Ný skýrsla: Norrænt sjónvarp þvert á landamæri

27.05.19 | Fréttir
Tv-serien SKAM

Tv-serien SKAM, produceret af NRK, er en af de populære tv-serier, som har fået nordboerne til at se flere af hinandens programmer i de seneste år

Ljósmyndari
Polfoto / NRK / Ritzau Scanpix

Sjónvarpsþáttaröðin SKAM sem framleidd var af NRK er ein hinna vinsælu sjónvarpsþáttaraða sem hafa orðið til þess að Norðurlandarbúar horfa nú á fleiri sjónvarpsþætti frá nágrannalöndum sínum en undanfarin ár.

Skam og Brúin eru aðeins dæmi um vinsælar sjónvarpsþáttaraðir sem hafa orðið til þess að Norðurlandarbúar horfa nú á fleiri sjónvarpsþætti frá nágrannalöndum sínum en undanfarin ár. Ný skýrsla dregur upp mynd af þeim tækifærum sem fyrir hendi eru til þess að auka aðgengi að því stafræna efni sem til er hjá norrænu almannaþjónustufjölmiðlunum.

Í skýrslunni ”Nordisk tv på tværs af grænser”, eða Norrænt sjónvarp þvert á landamæri, sem pöntuð var af Norrænu ráðherranefndinni um menningarmál eru skoðaðir möguleikar á að draga úr lokun höfundarvarins efnis eftir svæðum (geoblocking) - það er þeirri stöðu að aðeins sé hægt að horfa á sjónvarpsþátt í tilteknu landi meðan lokað er á hann fyrir notendur í öðrum löndum en einnig er litið til annarra tækifæra til þess að auka norrænt aðgengi. Skýrslan sýnir meðal annars fram á að Danmarks Radio lokar fyrir 26% af sínu efni en YLE fyrir 40% og SVT 43%.

Markaðurinn tekur hröðum breytingum

Sjónvarpsmarkaðurinn og sjónvarpsvenjur eru að breytast gífurlega mikið í öllum norrænu ríkjunum. Ástæðan er bæði tækniþróun og breytingar á háttum fólks, sérstaklega yngra fólks, varðandi notkun á sjónvarpi og neti - breytingar varðandi báða þessa miðla eru nátengdir.

Afleiðingin er sú að við horfum minna á hefðbundið sjónvarp í línulegri dagskrá, þ.e. á þeim tíma sem hver og einn þáttur er sendur út. Tíminn sem við Norðurlandabúar verjum við að horfa á línulega dagskrá sjónvarps hefur dregist saman um nærri því 50 mínútur á dag. Vaxandi tilhneiging til þess að horft sé á sjónvarp eftir pöntun (on-demand) þýðir að heildartími áhorfenda við skjáinn hefur líklega ekki breyst.

„Við höfum áhuga á að halda áfram að bjóða upp á aðgengi að sjónvarpsstöðvum nágrannalandanna en þarfirnar hafa breyst. Áður var ástæðan fyrir áhuganum á sænsku sjónvarpi áhorf yfir landamæri meðfram hinum löngu landamærum milli Noregs og Svíþjóðar en nú eru bæði fyrir hendi sænskir og danskir minnihlutahópar. Þetta eru litlir hópar sem leggja mikla áherslu á að geta horft á sjónvarp á móðirmáli sínu,“ segir Jon Line, forstjóri Telenor.

Bæta þarf ramma um aðgengi

Í skýrslunni eru kynnt fimm meðmæli um hvað hægt sé að gera til þess að auka aðgengi að stafrænni þjónustu norrænu almannaþjónustumiðlanna vítt og breitt á Norðurlöndum.

  • Almannaþjónustumiðlarnir ættu aðeins að loka fyrir höfundarvarið efni eftir svæðum þar sem nauðsyn krefur
  • Hægt er að auka og þróa samstarfið í Nordvision um samframleiðslu og miðlun þátta, þar með talið Nordic 12
  • Þróa skal áfram framboð sjónvarpsdreifingaraðila á sjónvarpsefni frá nágrannalöndunum
  • Norrænu ríkin geta tryggt ramma um höfundarrétt sem myndar grunn að endurdreifingu gegnum vod-þjónustu
  • Norrænu ríkin ættu að innleiða væntanlegar breytingar á gervihnatta- og kapaltilskipun ESB eins fljótt og auðið er.

 

Samstarfið milli norrænu almannaþjónustumiðlanna er skipulagt gegnum Nordvision og í því felst að meira en 4.500 þættir eru samframleiddir á hverju ári og eru aðgengilegir áhorfendum í norrænu löndunum með mismiklum hætti.  

„Einstakt samstarf milli sjónvarpsstöðvanna í UBO og annarra rétthafa ásamt pólitískum stuðningi hefur í meira en 30 ár gert norrænum sjónvarpsáhorfendum kleift að horfa á sjónvarpsstöðvar nágrannaríkjanna. Um er að ræða mikilvæga menningarstefnu sem ber að viðhalda til þess að áfram verði hægt að horfa á sjónvarpsstöðvar nágrannaríkjanna á Norðurlöndum,“ segir Steen Lassen á skrifstofu UBO.

Samráð við Norðurlandaráð

Ástæðan fyrir óskinni um meira norrænt aðgengi að sjónvarpi þvert á landamæri er að aukið tilboð á norrænu sjónvarpi getur auðveldað viðhaldi norrænnar menningar og styrkt hana á tímum þegar magn menningartilboða frá öllum heimshornum er í örum vexti. Ákvörðunin um að hefja rannsóknina var meðal annars tekin samkvæmt tilmælum Norðurlandaráðs 31/17 „Afnám lokunar höfundarvarins efnis eftir svæðum“.