Norræn ráðherrayfirlýsing um alþjóðasamning um plastmengun og markmið fyrir UNEA 5.2

03.11.21 | Yfirlýsing
plastic bucket toy sea water
Ljósmyndari
Sharon McCutcheon, Unsplash.com
Norræna ráðherrayfirlýsingin um alþjóðasamning um plastmengun og markmið fyrir áframhald fimmtu Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (UNEA 5.2) var samþykkt 3. nóvember 2021 af ráðherrum umhverfis- og loftslagsmála á Norðurlöndum.

Upplýsingar

Samþykkt
03.11.2021
Staðsetning
Copenhagen

Við, ráðherrar umhverfis- og loftslagsmála á Norðurlöndum:

 

Höfum þungar áhyggjur af sívaxandi plastmengun sem ógnar umhverfinu og viðurkennum að vandinn er aðkallandi og umfangsmikill,

 

undirstrikum nauðsyn þess að þróa skilvirkar lausnir til lengri tíma, og jafnframt að efla framkvæmd þeirra skuldbindinga sem fyrir liggja,

 

fögnum alþjóðlegu matsskýrslunni „From Pollution to Solution: A Global Assessment of Marine Litter and Plastic Pollution“, sem kynnt var af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) 21. október 2021,

 

leggjum áherslu á nauðsyn þess að grípa til markvissra aðgerða til að draga úr plastmengun og koma í veg fyrir frekari losun í umhverfinu,

 

ítrekum skuldbindingar okkar varðandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna 14.1 og samþykkt 3/7 frá Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hefur það langtímamarkmið að stöðva losun plastúrgangs og örplasts í sjó til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á vistkerfi sjávar og athafnir manna sem eru háðar þeim,

 

kunnum vel að meta samantekt formanns og skýrslu frá hinum opna, sérskipaða hópi sérfræðinga sem komið var á fót gegnum samþykkt 3/7 frá Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, og sem fékk framlengt starfsumboð gegnum samþykkt 4/6 frá Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna,

 

fögnum þeim vaxandi fjölda ríkja sem lýsa yfir stuðningi við nýjan alþjóðasamning um plastmengun á ráðherraráðstefnunni um úrgang í sjó og plastmengun sem Þýskaland, Gana, Ekvador og Víetnam stóðu fyrir af rausnarskap dagana 1.–2. september,

 

fögnum þeim stuðningi sem nýr alþjóðasamningur hefur hlotið frá svæðisbundnum samningum um verndun sjávar og kunnum vel að meta það að ráðherrar samningsaðila fyrir OSPAR, samning um verndun Norður-Atlantshafsins, hafi skuldbundið sig til að styðja alþjóðasamning í Cascais-yfirlýsingunni þann 1. október,

 

undirstrikum það að frekara alþjóðlegs samstarfs er þörf, og að lagalega bindandi alþjóðasamningur um plastmengun er áhrifaríkasta lausnin til að fyrirbyggja og draga úr plastmengun,

 

viðurkennum að framhald á fimmtu Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna veitir einstakt tækifæri til að hefja viðræður um lagalega bindandi samning,

 

styðjum þau drög að ályktun sem lögð voru fram af Perú og Rúanda, þar sem framkvæmdastjórinn var beðinn um að skipa alþjóðlega samninganefnd innan vébanda Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hafi umboð til að útbúa lagalega bindandi samning um plastmengun og eigi að hefja störf árið 2022 með það að markmiði að ljúka starfi sínu fyrir sjöttu Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna,

 

köllum eftir hringrásarhagkerfi plasts, þar sem hanna skal vörur og hráefni með því markmiði að hægt sé að endurnýta, undirbúa til endurnýtingar eða endurvinna og þar með stuðla svo um muni að sjálfbærari neyslu- og framleiðsluháttum og minni umhverfisáhrifum af völdum plasts um allan heim,

 

skuldbindum okkur til að þróa nýjan alþjóðasamning með alhliða nálgun á plastefni út frá heildarvistferli þeirra, með sameiginlegu alþjóðlegu markmiði sem taka á til úrræða sem geta hvatt til virkni stjórnvalda, einkaaðila og hagsmunaaðila sem máli skipta, auk úrræða til að fylgjast með árangri,

 

samþykkjum að halda áfram að hafa áhrif á alþjóðlega ferla ákvarðanatöku í aðdraganda alþjóðasamnings með norrænum skýrslum og áþekkum gögnum,

 

ítrekum þann ásetning, í hlutverkum okkar sem stjórnmálaleiðtogar, að stefna að metnaðarfullum alþjóðasamningi um plastmengun,

 

biðlum til allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um að styðja ákvörðun um að hefja samningaviðræður um nýjan alþjóðasamning um plastmengun á fimmtu Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, þegar henni verður haldið áfram í febrúar/mars 2022, og biðlum til Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) um að styðja þetta ferli,

 

skuldbindum okkur til að styðja alþjóðlega samninganefnd sem skipuð verður þegar fimmtu Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna verður haldið áfram.

 

Kaupmannahöfn, 3. nóvember 2021

Undirritað af eftirtöldum:

 

Krista Mikkonen, ráðherra umhverfismála og loftslagsbreytinga, Finnlandi

 

Lea Wermelin, umhverfisráðherra, Danmörku

 

Per Bolund, umhverfis- og loftslagsráðherra og aðstoðarforsætisráðherra, Svíþjóð

 

Espen Barth Eide, loftslags- og umhverfisráðherra, Noregi

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Íslandi

 

Magnus Rasmussen, umhverfis-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Færeyjum

 

Alfons Röblom, þróunarmálaráðherra, Álandseyjum

 

Kalistat Lund, ráðherra landbúnaðar-, sjálfsnægta-, orku- og umhverfismála, Grænlandi