Juaaka Lyberth

Juaaka Lyberth
Photographer
Leiff Josefsen
Juaaka Lyberth: Naleqqusseruttortut. Skáldsaga, Forlaget Milik, 2012.

Grænlenska menntakerfið hefur frá upphafi haft aðsetur sitt í Nuuk þar sem kennarskólinn (Seminariet) var stofnaður árið 1845. Síðan á fjórða áratug síðustu aldar jukust tækifæri til bóknáms með stofnun framhaldsskóla í Aasiaat (Egedesminde), Qaqortoq (Julianehåb) og Nuuk (Godthåb). Eftir val í barnaskóla voru 14-15 ára nemendur valdir til frekari skólagöngu í þessum skólabæjum þar sem þeir bjuggu á nemendagörðum.

Í skáldsögunni er sagt frá unglingi frá Uummannaq á Norður-Grænlandi sem hefur verið valinn til að hefja bóknám.

Sagan hefst á ferð unga mannsins með strandferðaskipinu frá heimabænum til stórborgarinnar Nuuk. Hann á að búa á nemendagörðum sem tengjast skólanum og á að sjálfsögðu að fara eftir ýmsum húsreglum sem þar gilda. Lífið á nemendagörðunum er takmarkað við lítið svæði í Nuuk og nánast engin tengsl eru milli nemenda og bæjarbúa. Lífið snýst um daglega kennslu, heimanám og lítinn frítíma. Engu að síður er heilmikið að gerast í nemendahópnum. Margt gerist um helgar þegar nemendur hafa ofan af fyrir sér með ýmsum menningartengdum verkefnum. Þeir prófa að eiga kærustur/kærasta og þess háttar.

Sagan gerist í kringum 1970. Hinn stóri heimur er smám saman að verða hluti af daglegu lífi Grænlendinga. Tónlist að utan fer að hafa áhrif á unga fólkið á nemendagörðunum, tónlist Bítlanna, Rolling Stones og annarra skammlífari hljómsveita er spiluð hátt inni á litlu herbergjunum.

Þetta er umhverfið sem skáldsaga Juaaka Lybert gerist í. Sagan fjallar um hans kynslóð. Lífið á nemendagörðunum með öllu sem því fylgir og því sem hliðarsjálf hans Paul Erik upplifir. Þetta er áhyggjulaust líf, en nemendurnir sakna heimilisins og fjölskyldunnar og upplifa ást, hamingjusama og óhamingjusama, og undir niðri kraumar upphaf uppreisnar gegn danska valdinu.

Endurlit á upplifanir barnæskunnar sem stundum höfðu mikil sálræn áhrif og aðstæður foreldrakynslóðarinnar marka sjónarhorn skáldsögunnar í nútímanum.

Juaaka Lybert er fæddur í Uummannaq árið 1952. Eftir 7 ára grunnskólanám gekk hann í skóla í Danmörku í eitt ár og síðan í framhaldsskóla í Nuuk. Hann nam eskimóafræði (eskimologi) við Hafnarháskóla. Hann er tónlistarmaður og lagahöfundur, rithöfundur og þjóðfélagsrýnir í grænlenskum fjölmiðlum. 

Juaaka Lybert hefur um árabil tekið virkan þátt í menningarlífi Grænlands, bæði innan leikhússins og í tónlist og hefur hann verið stjórnandi menningarhúsa í Nuuk og Sisimut. Hann hlaut menningarverðlaun grænlensku heimastjórnarinnar árið 2000. Naleqqusseruttortut er fyrsta skáldsaga hans.

Bókin kemur út í danskri þýðingu Lars Wind undir titlinum „Godt i vej“ í febrúar 2014.

Hans A. Lynge