystar á fjórum árum

Undanfarin fjögur ár hefur Stjórnsýsluhindranaráðið sinnt því verkefni fyrir hönd stjórnvalda á Norðurlöndum að vinna gegn þeim hindrunum sem eru til staðar og hamla fólki og fyrirtækjum að flytja, starfa og stunda rekstur og nám á Norðurlöndum.  Ráðið hefur leyst 27 stjórnsýsluhindranir frá upphafi.

Ráðið er skipað einstaklingum sem hafa gott samstarfsnet innan stjórnsýslu landanna. Ráðið greinir hvaða stjórnsýsluhindranir skipta mestu máli á norrænum vinnumarkaði og námsumhverfi og reyna svo að vinna að úrlausnum hjá þeim ráðuneytum sem við á.

Sterkara umboð

Um áramótin fékk Stjórnsýsluhindranaráðið nýtt og sterkara umboð til þess að geta ýtt á stjórnvöld með auknum pólitískum þunga á komandi árum. Hin sænska Eva Tarselius Hallgren, formaður nefndarinnar árið 2018, er fyrst til að leiða samstarfið með auknu umboði.

„Það er afar hvetjandi að ríkisstjórnirnar auki metnað og kröfur um árangur í stjórnsýsluhindranastarfinu. Við munum vinna enn nánar með öllum þeim sem að stjórnsýsluhindrunum koma til þess að leysa fleiri stjórnsýsluhindranir og auðvelda þeim enn frekar sem ferðast yfir landamæri norrænu ríkjanna vegna starfa sinna,“ segir Eva Tarselius Hallgren.

Atvinnuleysisbætur sparast

Um 65.000 norrænir ríkisborgarar eiga heima í einu norrænu ríki og starfa í öðru. Fólkið sem ferðast yfir landamæri Norðurlanda til vinnu leggur 5,3 milljarða evra til norræna hagkerfisins og sparar um leið milljarða í atvinnuleysisbótum.

 

Tengiliður