Helgidagar á Grænlandi

Et grønlandsk flag blafrer i vinden
Photographer
Malin Corlin
Hér er að finna upplýsingar um helgidaga á Grænlandi, lögbundna lokunardaga, frídaga eftir samkomulagi og aðra grænlenska merkisdaga.

Helgidagar eru svo til þeir sömu á öllum Norðurlöndum. Það sama á við um marga merkisdaga sem Grænland á sameiginlega með Danmörku. Engin lög eru um lokunardaga verslana og því eru þær opnar að vild. Þó er vanalegt að verslanir séu lokaðar á helgidögum um jól og páska, einkum í minni bæjum og byggðalögum. Í stórum bæjum eru yfirleitt aðeins stærri matvöruverslanir opnar á helgidögum.

Helgidagar á Grænlandi

Alla jafna eiga starfsmenn á flestum vinnustöðum frí á eftirfarandi helgidögum:

  • 1. janúar: Nýársdagur
  • Páskar: Skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur og annar í páskum. Páskadagur getur fyrst verið 22. mars og síðast 25. apríl.
  • Kóngsbænadagur: Lendir alltaf á föstudaginn fyrir fjórða sunnadag eftir páska, getur fyrst verið 17. apríl og síðast 21. maí.
  • Uppstigningardagur: Er 40 dögum eftir páskadag, alltaf á fimmtudegi, getur fyrst verið 30. apríl og síðast 3. júní. Athugið að lokað er í sumum skólum og dagvistunarúrræðum á föstudegi eftir uppstigningardag.
  • Hvítasunna: Hvítasunnudagur og annar í hvítasunnu. Hvítasunnudagur er sjöundi sunnudagur eftir páska, getur fyrst verið 10. maí og síðast 13. júní.
  • 25. desember: Jóladagur
  • 26. desember: Annar í jólum

Frídagar samkvæmt samkomulagi á Grænlandi

Sumir dagar sem ekki eru helgidagar geta verið frídagar. Það fer eftir því hvort kveðið sé á um það í samningnum þínum. starfsmannahandbók eða samkomulagi. Dagar sem oft eru frídagar á grænlenskum vinnustöðum eru:

  • 1. maí: Afmæli heimastjórnarinnar / frídagur verkalýðsins (oft hálfur frídagur)
  • 21. júní: Ullortuneq (þjóðhátíðardagur Grænlands)
  • 24. desember: Aðfangadagur
  • 31. desember: Gamlársdagur

Aðrir hátíðis-, fána- og merkisdagar á Grænlandi

  • 6. janúar: Mitaarneq (þrettándinn)
  • 5. febrúar: Afmælisdagur hennar hátignar Mary krónprinsessu
  • 6. febrúar: Afmælisdagur hennar hátignar Marie prinsessu
  • Febrúar–mars Fastelavn, fyrsti dagur í föstu, er á sjöunda sunnudegi fyrir páskadag, getur fyrst verið 1. febrúar og síðast 7. mars.
  • 23. mars: Dagur Norðurlanda
  • 9. apríl: Hernám Danmerkur
  • 16. apríl: Afmælisdagur hennar hátignar Margrétar Danadrottningar
  • 29. apríl: Afmælisdagur hennar hátignar Benedikte prinsessu
  • 5. maí: Frelsun Danmerkur
  • 26. maí: Afmælisdagur hans hátignar Friðriks krónprins
  • 1. júní: Dagur barnsins
  • 5. júní: Stjórnarskrárdagurinn (Danmörk)
  • 7. júní: Afmælisdagur hans hátignar Jóakims prins
  • 15. júní: Valdimarsdagur/sameiningardagurinn
  • 23. júní: Jónsmessunótt
  • 3. júlí: Hans Egede-dagurinn
  • 23. september: Vestnorræni dagurinn
  • 24. október: Dagur Sameinuðu þjóðanna
  • 21. desember: Vetrarsólstöður (ullukinneq)

Sérstakir grænlenskir merkisdagar

Mitaarneq 6. janúar

Mitaarneq þýðir „að klæða sig í grímubúning“ og er hefð sem rekja má langt aftur í menningu Inúíta, bæði á vestur- og austurstönd Grænlands. Svipaðar hefðir fyrirfinnast einnig hjá Inúítum í Norður-Ameríku.

Þá hefð að halda mitaarneq á þrettándanum má sennilega rekja til danskra landnema frá 19. öld en á þeim tíma tíðkaðist í Danmörku að ungir piltar gengju um götur þann dag, íklæddir grímubúningum, og syngju sálma.

 

Dagur barnsins 1. júní

Mörg lönd halda dag barnsins hátíðlegan á degi barnasáttmála SÞ en á Grænlandi er hann enn haldinn þann 1. júní.

Haldið er upp á daginn með margvíslegum hætti og eru hátíðahöld mismunandi á milli bæja, en eitt er víst: Börnin eiga þennan dag.

 

Ullortuneq 21. júní

Þjóðhátíðardagur Grænlendinga er haldinn þann 21. júní, lengsta dag ársins. Orðið ullortuneq má þýða sem „lengsti/mesti dagurinn“.

Heimastjórnin ákvað árið 1985 að dagurinn skyldi vera þjóðhátíðardagur Grænlands og það var einnig á þessum degi árið 2009 sem sjálfstjórnarlögin öðluðust gildi.

Haldið er upp á daginn með margvíslegum hætti í hverjum bæ og oft fer fram keppni í selveiðum. Halda veiðimenn þá til hafs á bátum sínum og gengur keppnin út á að snúa fyrstur til lands með sel.

 

Gamlárskvöld 31. desember

Haldið er upp á gamlárskvöld með mjög svipuðum hætti og annars staðar í ríkjasambandinu.

Sá munur er þó á að á Grænlandi er flugeldum ekki aðeins skotið upp á miðnætti heldur má búast við því að heyra sprengingar og sjá himinninn lýsast upp fjórum sinnum. Það er kl. 20.00 til að fagna nýju ári í Danmörku, kl. 22.00 til að fagna nýju ári í Færeyjum, kl. 23.00 til að fagna nýju ári á Austur-Grænlandi og kl. 00.00 til að fagna nýju ári á Vestur-Grænlandi. 

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna