Formennska Svíþjóðar í Norðurlandaráði 2019

Sveriges Riksdag
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlönd sérhvern dag – lýðræði og almennur stuðningur

Norrænt samstarf nýtur mikils stuðnings almennings og snertir öll svið mannlífsins sérhvern dag. Við störfum saman á grundvelli sameiginlegrar sögu okkar, menningar og gilda. Árin 2018 – 2022 vekur sænska þingið athygli á og fagnar hundrað ára lýðræðisafmæli í Svíþjóð. Meðan Svíar gegna formennsku í Norðurlandaráði vill landsdeild Svíþjóðar af þessu tilefni leggja áherslu á þýðingu lýðræðis fyrir velsæld Norðurlanda. Samband norrænu félaganna fagnar einnig aldarafmæli árið 2019 og landsdeildin hyggst því jafnframt leggja áherslu á einstakt samstarf norrænu þjóðanna og undirstöðu þess - hinn almenna stuðning almennings í löndunum. Norrænt samstarf á rætur sínar að rekja til persónulegra tengsla milli landanna. Hefð er fyrir breiðum stuðningi við norræna samþættingu og norrænt samstarf. Norrænt samstarf er til dæmis stundað í atvinnulífinu og hjá stéttarfélögum, stjórnmálaflokkum og félagasamtökum og allt er þetta samþætt á norræna vísu.

Í formennskuáætlun landsdeildar Svíþjóðar fyrir árið 2019 er lýðræði á Norðurlöndum og víðtæku almennu samstarfi gert hátt undir höfði með þeirri áherslu sem lögð er á mál sem eru efst á baugi um þessar mundir og betri árangri skilar ef löndin vinna saman að þeim en hvert út af fyrir sig, enda hefur það í för með sér norrænt notagildi. Ætlunin er að létta undir með borgurunum í dagsins önn, skiptast á upplýsingum um reynslu af umbótum á ýmsum sviðum samfélagsins og afla samnorrænum gildum stuðnings á alþjóðavettvangi.

Norðurlönd hafa þörf fyrir víðfeðman norrænan opinberan vettvang þar sem unnt er að skiptast á skoðunum um samnorræn álitaefni og þannig tryggja lýðræðislegan grundvöll undir hið norræna samstarf og hina auknu norrænu samþættingu.

Félagslegt traust, sem einkennir okkar norrænu lönd, er mikilvægt þátttöku í stjórnmálalífi og almennri lýðræðislegri þróun. Grundvallarreglur lýðræðisins, almennur og jafn kosningaréttur, jafnrétti kynjanna og upplýsingaréttur almennings, urðu meðal annars til fyrir tilstuðlan almennra borgara og á grundvelli almennra þjóðfélagsviðhorfa. Landsdeild Svíþjóðar vill nýta fundi, ráðstefnur, þemaþing og loks Norðurlandaráðsþingið í Stokkhólmi á árinu 2019 til að varpa ljósi á hve mikla þýðingu innleiðing lýðræðis hefur haft og sömuleiðis almennur stuðningur sem lýsir sér í þátttöku og aðild borgaranna eða fulltrúa þeirra að öllum þáttum ákvarðanaferlis.

Til að standa vörð um samfellu og gildi norræns samstarfs hyggjast Svíar hafa hliðsjón af fyrri formennskuáætlunum á meðan þeir fara með formennsku og halda áfram umfjöllun um þau málefni líðandi stundar sem heyra undir ábyrgðarsvið forsætisnefndar og fagnefndanna. Áætlunin á því að rúmast innan núverandi starfsemi og tryggja að norrænt samstarf njóti einnig framvegis viðurkenningar.

