Niviaq Korneliussen

Den grönländska författaren Niviaq Korneliussen har tilldelats Nordiska rådets litteraturpris 2021 för romanen ”Naasuliardarpi” (Blomsterdalen)

Den grönländska författaren Niviaq Korneliussen har tilldelats Nordiska rådets litteraturpris 2021

Photographer
Norden.org/Magnus Fröderberg
Niviaq Korneliussen: Naasuliardarpi. Skáldsaga. Milik Publishing, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Naasuliardarpi  („Blómadalurinn“, hefur ekki komið út á íslensku) er listilega skrifuð frásögn um það sem býr undir meginstraumnum í grænlensku samfélagi, meðal ungs fólks sem berst fyrir því að fá að lifa lífinu eftir eigin höfði. Þetta er frásögn af ást, vináttu, sorg og ósögðum orðum og tilfinningum. Djörf og vægðarlaus frásögn af þjóð sem hefur lagt sjálfsmorð í bannhelgi og neitar að ræða tilfinningar hinna eftirlifandi – og sögð á hátt sem er í senn gamansamur, háðskur og grafalvarlegur!

„Kona. 25 ára. Hengir sig í íbúð kærustu sinnar.“ „Við munum ávallt minnast þín, skrifa þau á Facebook og tagga þig, en the truth is að það munu fæst þeirra gera, því flest halda þau bara áfram, skrolla áfram, og fer fyrst að ráma í þig þegar þau telja sig sjá þig í bænum og hugsa æ, nei, hún er víst ekki hér lengur.“

Hin nafnlausa aðalpersóna Naasuliardarpi kynntist fyrst veruleika sjálfsvíga þegar hún var þrettán ára gömul. Nú er hún ung kona á leið út í lífið. Hún er nýorðin ástfangin af indælli konu og hefur nýlega fengið inngöngu í háskólann í Árósum. Heimurinn stendur henni opinn. En hún hefur ýmsa djöfla að draga sem hún hefur ekki stjórn á. Henni finnst hún ekki eiga heima í fjölskyldu þar sem allt er hreint og fínt og gagnkynhneigt, hún er ekki sannfærð um að hún verðskuldi ást kærustu sinnar og hún spillir oft fyrir sjálfri sér og öðrum. Smám saman byrjar tilvera hennar að fara út af sporinu og að lokum missir hún alla stjórn.

Sögunni vindur fram á tveimur sviðum, annars vegar glannalegri frásögn af reki höfuðpersónunnar í átt að algerum núllpunkti og hins vegar gegnum stutta texta um sjálfsvíg við upphaf hvers kafla, þar sem talið er niður frá 45 – sem er fjöldi þeirra sjálfsvíga er áttu sér stað á Grænlandi árið 2019.

Sjálfsvíg eru gríðarstórt samfélagslegt vandamál á Grænlandi, vandamál sem er Niviaq Korneliussen afar hugleikið og sem hún sakar stjórnmálamenn og embættismenn samfélagsins um að gera alltof lítið til að takast á við.

„Í nýrri skáldsögu sinni, „Blomsterdalen“, tekst Niviaq Korneliussen á við hina háu sjálfsmorðstíðni á Grænlandi með hlýjum og herskáum, frumlegum og hárbeittum hætti,“ sagði í Weekendavisen í gagnrýni um danska útgáfu bókarinnar, sem kom út hjá danska forlaginu Gyldendal um leið og sú grænlenska – og voru báðar útgáfur skrifaðar af höfundinum sjálfum.

Úr þessari tilvitnun má lesa að verkið sameini bókmenntaleg gæði og brennandi áhuga höfundar á að gera eitthvað við hinum alvarlega sjálfsvígsvanda. Naasuliardarpi er uppgjör við þá bannhelgi sem hvílir á sjálfsmorðum – og í skáldskapnum felast möguleikar sem vitundarvakningarherferðir raunveruleikans ná sjaldnast utan um.

Naasuliardarpi  hefur hlotið verðskuldaða athygli og lof bæði á Grænlandi og í Danmörku. Gagnrýnin hefur verið upp á 5 stjörnur og skáldsagan hefur þegar hlotið tilnefningu til bókmenntaverðlauna Politiken, Montana-verðlaunanna og verðlauna danskra bókmenntagagnrýnenda.

Þó að Niviaq Korneliussen sé aðeins 31 árs er hún síður en svo óskrifað blað í grænlenskum bókmenntum, en allt frá útkomu fyrstu skáldsögu hennar, HOMO sapienne (2014 (HOMO sapína, Sæmundur 2018, Heiðrún Ólafsdóttir þýddi)) hefur verið vísað til hennar sem stjörnu í grænlenskum bókmenntum. HOMO sapína boðaði byltingarkennda nýlundu í grænlenskum bókmenntum, komst á forsíðu Politiken og hélt sigurgöngunni áfram eftir það. Sú skáldsaga var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2015 og hefur síðan verið þýdd á yfir 10 tungumál, sett á svið sem leikrit og nú stendur til að kvikmynda hana.