Samþykktir fyrir Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Elfa Rún Kristinsdóttir
Photographer
Tim Mintiens
Samþykktirnar taka gildi 1. janúar 2016 og falla þá úr gildi samþykktirnar frá 1989 með breytingum frá árinu 2009.

Markmið verðlauna Norðurlandaráðs er að auka áhuga á menningarsamkennd og umhverfissamstarfi Norðurlanda og að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði lista og umhverfismála. Verðlaunin eiga að stuðla að því að vekja athygli á samstarfi Norðurlanda og marka því stöðu.


§ 1. Almenn ákvæði

Tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1989 að tillögu Norðurlandaráðs. Tónlistarverðlaunin byggja á eldri verðlaunum fyrir skapandi tónlist sem stofnað var til árið 1964.

Samþykktirnar fyrir Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs eru mótaðar í sameiningu af Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni.

Hefja skal viðræður um endurskoðun samþykktanna ef annað hvort Norðurlandaráð eða Norræna ráðherranefndin óska eftir því.

Fella skal samþykktirnar úr gildi, og þar með Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, ef Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin komast að samkomulagi um það.

Norræna ráðherranefndin fjármagnar starfsemina undir liðnum norrænt menningarsamstarf. Upphæð Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs er ákveðin í tengslum við umfjöllun um fjárhagsáætlunina.

Norræna ráðherranefndin hefur umsjón með verðlaununum. Norræna ráðherranefndin getur gert samning við þriðja aðila um að sinna skrifstofuhlutverki fyrir verðlaunin (skrifstofa verðlaunanna).


§ 2. Verðlaunaverkið/verðlaunatónlistarmaðurinn

Annað hvert ár eru verðlaunin veitt fyrir verk eftir núlifandi norrænt tónskáld og annað hvert ár fyrir norrænt starf lítillar eða stórrar hljómsveitar eða eins tónlistarmanns. Þegar ártalið er jöfn tala eru verðlaunin veitt tónskáldi og þegar það er oddatala eru þau veitt hljómsveit/tónlistarmanni.

Engar takmarkanir eru varðandi tónlistargeira en skilyrði er að verkið uppfylli háar kröfur um listrænt gildi og faglega færni, og að það teljist frumlegt á sínu sviði. Tímabærni verksins er jafnframt mikilvæg og það má ekki vera eldra en fimm ára.

Um tónlistarflytjendur gildir að samfella þarf að hafa verið í starfi þeirra. Lögð er áhersla á að tónlistarflutningur þeirra teljist vera nýskapandi í sínum geira, að hann sé á háu listrænu og faglegu stigi, og að þeir séu starfandi þegar þeir hljóta tilnefningu.

Þegar um er að ræða stórar eða litlar hljómsveitir ákveður dómnefndin hvernig verðlaununum skuli skipt.

Tilkynnt er um verðlaunahafann og verðlaunin afhent einu sinni á ári í tengslum við viðburð sem Norðurlandaráð velur.

Norðurlandaráð þarf að tilkynna skrifstofu verðlaunanna í síðasta lagi í upphafi árs hvar og hvenær eigi að afhenda verðlaunin.

Í síðasta lagi þremur vikum fyrir afhendingu verðlaunanna þarf norræna dómnefndin að tilkynna framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs um ákvörðun sína og rökstuðning.

§ 3. Landsbundnu dómnefndirnar og norræna dómnefndin

Í tengslum við Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs eru starfræktar landsbundnar dómnefndir í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Jafnframt er starfandi norræn dómnefnd.

Eftir að hafa leitað umsagnar Norðurlandaráðs og skrifstofu verðlaunanna tekur Norræna ráðherranefndin saman handbók um umsjón verðlaunanna. Í því sambandi eru meðal annars settar reglur um eftirfarandi:

  • Starfsemi dómnefndanna
  • Árlega dagskrá verðlaunanna
  • Reglur um kosningu
  • Greiðslur til aðal- og varamanna í dómnefndunum

 

Landsbundnu dómnefndirnar

Landsbundnar dómnefndir í hverju landi tilnefna til verðlaunanna.

Í landsbundnu dómnefndunum sitja tveir aðalmenn og einn varamaður frá hverju landi, það er að segja frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.

Aðalmenn og varamenn í landsbundnu dómnefndunum eru skipaðir af Norrænu ráðherranefndinni (af framkvæmdastjóranum) eftir tillögu menningarmálaráðuneytisins í hverju landi. Þeir sitja í fjögur ár með möguleika á framlengingu í fjögur ár til viðbótar. Aðal- og varamönnum er skipt út samkvæmt ákveðnu kerfi sem lýst er í fylgiskjali tvö með handbókinni.

Hægt er að skipa aðal- og varamenn sem setið hafa í tvö fjögurra ára tímabil að nýju eftir fjögurra ára ára hlé.

