Jakob Kullberg

Jakob Kullberg

Jakob Kullberg

Ljósmyndari
Camilla Winther
Jakob Kullberg er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Rökstuðningur:

Jakob Kullberg (f. 1976) hefur getið sér frægðar í Danmörku og um heim allan fyrir flutning sinn og frumflutning á nútímalegum sellókonsertum og kammertónlist.

Hann hefur hlotið mikið lof fyrir hlýjan og fallegan tón, víðfeðmt tjáningarsvið og þá rannsakandi nálgun á tónlistina sem einkennir leik hans. Nálgun sem borin er uppi af mikilli innlifun, innsæi og skilningsgáfu.

Frá árinu 1999 hefur Kullberg átt í nánu og sérstöku samstarfi við danska tónskáldið Per Nørgård. Samstarfið hefur haft gríðarmikla þýðingu fyrir þá báða, einkum hvað snertir rannsóknir og víkkun á möguleikum sellósins í sameiginlegu tónsmíðaferli. Samstarf þeirra hefur getið af sér fjölda tónverka sem Nørgård hefur samið fyrir Kullberg. Þar á meðal er 2. sellókonsert Nørgårds, svo og 4. og 5. sellósónata hans. Samstarfið hefur einnig fundið sér farveg í verkum þar sem Kullberg hefur samið og spunnið eigin sellókadensur. Þetta má meðal annars heyra í Nocturnal Cadenza, kafla í verkinu Three Nocturnal Movements sem var frumflutt ásamt fílharmóníusveit Björgvinjar árið 2015 og tekið upp á plötu 2019.

Kullberg hefur einnig notið sín í nánu samstarfi hljóðfæraleikara og tónskálds með öðru frægu norrænu tónskáldi, en það er Kaija Saariaho. Kullberg hefur leikið báða sellókonserta Saariaho inn á plötur. Seinast var það annar sellókonsert hennar ásamt fílharmóníusveit BBC, en sú plata er væntanleg 2021.

Önnur nýleg samstarfsverkefni hafa getið af sér frumflutning á sellókonsert eftir Kasper Rofelt árið 2018 og verkinu Country eftir Niels Rønsholdt ásamt Orkiestra Muzyki Nowej (Katowice) 2017, þar sem heyra má sellóeinleikarann bæða syngja og spinna. Country kemur út á geislaplötu árið 2021.

Jakob Kullberg er einstakur tónlistarmaður, gæddur forvitni og dirfsku sem knýr hann stöðugt til að rannsaka og láta reyna á mörk í tengslum við hljóðfærið, sjálfan sig og hlutverk tónskálds og tónlistarflytjanda. 
Eins er hann óhræddur við að fara þvert á mörk tónlistargreina, til dæmis með tilraunakenndri spunatónlist eða söng.

Með orðum Kullbergs sjálfs: þetta snýst um frelsi og forvitni og um að kasta sér út í hlutina.