Jafnrétti – forsenda lýðræðis

Lýðræðissjónarmiðið og mikilvægi almenns stuðnings

Jafnrétti kynjanna er eitt af grundvallaratriðum lýðræðis og vegur þungt á metunum í norrænu samstarfi. Samfélag sem byggist á jafnrétti er flaggskip Norðurlanda og ein af ástæðum þess hve góðan árangur norræna líkanið hefur borið. Mismunun gagnvart konum á sér þó enn stað á Norðurlöndum. Jafnréttismál þurfa því að vera með helstu áherslumálum Norðurlanda við þróun þeirra á sjálfbæru lýðræði sem einkennist af þátttöku og jöfnum áhrifum.

Norðurlönd hafa átt með sér gott samstarf um jafnréttismál í meira en 40 ár og jafnrétti skilgreinir löndin okkar. Enn er þó verk að vinna á þessu sviði, til dæmis hvað varðar kynbundnar starfsgreinar, ástæðulausan launamun og ofbeldi gegn konum. Þrátt fyrir margra ára baráttu fyrir fullu efnahagslegu jafnfrétti njóta konur enn ekki jafnrar aðstöðu og karlar til þátttöku á vinnumarkaðnum, starfslengdar og starfsframa. Staða kvenna af erlendum uppruna krefst sérstakrar athygli. Norrænu löndin standa frammi fyrir hliðstæðum áskorunum varðandi aðlögun og þátttöku. Þörf er á langtímaráðstöfunum á sviði jafnréttismála í mörgum málaflokkum og með þátttöku margra aðila á sveitar- og svæðisstjórnarstigi sem og á landsvísu til að draga úr og vinna gegn jaðarsetningu í samfélaginu. Jafnréttisstarfið þarf ekki síður að vera viðfangsefni drengja og karla eigi að breyta viðmiðum í samfélaginu og staðalmyndum.

Árið 2019 hefur landsdeild Svíþjóðar hug á að leggja áherslu á skilvirkara jafnréttisstarf í löndunum, að þau læri hvert af öðru og leitist áfram við að hafa áhrif á til dæmis launamun, ójöfn valdahlutföll og jaðarsetningu til að gera aukna aðlögun og þátttöku í lýðræðisstarfi mögulega.

▶ Hvernig á að jafna tækifæri kynjanna til að hafa völd og áhrif (hlutfall í valdastöðum stuðlar ekki ætíð að jafnri skiptingu)?

▶ Hvað þurfa norræn lönd að gera til að eyða kynbundnum launamuni?

▶ Hvernig má auka atvinnuþátttöku kvenna af erlendum uppruna, draga úr jaðarsetningu og skapa forsendur fyrir aukinni lýðræðislegri þátttöku?

▶ Hvað geta löndin lært hvert af öðru? Hvernig fer samspil stjórnmála og borgaralegs samfélags fram? Til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að tryggja jafnrétti og lýðræði í samfélaginu?

Stafvæðing og stafræn hæfni - nýjar forsendur lýðræðis

Lýðræðissjónarmiðið og mikilvægi almenns stuðnings

Stafvæðingin hratt af stað mestu samfélagsbreytingum sem orðið hafa frá upphafi iðnvæðingar. Fyrir vikið gjörbreytast skilyrði, þarfir og aðstæður einstaklinga og samfélagsins, fyrirtækja og opinbera geirans, vinnumarkaðar, menntakerfis og félagasamtaka. Stafræn tækniþróun hefur áhrif á hagvöxt og sjálfbærni, velferð og jöfnuð, öryggi og lýðræði. Hún hefur breytt því hvernig fólk nálgast upplýsingar, hefur samskipti og bregst við hvert öðru og þar af leiðandi breyttust einnig aðstæður til þátttöku í samfélaginu. Í fulltrúalýðræði starfa stjórnmálaflokkar í umboði kjósenda. Norðurlönd munu einnig framvegis hafa þörf fyrir viðfeðman opinberan vettvang þar sem Norðurlandabúar geta skipst á skoðunum um sameiginleg norræn álitaefni. Stafvæðingin eflir tengslin við almenning, hún treystir böndin á milli stjórnmálamanna og kjósenda, ef hún er notuð til að kynnast hugmyndum borgaranna og gefa þeim tækifæri til að taka þátt í að leysa sameiginleg samfélagsmál.

