Mikaela Nyman

Mikaela Nyman
Photographer
Steve King
Mikaela Nyman: När vändkrets läggs mot vändkrets. Ljóðabók, Ellips förlag, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Hin djúpa sorg liggur eins og orgeltónn gegnum ljóðabók Mikaelu Nyman, När vändkrets läggs mot vändkrets („Þegar hvarfbaugar mætast“, ekki þýdd á íslensku), sem er framlag sjálfstjórnarsvæðisins Álandseyja til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Af blíðu, söknuði og snerti af andstöðu lýsir ljóðmælandi síðustu dögum systur sem dó ótímabærum dauðdaga. Dauðhreinsuðu andrúmslofti sjúkrahússins er stillt upp andspænis minningum um ólgandi líf, gleði yfir öllu því sem tilveran býður upp á. „Að vera ungur er að ögra dauðanum,“ segir í einu ljóðanna, sem einkennist jafnframt af draumi og hamingju. Í eitt augnablik voru þau öll saman: ekki einu sinni dauðinn fær því breytt.

Hitt meginumfjöllunarefnið í bók Mikaelu Nyman eru sveiflur milli hinna tveggja menningarheima sem henni finnst hún tilheyra. Nyman fæddist á Álandseyjum árið 1966 og hefur lengi verið búsett á Nýja-Sjálandi, þar sem hún starfar sem blaðamaður, rithöfundur og bókmenntafræðingur. Með spennuþrungnum hætti lætur hún náttúrufar og lífshætti á Álandseyjum mæta goðafræði Maóra, sem hefur sterk tengsl við frumkraft náttúrunnar. Burknar, táknið „koru“ og „laplap“, þjóðarréttur á Vanuatu, skipar allt stóran sess sem þættir í hinu alltumfaðmandi hugtaki „whakapapa“ sem er ættartré sjálfrar náttúrunnar.

Með töfrahljómi sínum hleypa þessi orð sérstæðum þrótti í ljóðin þar sem landfræðileg kennimörk auka tilfinningu lesandans fyrir nánd. Svo gerist það að nýsjálenska eldfjallið Mount Taranaki og hæsta fjall Álandseyja, Orrdalsklint, blikka hvort til annars líkt og tveir vitar úti á alheimshafinu. Öldur og eyjar syngja, vindurinn þýtur, fólk hittist og skilur aftur.

Mikaela Nyman á oft í samtali við heimsbókmenntirnar með textum sínum, allt frá Eliot til Anne Carson og Edith Södergran. Föðurafi hennar, skáldsagnahöfundurinn og presturinn Valdemar Nyman, er þekktur innan álenskra bókmennta. Af mikilli hlýju tengir Nyman eigin skrif við marga af textum afa síns, þar sem tungumálið blómstrar og hyldýpi tilverunnar eru ávallt nærri. Afi hennar átti sér trú – hvernig getur barnabarn hans fundið hana á ný?

Handan fjarlægðar og sorgar glittir í ljós sem Mikaela Nyman fangar í skínandi, kærleiksríkar ljóðlínur: „Spor eftir loppur, leynilegt hlið við viðbeinið á þér. Í hálsakoti þínu finn ég hjartað gogga.“