Helgidagar á Grænlandi
Helgidagar eru svo til þeir sömu á öllum Norðurlöndum. Það sama á við um marga merkisdaga sem Grænland á sameiginlega með Danmörku. Engin lög eru um lokunardaga verslana og því eru þær opnar að vild. Þó er vanalegt að verslanir séu lokaðar á helgidögum um jól og páska, einkum í minni bæjum og byggðalögum. Í stórum bæjum eru yfirleitt aðeins stærri matvöruverslanir opnar á helgidögum.
Helgidagar á Grænlandi
Alla jafna eiga starfsmenn á flestum vinnustöðum frí á eftirfarandi helgidögum:
- 1. janúar: Nýársdagur
- Páskar: Skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur og annar í páskum. Páskadagur getur fyrst verið 22. mars og síðast 25. apríl.
- Kóngsbænadagur: Lendir alltaf á föstudaginn fyrir fjórða sunnadag eftir páska, getur fyrst verið 17. apríl og síðast 21. maí.
- Uppstigningardagur: Er 40 dögum eftir páskadag, alltaf á fimmtudegi, getur fyrst verið 30. apríl og síðast 3. júní. Athugið að lokað er í sumum skólum og dagvistunarúrræðum á föstudegi eftir uppstigningardag.
- Hvítasunna: Hvítasunnudagur og annar í hvítasunnu. Hvítasunnudagur er sjöundi sunnudagur eftir páska, getur fyrst verið 10. maí og síðast 13. júní.
- 25. desember: Jóladagur
- 26. desember: Annar í jólum
Frídagar samkvæmt samkomulagi á Grænlandi
Sumir dagar sem ekki eru helgidagar geta verið frídagar. Það fer eftir því hvort kveðið sé á um það í samningnum þínum. starfsmannahandbók eða samkomulagi. Dagar sem oft eru frídagar á grænlenskum vinnustöðum eru:
- 1. maí: Afmæli heimastjórnarinnar / frídagur verkalýðsins (oft hálfur frídagur)
- 21. júní: Ullortuneq (þjóðhátíðardagur Grænlands)
- 24. desember: Aðfangadagur
- 31. desember: Gamlársdagur
Aðrir hátíðis-, fána- og merkisdagar á Grænlandi
- 6. janúar: Mitaarneq (þrettándinn)
- 5. febrúar: Afmælisdagur hennar hátignar Mary krónprinsessu
- 6. febrúar: Afmælisdagur hennar hátignar Marie prinsessu
- Febrúar–mars Fastelavn, fyrsti dagur í föstu, er á sjöunda sunnudegi fyrir páskadag, getur fyrst verið 1. febrúar og síðast 7. mars.
- 23. mars: Dagur Norðurlanda
- 9. apríl: Hernám Danmerkur
- 16. apríl: Afmælisdagur hennar hátignar Margrétar Danadrottningar
- 29. apríl: Afmælisdagur hennar hátignar Benedikte prinsessu
- 5. maí: Frelsun Danmerkur
- 26. maí: Afmælisdagur hans hátignar Friðriks krónprins
- 1. júní: Dagur barnsins
- 5. júní: Stjórnarskrárdagurinn (Danmörk)
- 7. júní: Afmælisdagur hans hátignar Jóakims prins
- 15. júní: Valdimarsdagur/sameiningardagurinn
- 23. júní: Jónsmessunótt
- 3. júlí: Hans Egede-dagurinn
- 23. september: Vestnorræni dagurinn
- 24. október: Dagur Sameinuðu þjóðanna
- 21. desember: Vetrarsólstöður (ullukinneq)
Sérstakir grænlenskir merkisdagar
Mitaarneq 6. janúar
Mitaarneq þýðir „að klæða sig í grímubúning“ og er hefð sem rekja má langt aftur í menningu Inúíta, bæði á vestur- og austurstönd Grænlands. Svipaðar hefðir fyrirfinnast einnig hjá Inúítum í Norður-Ameríku.
Þá hefð að halda mitaarneq á þrettándanum má sennilega rekja til danskra landnema frá 19. öld en á þeim tíma tíðkaðist í Danmörku að ungir piltar gengju um götur þann dag, íklæddir grímubúningum, og syngju sálma.
Dagur barnsins 1. júní
Mörg lönd halda dag barnsins hátíðlegan á degi barnasáttmála SÞ en á Grænlandi er hann enn haldinn þann 1. júní.
Haldið er upp á daginn með margvíslegum hætti og eru hátíðahöld mismunandi á milli bæja, en eitt er víst: Börnin eiga þennan dag.
Ullortuneq 21. júní
Þjóðhátíðardagur Grænlendinga er haldinn þann 21. júní, lengsta dag ársins. Orðið ullortuneq má þýða sem „lengsti/mesti dagurinn“.
Heimastjórnin ákvað árið 1985 að dagurinn skyldi vera þjóðhátíðardagur Grænlands og það var einnig á þessum degi árið 2009 sem sjálfstjórnarlögin öðluðust gildi.
Haldið er upp á daginn með margvíslegum hætti í hverjum bæ og oft fer fram keppni í selveiðum. Halda veiðimenn þá til hafs á bátum sínum og gengur keppnin út á að snúa fyrstur til lands með sel.
Gamlárskvöld 31. desember
Haldið er upp á gamlárskvöld með mjög svipuðum hætti og annars staðar í ríkjasambandinu.
Sá munur er þó á að á Grænlandi er flugeldum ekki aðeins skotið upp á miðnætti heldur má búast við því að heyra sprengingar og sjá himinninn lýsast upp fjórum sinnum. Það er kl. 20.00 til að fagna nýju ári í Danmörku, kl. 22.00 til að fagna nýju ári í Færeyjum, kl. 23.00 til að fagna nýju ári á Austur-Grænlandi og kl. 00.00 til að fagna nýju ári á Vestur-Grænlandi.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.