Bílamál á Grænlandi

Biler i kø ved passet, Nuuk
Photographer
Malin Corlin
Hér er hægt að lesa um reglur varðandi eignarhald og innflutning bifreiða og annarra ökutækja til Grænlands.

Viljir þú eiga bíl á Grænlandi skaltu athuga að þar er ekki hægt að komast akandi á milli bæja. Sökum mikilla fjarlægða og fjalla og fjarða sem brjóta upp landslagið hefur aldrei verið lagt vegakerfi til að tengja saman landshluta á Grænlandi.

Viljir þú engu að síður eiga ökutæki þar eru ýmsir möguleikar í boði. Í stærri bæjum eru margir bifvélavirkjar sem stunda einnig bílasölu. Sala einstaklinga á notuðum bílum fer oftast fram á sölusíðum á Facebook.

Lítist þér ekki á úrvalið á staðnum er líka hægt að kaupa ökutæki að utan og fá sent til Grænlands.

Innflutningsgjald

Kaupir þú ökutæki frá öðru landi en Grænlandi til að fá sent inn í landið þarftu að greiða innflutningsgjald. Gjaldið má greiða um leið og ökutækið er komin á höfnina í Álaborg í Danmörku, en skylt er að greiða það innan tveggja vikna frá komu ökutækisins til Grænlands.

Greiðsla

Viljir þú flytja ökutæki inn til Grænlands sem einstaklingur þarftu að fylgja greiðsluskilmálum þeirra skipafyrirtækja og flutningafyrirtækja sem í hlut eiga, en stundir þú atvinnurekstur gilda sérstakar reglur.

Hafir þú keypt aukahluti sem sendir eru með ökutækinu skaltu athuga að einnig þarf að greiða innflutningsgjöld af þeim.

Upphæð innflutningsgjaldsins fer eftir ökutækinu. Sé um að ræða fólksbíl eða vörubíl undir fjórum tonnum er gjaldið reiknað út frá kaupverði ökutækis.

Nokkrar gerðir ökutækja hafa undanþágu frá innflutningsgjaldinu.

Skráning ökutækja

Eigir þú ökutæki á Grænlandi þarf það að vera skráð hjá grænlensku lögreglunni.

Þegar þú kemur til að skrá ökutæki skaltu hafa eftirfarandi meðferðis:

  • Tryggingaskírteini
  • Ökutækið
  • Kvittun fyrir greiddu bifreiðagjaldi
  • Skráningareyðublað, útfyllt og undirritað

Að auki þarf skráningarnúmerið að vera vel sýnilegt þegar ökutækið er sýnt lögreglunni.

Bifreiðagjald

Bifreiðagjald á Grænlandi er þyngdar- og vegagjald sem öllum eigendum ökutækja, bæði einstaklingum og atvinnurekendum, er skylt að greiða.

Gjaldið skal greiða tvisvar á ári og fer upphæðin eftir þyngd ökutækis.

Það er Skattestyrelsen sem sér um innheimtu bifreiðagjalds.

Fjórhjól og vélsleðar á Grænlandi

Auk þess að aka bílum í bæjunum er hægt að fara um á fjórhjólum og vélsleðum á vissum tímum árs. Fjórhjól eru einkum notuð í dreifðari byggðum, svo sem á bæjum þar sem íbúar stunda sauðfjárrækt, og vélsleðar veita mikla möguleika til ferðalaga á fjöllum yfir vetrarmánuðina.

Líkt og með bílana er skylda að skrá fjórhjól eða vélsleða hjá lögreglunni.

Hins vegar þarf ekki að greiða innflutningsgjöld af fjórhjólum eða vélsleðum. Innflutningsgjaldi vegna fjórhjóla var aflétt 2019 en innflutningsgjaldi vegna vélsleða var aflétt 1. janúar 2021.

Eins og stendur gilda samsvarandi lög og reglur um fjórhjól og um bíla og traktora, og ökumenn þeirra þurfa að vera orðnir 18 ára og hafa gilt ökuskírteini.

Ekki þarf ökuskírteini til að aka vélsleða, en þó þarf að hafa náð 18 ára aldri og allir farþegar, að ökumanni meðtöldum, þurfa að hafa hjálm.

Athugaðu líka að hvert sveitarfélag hefur sínar eigin reglur varðandi akstur vélsleða, meðal annars um það hvaða svæðum má ekki aka vélsleðum á, og ekki er leyfilegt að stunda veiðar á vélsleðum.

Umferðarreglur á Grænlandi

Hyggir þú á akstur á grænlenskum vegum þarftu auðvitað að athuga hvaða umferðarreglur gilda þar, því þær geta verið frábrugðnar þeim reglum sem gilda í hinum norrænu löndunum.

Auk þess að vera vakandi fyrir öðrum ökumönnum, hjólreiðafólki og gangandi vegfarendum þarf einnig að taka tillit til vélsleða og hundasleða í vissum hlutum landsins.

Á Grænlandi eru heldur ekki gangstéttir við alla vegi, og þar sem eru gangstéttir eru þær oft samhliða hjólastígum svo að hjólreiðafólk þurfi ekki að vera á götunni.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna