Guðbergur Bergsson: Þrír sneru aftur

Guðbergur Bergsson
Photographer
Guðni þorbjörnsson
Skáldsaga, JPV útgáfa, 2014.

Guðbergur Bergsson er fæddur árið 1932 og á langan feril að baki. Hann skrifaði byltingarkenndar skáldsögur á sjöunda áratugnum, var boðberi nýjunga í sagnalist og fulltrúi róttækrar gagnrýni á þjóðrembu, stéttaskiptingu og undirlægjuhátt.  Í sögum hans steig alþýðufólk nútímans fram á sjónarsviðið, fiskverkafólk, sjómenn og skrifstofumenn, frelsað úr viðjum staðalhugmynda. Tómas Jónsson úr samnefndri bók Tómas Jónsson – metsölubók er líklega frægasti skrifstofumaður íslenskra bókmennta, gamalmenni sem liggur í kör og rifjar upp líf sitt og tímana.

Guðbergur Bergsson hefur skrifað meira en tuttugu skáldsögur, ort ljóð og skrifað smásögur, endurminningabækur, svokallaðar skáldævisögur, og greinar og ritgerðir, auk þess að vera einn mikilvirkasti þýðandi landsins. Með þýðingum sínum hefur Guðbergur Bergsson fært löndum sínum mörg grundvallarrit spænskra bókmenta og bókmennta rómönsku Ameríku, meðal annars Don Kíkóta eftir Miguel de Cervantes og Hundrað ára einsemd eftir Gabríel Garcia Marquez og sögur eftir Jorge Luis Borges og Juan Rúlfó og ótal fleiri.

Í eftirmála að þýðingu sinni á Hundrað ára einsemdeftir Gabríel Garcia Marquez segir Guðbergur Bergsson: „Einhver biblíulegur blær hvílir yfir frásögu Hundrað ára einsemdar, og hún er eins konar stef við Mósebók. Það mun hafa verið Hamsun sem fyrstur höfunda færði þá goðsögu í nútímalegan búning og niður á jörðina í skáldsögu, þegar hann leiddi fólk sitt yfir fjöll og heiðar í leit að gróðri jarðar í einhverju nýbroti. Síðan rís þar bær í þessu fyrirheitna landi, einhver sumarhús sem leggjast í eyði eftir uppgangstíð og blóðskömm og syndaflóð í sál mannanna. Ýmsir höfundar hafa endurtekið þetta efni gamla testamentisins með ótal tilbrigðum og misjöfnum árangri.  Sagnaviðurinn hefur verið einkar kær löndum sem einhvern tíma voru nýr heimur en nú er spilltur. Þetta eru fjölskyldusögur innblásnar anda hreinnar lútersku eða kommúnisma, en fitla með sérkennilega úrkynjuðum hætti við syndina og hafa það markmið að vera þjóðtákn, refsivöndur og ástarjátning til ættlandsins í senn. Þekktustu höfundar þannig ástarhaturssagna eru Hamsun, Faulkner, Laxness, Rúlfó og Marquez.“

Knut Hamsun skrifaði um þennan heim í ljósi söknuðar, Halldór Laxness sem heim stöðnunar og vonlauss hokurs, en hjá Guðbergi Bergssyni eru engir slíkir mælikvarðar. Hann snýr öllu á haus og fylgir ekki neinum forskriftum þó að ekki vanti refsivendina, og oft reitt hátt til höggs; ástarjátningarnar eru hins vegar tvíræðari, gott ef ekki margræðari.  Einlægni og kaldhæðni togast á.

Sögusvið skáldsögunnar Þrír sneru aftur er afskekktur sveitabær ekki langt frá þorpi suður með sjó en hinn eingangraði og afskekkti bær gegnir þessu þekkta stefi bókmenntanna sem Guðbergur Bergsson talar um í eftirmálanum hér að ofan. Hann er eins konar þjóðtákn.  Hann fær óvæntar heimsóknir og breytingar tímans ryðjast inn. Í miðju sögunnar eru tvær stelpur, yfirgefnar af mæðrum sínum, afinn og amman, sem ganga stúlkunum í foreldrastað, og sonurinn, sérsinna og önugur, og strákur úr þorpinu sem dvelur stundum á bænum vegna veikinda móður sinnar.  Inn í fábreytilegan heiminn koma útlendir menn, fyrst tveir breskir ferðamenn, róttækir menntamenn, sannfærðir um að Ísland sé náttúruperla, og síðan Þjóðverji sem er í felum.  Þessir þrír snúa aftur, Bretarnir sem hermenn en Þjóðverjinn sem ferðamaður.  Í upphafi sögunnar er sveitin eins konar fríríki, fulltrúi óbreytileika og stöðnunar, en smám saman brestur á syndaflóð tímans: hernám, stríð og uppbygging, í stuttu máli sagt, nútíminn.  Ameríski herinn kemur og setur allt samfélagið á annan endann, gjörbreytir lífsháttum og þegar hann fer tekur ferðaiðnaður nútímans við. Mæður stúlknanna flytjast í þorpið, kynnast hermönnum og flytjast til Ameríku.  Þá er einnig í sögunni bók sem heitir þessu nafni, Þrír sneru aftur, saga um skipbrotsmenn sem sonurinn les fyrir strákinn, sem býr á heimilinu á meðan móðir hans er á spítala.  Eftir stríðið kemur ameríski herinn og þá breytist allt.  Allir reyna að komast í vinnu hjá hernum og upphefðin oft í ágætu samræmi við niðurlæginguna.  Um leið og sagan er sinn eigin heimur er hún augljóslega táknræn. Raunsæ framvindan gerir það þó að verkum að það er lesandinn sjálfur sem túlkar og skilningur okkar á sögunni því talsvert háður okkar eigin gildismati og mannskilningi.