Norræn sáttamiðlun byggir á jöfnuði

02.11.17 | Fréttir
Martti Ahtisaari
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/Norden.org
Trúin á réttlát samfélög þar sem jöfnuður ríkir er grundvöllur árangursríkrar sáttamiðlunar. Þetta sagði Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands og handhafi friðarverðlauna Nóbels, þegar hann ávarpaði þingmenn Norðurlandaráðs í dag. Einnig sagðist hann líta á NATÓ sem friðarstofnun.

„Þegar við skoðum ástandið í heiminum árið 2017 sjáum við að þegar hættuástand skapast er einn samnefnari nánast alltaf til staðar: Fólk upplifir ójöfnuð,“ sagði Ahtisaari forseti og hélt áfram:

„Sáttamiðlun snýst um svo margt fleira en skiptingu valds. Hún snýst um pólitík, sálfræði, jöfnuð, réttlæti, sættir og skilvirkni á öllum sviðum samfélagsins. Þetta allt hefur okkur tekist vel upp með á Norðurlöndum.“

Eflum norræna sáttamiðlun

Forsetanum var boðið að tala á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki í tengslum við tillögu þess efnis að efla norræna sáttamiðlun.

Tillagan var flutt af flokkahópi miðjumanna og gengur meðal annars út á að ráðist verði í nýja úttekt í anda Stoltenberg-skýrslunnar á því hvernig Norðurlönd geti stuðlað að friði á átakasvæðum.

Einnig inniheldur skjalið tillögu um að Norðurlönd komi á fót sameiginlegu háskólanámi á framhaldsstigi á sviði friðarviðræðna, og skjalasafni um sáttamiðlun í einu Norðurlandanna.

Skjöl síðan í seinni heimsstyrjöld

Í skjalasafninu yrðu varðveitt skjöl frá friðarviðræðum á árunum eftir seinni heimstyrjöld.

„Ef þetta gengur allt saman eftir verð ég ánægður,“ sagði Martti Ahtisaari og hvatti norrænu þingmennina til að verja og tala fyrir norrænum gildum á hverjum degi.

„Ég er sannfærður um að sjálfur hefði ég ekki náð svo langt á sviði sáttamiðlunar án hins norræna uppruna og norrænu gilda sem ég bý að,“ sagði hann, og vísaði til sjálfs sín sem „afar stoltrar afurðar norræna líkansins“.

Í umræðunum sem fylgdu á eftir sagði Ahtisaari að Finnland ætti að eiga aðild að öllum vestrænum lýðræðisstofnunum og nefndi NATÓ í því samhengi. 

„Þurfum bæði sprengjur og bókstafi“

Hans Wallmark, fulltrúi í flokkahópi hægrimanna, tók undir orð Ahtisaaris:

„Diplómatísk samskipti og hernaðarmáttur eru ekki ósamræmanlegir hlutir. Við þurfum sprengjur og handsprengjur og einnig bókstafi og tölustafi – bæði diplómatískt og hernaðarlegt afl“, sagði hann.

Christian Juhl, fulltrúi Norrænna vinstri grænna, svaraði því til að hann vonaði að hlutfallið milli fyrirbyggjandi aðgerða og hernaðarlegra aðgerða yrði betra í framtíðinni.

„Það sem ég vil leggja áherslu á í þessu sambandi er að við tökum skref í þá átt að draga úr fjárveitingum og tækniþróun á sviði hernaðar og aukum þess í stað fyrirbyggjandi aðgerðir sem stuðla að friði,“ sagði hann.

 Strax að umræðunum loknum fór fram atkvæðagreiðsla um tillöguna á þinginu, og var hún samþykkt. 

 Stoltenberg-skýrslan, sem minnst var á í umræðunum, er aðgengileg hér: 

 

Tengiliður