Tilnefna má eitt verk eða tónlistarflytjanda frá Færeyjum, eitt frá Grænlandi og eitt frá Álandseyjum. Þau verk/tónlistarflytjendur eru tilnefnd af samtökum tónlistarmanna eða samsvarandi aðila í hverju landi/svæði. Fulltrúi viðkomandi samtaka tónlistarmanna eða samsvarandi aðila er skipaður tímabundið í dómnefndina. Yfirvöld menningarmála á hverjum stað tilkynna Norrænu ráðherranefndinni hvern eigi að skipa sem tímabundinn meðlim. Tímabundnu meðlimirnir taka þátt í starfi nefndanna á sama hátt og aðrir aðalmenn.

Aðal- og varamenn eiga að vera sérfræðingar í tónlist eigin lands og eftir því sem unnt er einnig í tónlist annarra norrænna landa.

Tilnefningaferlið

Hver landsbundin dómnefnd má í mesta lagi leggja fram tvær tillögur um verðlaunahafa. Einnig má leggja fram eina tillögu frá Færeyjum, eina frá Grænlandi og eina frá Álandseyjum.

Tilnefningarnar þurfa að hafa verið lagðar fram í síðasta lagi fimm mánuðum áður en verðlaununum er úthlutað.

Dómnefndirnar hafa þagnarskyldu um hvaða verk/flytjendur eru tilnefnd allt þar til tilkynnt er um þau opinberlega.

 

Norræna dómnefndin

Norræna dómnefndin velur verðlaunahafann á grundvelli tilnefninganna frá landsbundnu dómnefndunum.

Í norrænu dómnefndinni sitja tíu aðalmenn, og eru það aðalmennirnir í landsbundnu dómnefndunum. Tveir eru frá Danmörku, tveir frá Finnlandi, tveir frá Íslandi, tveir frá Noregi og tveir frá Svíþjóð. Einnig geta bæst við tímabundnir meðlimir frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum.

Norræna dómnefndin ákveður hvenær og hvernig tilkynnt er um tilnefningarnar.

Nefndarmönnum í hvort tveggja landsbundnu dómnefndunum og norrænu dómnefndinni er skylt að tilkynna um vanhæfi í tengslum við mat á tilteknum verkum eða tónlistarflytjendum. Ef nefndarmaður telst vanhæfur má viðkomandi ekki taka þátt í umfjöllun og mati á því verki eða tónlistarflytjendum sem um ræðir. Varamaður getur tekið sæti vanhæfs nefndarmanns. Ef ágreiningur kemur upp um mat á vanhæfi úrskurðar formaður eða varaformaður í málinu.

Ákvarðanir landsbundnu dómnefndanna um tilnefningar og ákvarðanir norrænu dómnefndarinnar um verðlaunahafana eru endanlegar og er ekki hægt að áfrýja þeim til neins hærra stigs.

§ 4. Starf norrænu dómnefndarinnar

Norræna dómnefndin nýtur aðstoðar Norrænu ráðherranefndarinnar eða þriðja aðila sem Norræna ráðherranefndin hefur samið við.

Nefndarmenn skiptast á að fara með formennsku og varaformennsku í norrænu dómnefndinni í þeirri röð sem lýst er í handbókinni.

Norræna dómnefndin er ákvörðunarhæf þegar fulltrúar frá hverju þátttökulandi og þeir tímabundnu nefndarmenn frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum sem skipaðir hafa verið hverju sinni eru til staðar.

Í undantekningartilfellum þegar nefndarmaður getur ekki verið sjálfur til staðar er hægt að veita hinum fulltrúa landsins umboð eða taka þátt með hjálp fjarskiptatækni.

Ákvarðanir norrænu dómnefndarinnar eru teknar með einföldum meirihluta, að undantekinni ákvörðuninni um hver skuli hljóta verðlaunin, en þá gilda sérstakar reglur sem lýst er í handbókinni í kafla um atkvæðagreiðslur. Hver meðlimur hefur eitt atkvæði.

Norræna dómnefndin er bundin þagnarskyldu um hvaða verk eða flytjandi hefur orðið fyrir valinu þangað til ákvörðunin er gerð opinber.

Norræna dómnefndin fundar að jafnaði einu sinni á ári. Skráð er fundargerð um fundi nefndarinnar.

§ 5. Umsjón og fjármál

Norræna ráðherranefndin getur gert samning við þriðja aðila um að sinna skrifstofustörfum vegna verðlaunanna. Skrifstofa hefur meðal annars með höndum umsýslu verðlaunanna og aðstoðar dómnefndirnar. Verkefnum skrifstofu verðlaunanna og fleiru sem því tengist er lýst í handbókinni.

Fjárhagsár starfseminnar fylgir almanaksárinu.

Skýrslugjöf og umsýsla með fjármagni skal fylgja reglum Norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlanir, meðferð fjár, bókhald og endurskoðun og vera í samræmi við aðrar ákvarðanir Norrænu ráðherranefndarinnar.

Þóknun til aðal- og varamanna greiðist samkvæmt ákvörðun Norrænu ráðherranefndinnar. Þær upphæðir sem gilda hverju sinni koma fram í handbókinni.