Torun Lian

Alice og alt du ikke vet og godt er det
Torun Lian: Alice og alt du ikke vet og godt er det. Skáldsaga, Aschehoug forlag, 2017

Alice Andersen er átta ára og ólík fjölskyldunni sinni. Hún er feimin og lágróma og brýtur sífellt heilann. Smávægilegir hversdagshlutir vaxa henni stórkostlega í augum. En þannig fær hún einnig sérstaka sýn á heiminn. Eins og þegar hún er á leið út í búð á sumardegi og sér framtíðina breiða úr sér fyrir framan sig eins og endalaust blómaengi. Hún þorir ýmsu sem aðrir gera ekki. Til dæmis að fara ein út í skóg. Og henni finnst gott að vera á gúmmístígvélum þrátt fyrir að það sé sól og hiti.

Alice virðir heiminn fyrir sér og veltir fyrir sér skynjunum sínum og viðbrögðum á tungumáli sem getur verið fallegt og heimspekilegt en ekki laust við kímni og sjálfhæðni. Dag einn finnur hún fyrir skyndilegum fiðringi í maganum sem hún áttar sig ekki almennilega á. Hann virðist tengjast stórum strák sem heitir Thomas. Thomas er líka á gúmmístígvélum í hitanum. Hún verður enn feimnari en hún á að sér þegar hún hittir hann en hann virðist kæra sig kollóttan um það. Fyrr en varir situr hún niður á bryggjusporði, dinglandi löppum og virðist geta talað um allt.

Sú mynd sem brugðið er upp af innhverfri stelpu er óvenju blæbrigðarík. Þetta er öðru vísi bók um óvænta ást á barnsaldri þegar allt þetta með ást er frekar vandræðalegt. Höfundi tekst á sérstakan hátt að gefa Alice tungumál til að skynja gleði og ótta á sama tíma, gleði yfir öllu sem er og ótta við að það geti skemmst. Tilfinningin að vera uppfyllt og innantóm í senn. Og hvað það getur verið skelfilegt að hugsa til alls sem þú veist ekki um framtíðina og er eins gott að vita ekki neitt um. Það besta við framtíðina er hvað hún er opin.

Þetta er fjórða bókin um Alice AndersenAlice og alt du ikke vet og godt er det („Alice og allt sem þú veist ekki og það er vel“, óþýdd) tekur söguna saman úr fyrri bókum og bætir við hana. Í fjórða bindinu er Alice orðin sterkari og sjálfsöruggari en í fyrri bókunum. Þegar hún hættir sér út fyrir þægindarammann uppgötvar hún að einhver sér hana og skilur.

Myndskreytingar gerir Øyvind Torseter. Í hnitmiðuðum stíl sést Alice frá ýmsum hliðum, þegar hún felur sig bak við hatt, þegar henni líður vel á gúmmístígvélum, sú feimna, sú spurula og sú leitandi Alice.

Torun Lian (f. 1956) er rithöfundur, leikskáld og kvikmyndaleikstjóri. Hún hefur unnið til fjölda norskra og alþjóðlegra verðlauna fyrir verk sín. Hún fékk marga unga lesendur með bókunum Frida (1990), Frida, – med hjertet i hånden (1991) og Bare skyer beveger stjernene (1994). Í barna- og unglingabókinni Adam den tredje i fjerde (2005) sýndi hún enn og aftur hvað henni er lagið að setja sig inn í hugsanir og tilfinningar barna. Bækurnar um Alice Andersen eru þær fyrstu sem höfundur skrifar fyrir yngri lesendur. Fyrsta bókin, Alice Andersen, kom út 2014 en fyrir þá næstu, Reserveprinsesse Andersen (2015), hlaut hún verðlaunin Brageprisen. Fyrir Alice svømmer ikke (2016) hlaut hún bókmenntaverðlaun norska menningarmálaráðuneytisins (Kulturdepartementet). Øyvind Torseter hlaut myndskreytiverðlaunin fyrir myndskreytingar bókarinnar.