Kirsten Thorup

Kirsten Thorup
Ljósmyndari
Lærke Posselt
Erindring om kærligheden. Skáldsaga, Gyldendal, 2016.

Kirsten Thorup steig fyrst fram á ritvöllinn árið 1967 með ljóðabókinni Indeni – Udenfor og fagnar því 50 ára útgáfuafmæli í ár. Verk Kirstenar Thorup spanna allar bókmenntagreinar, en hún hefur fyrst og fremst sett mark sitt á danskar samtímabókmenntir með djúphugulum og óvenju áleitnum skáldsögum um samfélagsleg viðfangsefni, svo sem Lille Jonna (1977), Himmel og helvede (1982), Den yderste grænse (1987) og Bonsai (2000).

Skáldsögur hennar hafa verið hinum mörgu lesendum sínum sem spegill, þar sem við (svo vitnað sé í Hamlet) höfum getað séð myndsamtíma okkar, ásamt þeim öflum sem hafa skapað þá mynd. Í skáldsögunum eru dregnar upp myndir af flókinni tilveru persóna, og hinum álíka flóknu félagslegu tengslum sem þær eiga – bæði við sína nánustu og við samfélagið, sem heimtar alltaf sitt í verkum Thorup. Skáldsögur hennar ljá oft þeim rödd sem annars hefðu enga, hinum viðkvæmu og jaðarsettu, hinum „röngu“, og svo er einnig í nýjasta verki hennar, Erindring om kærligheden. Aðalpersónan Tara er að slá í gegn í hlutverki Hamlets í tilraunakenndri uppfærslu samnefnds verks, en flýr úr aðstæðunum, m.a. með því að ana út í skipulagt hjónaband við hælisleitanda. Eftir það vindur lífi hennar fram eins og stjórnlausri rússíbanareið. Eins og Hamlet er hún fangi hiksins í eigin tilveru. Hinsvegar réttir hún ítrekað hjálparhönd til hinna verr settu í samfélaginu – þrátt fyrir að vera á sinn hátt alveg jafn illa sett og hjálparvana og fólkið sem hún hjálpar. Án þess að hafa ætlað sér það eignast Tara dótturina Siri, en það verkefni reynist henni erfitt. Frásögnin rekur samband mæðgnanna í fjölda ára. Það er átakanleg og miskunnarlaus atburðarás þar sem kafað er djúpt í viðfangsefni á borð við náin en erfið tengsl, réttindi og skyldur, hið persónulega og hið pólitíska – og ekki síst styrk og gjald ástarinnar. Við förum alla leið að ystu mörkum – og yfir þau. Tara lendir á götunni í Kaupmannahöfn samtímans. En sögunni lýkur ekki þar. Í millitíðinni er Siri orðin pólitísk gjörningalistakona, en í gjörningi hennar um mæðgnasamband – þar sem hið feminíska sjónarhorn losar um spennuna í tengslum mæðgnanna á áhrifamikinn hátt – býr sátt sem gegnir stóru hlutverki í skáldsögunni.

Það er bæði viðeigandi og ekki að lýsa Erindring om kærligheden sem skáldsögu um mæðgnasamband. Það á við vegna þess að samband Töru og Siriar byggir á ást sem er öllu yfirsterkari. Og um leið á það ekki við, vegna þess að hér er á ferð skáldsaga með víða og glögga sýn á samtímann og sem fjallar einnig um öll þau tengsl og sambönd sem skilgreina okkur. Kannski einkum þau tengsl sem við reynum að forðast að mynda – til dæmis tengslin við Rúmenann sem betlar daglega fyrir utan matvöruverslunina.

Einnig að því leyti er Erindring om kærligheden kolsvört skáldsaga, hlaðin óendanlegum blæbrigðum og speki. Hún leggur net sín í hið sammannlega dýpi á þann hátt sem aðeins raunverulegar bókmenntir geta gert.