Þau hlutu verðlaun Norðurlandaráðs 2023

31.10.23 | Fréttir
Vindere af Nordisk Råds priser 2023

Vindere af Nordisk Råds priser 2023

Photographer
Fartein Rudjord/norden.org
Rithöfundarnir Joanna Rubin Dranger og Rán Flygenring, tónlistarkonan Maija Kauhanen, Martin Stenfors frá Renewcell og aðstandendur dönsku kvikmyndarinnar „Empire“ tóku við verðlaunum Norðurlandaráðs 2023 við verðlaunathöfn í Óperu- og balletthúsinu í Ósló á þriðjudagskvöld.

Tónlist, dans og gleði verðlaunahafanna voru í fyrirrúmi þegar verðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í beinni útsendingu frá Ósló. Norsku krónprinshjónin voru viðstödd auk norrænna ráðherra, þingmanna og fulltrúa lista- og atvinnugreina til að samfagna hinum tilnefndu.

 

Danska kvikmyndin Empire hreppti kvikmyndaverðlaunin og umhverfisverðlaunin hlaut verkefnið Renewcell frá Svíþjóð. Þá hlaut sænski höfundurinn Joanna Rubin Dranger bókmenntaverðlaunin fyrir myndasöguna Ihågkom oss till liv en tónlistarverðlaunin hlaut finnska þjóðlagatónlistarkonan og kanteleleikarinn Maija Kauhanen. Hin íslenska Rán Flygenring hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaunin fyrir myndabókina Eldgos.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2023

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur danska kvikmyndin Empire eftir leikstjórann Frederikke Aspöck, handritshöfundinn Anna Neye og framleiðendurna Pernille Munk Skydsgaard, Nina Leidersdorff og Meta Louise Foldager Sørensen. Þær hljóta verðlaunin fyrir kvikmynd sem þykir úthugsuð af miklu sjálfsöryggi og í öllum smæstu smáatriðum, og þar sem óvenju skýr sýn kvikmyndagerðarfólksins þykir skína í gegn í hverjum ramma.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2023

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur þjóðlagatónlistarkonan, söngkonan, lagahöfundurinn og kantele-leikarinn Maija Kauhanen frá Finnlandi. Kauhanen er einstaklega öflug og fjölhæf tónlistarkona sem hefur á skömmum tíma skapað sér farsælan feril á alþjóðlegum vettvangi. Hún hefur frábært val á hefðbundnum stílum, en fléttar þá af listfengi saman við nýstárleg áhrif og hljóðheima.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2023

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur Renewcell frá Svíþjóð. Renewcell hlýtur verðlaunin fyrir tímamótaaðferð til að endurvinna textílúrgang og skapa úr honum nýjan fatnað og aðra textílvöru. Sænska fyrirtækið Renewcell er það fyrsta á heimsvísu til að koma fram með iðnaðarferli á stórum skala þar sem gamall fatnaður fær nýtt líf með því að endurvinna úr honum trefjamassa til að nota í nýjan fatnað og aðra textílvöru.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur Rán Flygenring fyrir myndabókina Eldgos. Rán Flygenring hlýtur verðlaunin fyrir myndabók fulla af sjónrænum sprengikrafti um áhrifin sem villt og óhamin náttúra hefur á fólk. Mynd og texti fléttast listilega saman í fjöruga og sprenghlægilega sögu.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023

Sænski rithöfundurinn Joanna Rubin Dranger hefur hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 fyrir bókmenntaverkið „Ihågkom oss till liv“. Joanna Rubin Dranger hlýtur verðlaunin fyrir yfirþyrmandi og mikilvægt verk sem   lýsir því hvernig hægt er að takast á við áfall án orða og rjúfa þögnina að lokum. Hin látnu öðlast líf þegar við minnumst þeirra, nefnum nöfn þeirra og teiknum eftir ljósmyndum af þeim.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Hver verðlaunahafi fær verðlaunastyttuna Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur og eru verðlaunin veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs. (tengill)