Emma Puikkonen

Emma Puikkonen

Emma Puikkonen

Photographer
Pertti Nisonen
Emma Puikkonen: Musta peili, skáldsaga, WSOY, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Manneskjan og olían eru ekki aðskilin fyrirbæri. Jarðefnaeldsneyti er hinn ósýnilegi grundvöllur hagkerfisins og samfélagsins, og allt frá 19. öldinni hefur staðið yfir tímabil sem nefnt hefur verið jarðefnakapítalisminn eða jarðefnahagkerfið. Olían og afleiðingar olíunotkunar hafa gegnsýrt okkur og tilveru okkar. Þetta er útgangspunkturinn í Musta peili („Svarti spegillinn“, ekki gefin út á íslensku), skáldsögu Emmu Puikkonen um olíuna – hinn svarta spegil mannkynsins. Þetta er töfrandi fögur bók sem tekst á við afar víðfeðmt efni og þvingar lesandann til þess að hugsa. Svartir og glansandi fletir textans endurspegla ýmis algild og aðkallandi þemu á borð við samband okkar við náttúru og umhverfi, hugrekki manneskjunnar og hlutverk kvenna í ýmsum aðstæðum.

 

Í sögunni er gripið niður í frásagnir á um 150 ára löngu tímabili. Við fylgjumst með þremur sterkum kvenpersónum sem tengjast innbyrðis, en sú fyrsta er Lotte Teer, sem lesandinn hittir fyrir sem unga konu í Amsterdam í olíukreppunni árið 1973. Lotte ræður sig til starfa hjá fyrirtækinu Shell, landar þar stjórnunarstöðu sem ráðgjafi um loftslagsbreytingar og fæst við það áratugum saman að hylma yfir sannleikann um neikvæð umhverfisáhrif af völdum olíuframleiðslu. Ida Tarbell, frumkvöðull í rannsóknarblaðamennsku sem fæðist seint á 19. öld, fer með lesandann í vöggu olíukapítalismans á olíuleitarsvæðum í suðurríkjum Bandaríkjanna. Þegar svarta gullið finnst hefst þar mikill atgangur, sem kveikir draumóra um gríðarleg auðæfi, en sú framtíðarsýn er fljót að fölna þegar einokunarstefna nær yfirhöndinni, auk vaxandi meðvitundar um það að olían breytir okkur með óafturkræfum hætti. „Manneskjan og draslið fara að flækjast saman, skarast, vaxa inn í hvort annað,“ segir Ida Tarbell í skáldsögunni. Ungi umhverfisaðgerðasinninn Astrid Fuglesang er uppi seint á þriðja áratug 21. aldar, þegar hugmyndin um olíu sem grundvöll orkuframleiðslu er orðin verulega umdeild í heiminum. Astrid tekur þátt í nýstárlegri umhverfisverndarbyltingu þar sem fólk er hvatt til að grípa sjálft til aðgerða vinnur skemmdarverik á olíuborpalli sem enn er í notkun. Þegar upp kemst um hana neyðist hún til að fela sig á borpallinum sem stendur til að rífa, og hittir þar Lotte Teer, sem er uppfull af innri mótsögnum.

 

Fjórða persóna bókarinnar er olían sjálf, sem birtist sem nánast goðumlíkur kraftur með ármilljóna langa sögu og fléttast við aðra hluta frásagnarinnar eins og æsispennandi og íhugult ljóð. Olían er samanþjöppuð sólarorka sem sefur í holrýmum neðanjarðar, sprettur upp á yfirborðið og rennur inn í æðar mannfólksins – hún er „líf í svo þéttum massa að það þarf að gefa sig því á vald til að afbera það“.

 

Emma Puikkonen (f. 1974) er á meðal áhugaverðustu prósahöfunda Finnlands í dag. Í verkum sínum tekst hún á við brennandi samtímamálefni og hafa loftslagsbreytingar verið þar sérlega áberandi undanfarin ár. Hún er leikstjóri að mennt og kennir orðlist og leiklist. Verk hennar Eurooppalaiset unet (2016, „Evrópskir draumar“, ekki gefin út á íslensku) var tilnefnt til Finlandia- og Tulenkantaja-verðlaunanna og síðasta skáldsaga hennar, Lupaus (2019, „Loforð“, ekki gefin út á íslensku), hlaut afar góðar viðtökur gagnrýnenda. Skáldsagan Musta peili (2021; ”Svartur spegill”, ekki útgefin á íslensku) var tilnefnd til hinna finnsku Runeberg-verðlauna.