Lars Amund Vaage

Lars Amund Vaage

Lars Amund Vaage

Ljósmyndari
Helge Skodvin
Lars Amund Vaage: Det uferdige huset. Skáldsaga. Forlaget Oktober, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Lars Amund Vaage á að baki langan og fjölbreyttan höfundarferil. Síðan hann gaf út frumraun sína árið 1979 hefur hann skrifað smásögur, ljóð, barnabækur, esseyjur og skáldsögur. Í Det uferdige huset („Ófullgerða húsið“, hefur ekki komið út á íslensku) virðist höfundur svo hafa einsett sér að bræða saman ýmiss konar sérþekkingu og reynslu sem hann hefur aflað sér á ferlinum – reynslu af skrifum jafnt sem lífinu sjálfu, nánar til tekið. Í því samhengi stendur Det uferdige huset líkt og upphafinn snúningur í höfundarverki hans. „Upphafinn“ vegna þess að Det uferdige huset er með bestu verkum Vaages, og „snúningur“ vegna þess að skáldsagan streymir fram sem einstakt verk, þó að hinn einkennandi stíll höfundar komi greinilega fram og mörg af hans kunnuglegu grunnstefjum séu einnig til staðar í þetta sinn.

Með þessari nýju skáldsögu stígur Lars Amund Vaage mörg skref áfram á höfundarferli sínum. Að vissu leyti þróar hann hér áfram hinn sterka, djúpa og persónulega stíl sem lesendur þekkja úr fyrri verkum hans, en Det uferdige huset er einnig víðfeðm frásögn þar sem höfundurinn bæði sameinar og sækir í stef úr fjölmörgum þekktum bókmenntagreinum og venjum. Vaage ýjar að og nýtir sér opinskátt ýmiss konar stílbrögð og efnistök sem við þekkjum fyrst og fremst úr frásögnum fyrri tíma, uppvaxtarsögum, byggðasögum og svipmyndum af listamönnum, svo að fátt eitt sé nefnt af þeim textatengslum sem höfundur er greinilega meðvitaður um. Um leið er Vaage reyndur rithöfundur sem kann að vara sig á duttlungafullum aðferðum stælingarinnar. Fyrst og fremst er Vaage rannsakandi og spurull skáldsagnahöfundur sem sneiðir fimlega hjá hinum þægilegu griðastöðum nostalgíu og væmni, einnig þegar hann fæst við skýr stef úr t.d. sögulegu skáldssögunni.

Det uferdige huset er auðugt og íhugult verk – í gegnum skáldsöguna liggur þráður esseyjuprósa, svo eldrauður að hann mætti kenna við bæði skáldsagnaljóðrænu og listaskáldskap.

„Allir breytast, líka hinir látnu“, hugsar aðalpersónan Gabriel á einum stað í bókinni, og kannski geymir þessi staðhæfing einmitt grundvallarþýðinguna í þessari skáldsögu Lars Amunds Vaage. Listin felst í hæfileika Vaages til að sameina siðferðilega sjálfsrannsókn og fagurfræðilega speglun í verki sem flæðir fram í átt að óvæntum kennslum.