Handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2023

Renewcell vinder Nordisk Råds miljøpris 2023

Renewcell vinder Nordisk Råds miljøpris 2023

Photographer
Magnus Fröderberg, norden.org
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur Renewcell frá Svíþjóð fyrir tímamótaaðferð til að endurvinna textílúrgang og skapa úr honum nýjan fatnað og aðra textílvöru.

Rökstuðningur dómnefndar

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2023 er sjálfbær framleiðsla og neysla á textíl. Með þemanu vill dómnefndin beina sjónum að því hvernig Norðurlönd geta verið í fararbroddi í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru í virðiskeðju textíls og stuðlað um leið að hringrásarhugsun í tískubransanum.

 

SamSamkvæmt rannsókn [1] sem unnin var fyrir Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) árið 2019 ber textíliðnaðurinn ábyrgð á 10 prósentum af koltvísýringslosun frá öllum iðnaði í heiminum. Einnig stuðlar textíliðnaður að neikvæðum umhverfisáhrifum á borð við ósjálfbæra notkun á landi og vatni og losun á áburði og skaðlegum efnum út í náttúruna. Samkvæmt sömu rannsókn má rekja 35 prósent þess örplasts sem losnar út í umhverfið til þvottar á fötum úr gerviefnum.

 

Í dag hefur verið framleitt nægilega mikið af fötum og textíl í heiminum til að klæða margar komandi kynslóðir mannkynsins. Samkvæmt rannsókn frá 2018, sem birtist í vísindatímaritinu Environmental Health, kaupa neytendur árlega 80 milljarða af flíkum á heimsvísu[2]. Megnið af öllum fatnaði sem framleiddur er endar á ruslahaug eða er brennt.  Að meðaltali er vörubílshlassi af fötum fargað á hverri sekúndu, samkvæmt útreikningum sænska loftslags- og iðnaðarráðuneytisins [3].

 

Staðan er sú að við verðum fyrst og fremst að draga úr neyslu, en einnig að lengja líftíma textíls og innleiða viðskiptalíkön byggð á hringrásarhugsun. Aðferð Renewcell markar tímamót í því að endurvinna textílúrgang og skapa úr honum nýjan textíl, og getur gegnt mikilvægu hlutverki við að loka hringnum innan textíliðnaðarins og gera hringrásargrundvallaðan tískuiðnað mögulegan.

 

Sænska fyrirtækið Renewcell er það fyrsta á heimsvísu til að koma fram með iðnaðarferli á stórum skala þar sem gamall fatnaður fær nýtt líf með því að endurvinna úr honum trefjamassa til að nota í nýjan fatnað og aðra textílvöru. Hin framúrstefnulega lausn Renewcell er afrakstur rannsókna sem hófust við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi árið 2012.

 

Sýn fyrirtækisins er að innleiða hringrásarhugsun í tískuiðnaði með því að nota einkaleyfisvarða aðferð til að endurvinna textílafgang sem hefur sellulósa sem grunn, svo sem slitin bómullarföt eða úrgang úr framleiðslu, í nýtt hágæða efni sem nefnist Circulose®.

 

Renewcell hefur einnig gefið gömlu iðnaðarhúsnæði nýtt líf og nýtir staðbundna þekkingu í atvinnustarfsemi sem færir okkur inn í framtíðina. Nýskapandi verkefni af þessu tagi leika lykilhlutverk í umskiptum yfir í sjálfbærari textíliðnað sem byggist á hringrásarhugsjóninni.

 

Þetta norræna fyrirtæki ryður brautina fyrir hringrásartísku framtíðarinnar með aðferð sem hægt er að nýta og aðlaga um allan heim.

 

Athugasemdir:

[1]https://www.eionet.europa.eu/etcs/etc-wmge/products/etc-wmge-reports/textiles-and-the-environment-in-a-circular-economy/@@download/file/ETC-WMGE_report_final%20for%20website_rev20221118.pdf

[2] https://ehjournal.biomedcentral.com/articles/10.1186/s12940-018-0433-7

[3] https://www.regeringen.se/contentassets/17735a61e8ee4fa0b064291e03afcee0/cirkular-hantering-av-textil-och-textilavfall.pdf