Maija Kauhanen hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2023

31.10.23 | Fréttir
Maija Kauhanen vinder Nordsik Råds musikpris 2023

Maija Kauhanen vinder Nordsik Råds musikpris 2023

Ljósmyndari
Magnus Fröderberg, norden.org
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur þjóðlagatónlistarkonan, söngkonan, lagahöfundurinn og kantele-leikarinn Maija Kauhanen frá Finnlandi. Kauhanen er öflug og fjölhæf tónlistarkona sem hefur skapað sér farsælan feril á alþjóðlegum vettvangi.

Maija Kauhanen tók við verðlaununum við verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs í Norska óperu- og balletthúsinu í Ósló á þriðjudagskvöld. Samíska tónlistarkonan Kajsa Balto afhenti verðlaunin. Verðlaunahafinn hlýtur að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur.

Öflug og fjölhæf einnar konu hljómsveit

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Þjóðlagatónlistarkonan, söngkonan, lagahöfundurinn og kantele-leikarinn Maija Kauhanen er einstaklega öflug og fjölhæf einnar konu hljómsveit sem hefur á skömmum tíma skapað sér farsælan feril á alþjóðlegum vettvangi.“

 

„Helsta sérkenni hennar liggur í lifandi flutningi á mörg hljóðfæri sem einnar konu hljómsveit. Þá óma samtímis á sviðinu hamslaus kantele-leikur, kraftmikill söngur og tugir slagverkshljóðfæra, allt frá symbölum til bjallna, skála og ýmiss konar áhalda. Maija Kauhanen hefur fullt vald á þessari síbreytilegu heild og spinnur um leið tónlist af miklu listfengi. Útkoman er bræðingur ólíkra tímaskeiða, tæknilegra aðferða og stílbragða sem heillar áhorfendur hvarvetna með tilraunakenndum hljóðheimum.“

 

Í rökstuðningi dómnenfdar kemur líka fram: „Frásagnir í söngtextum leika mikilvægt hlutverk í sterkri túlkun hennar, þar sem örlög kvenna á ýmsum aldri eru fyrirferðarmikið viðfangsefni. Gömul þjóðlög eru einnig færð kunnáttusamlega inn í heim nútímans. Textarnir eru gjarnan með femínísku ívafi og segja frá erfiðleikum í samböndum, frá heimilisofbeldi og ótta – en einnig rúmast þar gleði, huggun og von.“

Um tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta sinn árið 1965. Þeim er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Annað hvert ár eru tónlistarverðlaunin veitt tónlistarhópi eða -flytjanda og hitt árið, eins og í ár, eru þau veitt núlifandi tónskáldi. Alls voru 13 tónlistarmenn, hljómsveiti og hópar tilnefnd til tónlistarverðlaunanna í ár.