Stjórnsýslan á Norðurlöndum er framarlega í notkun stafrænnar tækni. Samhliða er verið að þróa hjúkrunar- og umönnunarkerfi á grunni nýrra stafrænna lausna, svo sem rafræna heilbrigðisþjónustu. Allt sem snertir stafræna þróun er ofarlega á baugi og forgangsmál hjá mörgum fagnefndum ráðsins og í formennskuáætlunum Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2018. Stafræn framþróun á vinnumarkaðinum gerir sífellt nýjar kröfur til hæfni starfsfólks. Til að mæta þörfum vinnumarkaðarins í framtíðinni þarf að fræða fólk um notkun stafrænnar tækni en það krefst forystu um stafvæðinguna og tækifæri til símenntunar.

Landsdeild Svíþjóðar vill að Norðurlandaráð vinni sem fyrr að því á árinu 2019 að frekari uppbygging rafrænnar tækni verði notendavæn og íbúar landanna sitji í fyrirrúmi og tillit verði einnig tekið til þeirra sem kunna ekki að nota hin og þessi stafrænu kerfi. Allir, konur og karlar, stúlkur og drengir, óháð félagslegum bakgrunni, starfsgetu og aldri, eiga að njóta tækifæra til að nýta sér stafrænar upplýsingar og þjónustu hins opinbera og taka jafnan þátt í samfélaginu.

▶ Hvað þarf til að tryggja getu og tækifæri fólks til að leggja sitt af mörkum til stafvædds samfélags og taka þátt í því?

▶ Hvernig má auka hvata til að halda áfram að þróa hæfni í notkun stafrænnar tækni og getu til að taka þátt í stafvæddum vinnumarkaði og samfélagi?

▶ Hvað geta löndin lært hvert af öðru? Hvernig fer samspil stjórnmála og borgaralegs samfélags fram? Til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að tryggja lýðræði í samfélaginu?

Stjórnsýsluhindranir

Lýðræðissjónarmiðið og mikilvægi almenns stuðnings

Með því að fyrirbyggja og leysa úr stjórnsýsluhindrunum getur Norðurlandaráð létt fólki lífið. Stjórnsýsluhindranir varða raunhæf og hversdagsleg vandamál. Til að stuðla að frekari samþættingu á Norðurlöndum verður að fækka hindrunum í löndunum og ráða bót á upplýsingaskorti sem torveldar fólki að flytjast búferlum, sækja vinnu, stunda nám eða reka fyrirtæki yfir landamæri. Mál sem varða stjórnsýsluhindranir og koma endurtekið til umfjöllunar eru meðal annars rafrænir lyfseðlar, fjarlækningar, tækifæri til að ferðast, nema og vinna á landamærasvæðum, bættar aðstæður í byggingariðnaði, gagnkvæm viðurkenning á starfsréttindum, jafngild menntun, kröfur um starfshæfni og hvernig ryðja megi burt hindrunum fyrir starfsfólk í menningargeiranum.

Landsdeild Svíþjóðar vill að stjórnsýsluhindranir verði áfram forgangsmál á árinu 2019 og unnið verði gegn því að ný löggjöf í löndunum og upptaka á ESB-tilskipunum leiði af sér nýjar hindranir. Þessu á fyrirbyggjandi löggjafarsamstarf á Norðurlöndum að koma til leiðar sem og samhæfingu við innleiðingu á löggjöf ESB. Samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu í september 2016 að panta skýrslu sem varpar ljósi á tækifærin fyrir norrænt löggjafarsamstarf í framtíðinni í þeim tilgangi að efla samþættingu landanna. Í lokaskýrslunni segir meðal annars að mikilvægt sé að löggjafarsamstarfið njóti pólitísks stuðnings og forgangs. Hér gæti Norðurlandaráð gegnt hlutverki við að forgangsraða sviðum þar sem einkum ætti að viðhafa norrænt samstarf.

