Um upplýsingaþjónustuna Info Norden

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar sem ætluð er fólki sem flyst búferlum, starfar, stundar nám eða ætlar að stofna fyrirtæki á Norðurlöndum. Starf Info Norden er til staðar í öllum átta norrænu löndunum.

Upplýsingar um öll Norðurlönd

Vinnumarkaður Norðurlandanna er sameiginlegur og milli ríkjanna eru samstarfssamningar meðal annars um almannatryggingar og menntun.

Meginhlutverk Info Norden er að auðvelda frjálsa för einstaklinga á Norðurlöndum. Þetta er gert með því að fræða Norðurlandabúa um þær reglur sem gilda um flutning, ferðalög til vinnu, nám, og annað. Á vefsíðum Info Norden finnur þú almennar upplýsingar um regluverkið í hverju landi, samskiptaupplýsingar um stjórnvöld og hagnýtar upplýsingar um það sem þú þarft að gera þegar þú flytur til annars norræns ríkis, starfar þar, stofnar fyrirtæki eða stundar nám.

Ef svörin finnast ekki á síðunum er hægt að hafa samband við Info Norden með því að fylla út eyðublað eða setja sig í samband við eina af upplýsingaskrifstofunum. Við getum einnig veitt þér upplýsingar um hvert skal leita varðandi norræna styrki og almennt varðandi norrænt samstarf.

Upplýsingarnar eru á dönsku, finnsku, íslensku, norsku, sænsku og ensku. Hægt er að hafa samband við skrifstofuna á einu af þessum tungumálum auk færeysku og grænlensku.

Unnið að afnámi stjórnsýsluhindrana

Meðal helstu verkefna Info Norden er að kortleggja vandamál og mögulegar norrænar stjórnsýsluhindranir sem einstaklingar og lítil fyrirtæki standa frammi fyrir þegar þau hyggjast starfa í öðru norrænu ríki. Ef þú rekst á vandamál eða hindrun í öðru norrænu landi getur þú látið okkur vita af því.

Info Norden notar upplýsingar um stjórnsýsluhindranir frá einstaklingum, meðal annars í samstarfi við Stjórnsýsluhindranaráðið, til þess að vekja athygli viðeigandi stjórnmálamanna og embættismanna á vandamálum og mögulegum lausnum. Þannig stuðlar Info Norden að því að skapa heildarmynd af tækifærum og áskorunum á Norðurlöndum.

Info Norden vekur athygli á óljósum reglum, upplýsingaskorti og ósamræmi milli norrænna reglugerða. Info Norden safnar saman upplýsingum um norrænar stjórnsýsluhindranir og gerir þær aðgengilegar borgurum og stjórnvöldum með því að birta þær í gagnagrunni Norrænu ráðherranefndarinnar um stjórnsýsluhindranir.

Einnig er upplýsingum um norrænar stjórnsýsluhindranir miðlað áfram til hlutaðeigandi stjórnmálamanna, Norrænu ráðherranefndarinnar og stjórnvalda í norrænu ríkjunum. Info Norden er mikilvægur aðili að formlegu samstarfi til þess að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi á Norðurlöndum.

Skipulag Info Norden

Upplýsingaskrifstofur Info Norden eru á Álandseyjum, í Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð .

Info Norden heyrir undir samstarfsráðherra Norðurlanda og samskiptasvið Norrænu ráðherranefndarinnar (KOMM) hefur yfirumsjón með verkefninu.

Upplýsingaþjónustan starfar í umboði Norrænu ráðherranefndarinnar og er fjármögnuð af henni.

Mismunandi stofnanir sjá um rekstur Info Norden:

  • norrænt Atlantshafssamstarf rekur skrifstofu Info Norden í Færeyjum.
  • á Grænlandi rekur Norræna stofnunin (NAPA) skrifstofu Info Norden.
  • í Svíþjóð rekur Nordregio skrifstofu Info Norden.
  • allar aðrar skrifstofur Info Norden eru reknar af Norrænu félögunum.

Kemur Norðurlöndum á kortið

Info Norden stendur að upplýsingastarfi af ýmsu tagi til að vekja athygli á frjálsri för á Norðurlöndum, upplýsa um norrænar reglur og til þess að skapa vettvang fyrir samskipti þvert á landamæri. Upplýsingastarfið fer fram í hverju landi fyrir sig, oft í samvinnu við aðrar skrifstofur Info Norden eða aðra tengda aðila. Markhóparnir eru ýmist almenningur, starfsmenn opinberra stofnana, stjórnmálamenn eða annað forystufólk.

Info Norden starfar með öðrum upplýsingaþjónustum, SOLVIT, Stjórnsýsluhindranaráðinu, sendiráðum Norðurlanda, Eures, opinberum stofnunum í norrænu ríkjunum, atvinnulífssamtökum og fleirum.

Takmarkanir Info Norden

Info Norden gegnir ekki hlutverki umboðsmanns og er ekki ætlað að aðstoða einstaklinga við erindi sem krefjast þess að nafn eða kennitala sé notuð. Verkefnastjórarnir geta ekki haft samband við stjórnvöld fyrir hönd einstaklinga og upplýsingar sem veittar eru eru ávallt á almennum grundvelli.

Við vonum að þú finnir svar við spurningum þínum um Norðurlönd á vefsíðunum.