▶ Norðurlandaráð fylgir eftir úttekt ráðherranefndarinnar á norrænu löggjafarsamstarfi.

▶ Hvernig komum við í veg fyrir að ný löggjöf í löndunum og upptaka ESB-tilskipana hafi nýjar stjórnsýsluhindranir í för með sér?

▶ Hvað geta löndin lært hvert af öðru? Hvernig fer samspil stjórnmála og borgaralegs samfélags fram? Til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að tryggja lýðræði í samfélaginu?

Loftslagsmál – án landamæra og forsenda lýðræðis og sjálfbærrar þróunar

Loftslagsbreytingarnar eru með stærstu áskorunum samtímans og eðli máls samkvæmt virða umhverfismál ekki landamæri. Loftslagið hefur áhrif á fæðuöryggi og hreint vatn, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og vistkerfa, öryggi fólks, jafnrétti, heilsufar og hagvöxt. Norðurlandaráð hefur löngum látið umhverfis- og loftslagsmál til sín taka og leggur þunga áherslu á sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og kappkostar að hafa þau sýnileg í starfsemi sinni.

Árin 2017 og 2018 lét Norræna ráðherranefndin vinna stefnumótandi úttekt á norrænu umhverfissamstarfi til að kanna ný sóknarfæri í samstarfi landanna um umhverfis- og loftslagsmál. Samkvæmt skýrslunni eru miklir ónýttir möguleikar á endurnýtingu og endurvinnslu plasts. Lagt er til að norrænu ríkin komi á fót vettvangi til að tryggja sjálfbærni plasts og styrkja hringrásarhagkerfið. Málefni sem varða plast hafa í mörg ár verið ofarlega á pólitískri dagskrá norræns samstarfs. Allir nota plast á hverjum degi. Plastnotkun getur verið byrjunarreitur í norrænu samstarfi um að raungera hringrásarhagkerfi og draga úr nýtingu náttúruauðlinda.

Stór hluti aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda út í gufuhvolfið á sér skýringu í hvernig við vinnum, umbreytum og brennum jarðefnaeldsneyti. Hvarvetna á Norðurlöndum er þörf á að aðlaga flutningageirann í þá veru að jarðefnaeldsneyti heyri sögunni til. Ef illa fer geta loftslagsbreytingarnar haft neikvæð áhrif á aðra þætti umhverfismála. Loftslagsmál, flutningar, loftgæði og heilbrigði eru tengd.

Landsdeild Svíþjóðar vill að árið 2019 verði lögð áhersla á að fylgja eftir úttekt ráðherranefndarinnar og styðja við framfylgni Norðurlanda á Dagskrá 2030 og Parísarsamningnum. Landsdeildin vill enn fremur að Norðurlandaráð vinni áfram að umhverfis- og loftslagsmálum sem snerta daglegt líf, svo sem að því að draga úr plastúrgangi og örplasti og efla hringrásarhagkerfið. Þessi mál standa öllum nærri í önn hversdagsins, en jafnframt í landsbundnu, norrænu, svæðisbundnu og hnattrænu tilliti.

▶ Norðurlandaráð fylgir eftir skýrslu ráðherranefndarinnar um ný sóknarfæri í samstarfinu um umhverfis- og loftslagsmál.

▶ Hvernig geta Norðurlönd miðlað þekkingu og fordæmum sem stuðla að aukinni sjálfbærni í heiminum og hvernig eigum við á Norðurlöndum að vinna saman að því að framfylgja nýju loftslagsmarkmiðunum og Dagskrá 2030?

▶ Loftslagsmál, flutningar, loftgæði og heilbrigði eru tengd. Hvernig getur ráðið stuðlað að því að flutningageirinn á Norðurlöndum losni alfarið við að nota jarðefnaeldsneyti?

▶ Hvað geta löndin lært hvert af öðru? Hvernig fer samspil stjórnmála og borgaralegs samfélags fram? Til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að tryggja lýðræði í samfélaginu?