Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2023
Upplýsingar
Den Norske Opera og Ballet
Oslo
Noregur
Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á norrænum bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála.
Alls eru 54 verk, verkefni og listamenn frá öllum norrænu löndunum tilnefndir til verðlauna í ár. Þar á meðal eru skáldsögur, ljóðasöfn, sögu- og myndabækur, tónskáld, tónlistarhópar, píanóleikarar og stórsveit, auk verkefna sem fást við úrlausnarefni textíliðnaðarins í umhverfismálum. Á meðal þeirra kvikmynda sem tilnefndar eru til kvikmyndaverðlaunanna í ár er fyrsta tilnefning Grænlands nokkru sinni.
Bein útsending frá verðlaunahátíðinni
Bein útsending hefst frá Norska óperu- og balletthúsinu kl. 18.30 að íslenskum tíma (19.30 að norskum tíma) á norden.org og á NRK kl. 19.00 að íslenskum tíma (20.00 að norskum tíma).
Dagskrá
Kynnar kvöldsins verða Kåre Conradi og Ingrid Bjørnov sem jafnframt munu ljá hátíðinni tónlistarlegan blæ. Áhorfendum verður boðið upp á samíska popptónlist frá Kajsu Balto og hljómsveit hennar, Nasjonalballetten UNG flytur nýtt dansverk eftir Kumiko Hayakawa, norsk-marokkóska hiphop-stjarnan Jonas Benyioub flytur „Spor i snøen“ og Stian Carstensen, sem hefur verið tilnefndur til tónlistarverðlaunanna, leiðir okkur ásamt Romkameratene í ferðalag um evrópska þjóðlagatónlist.
Verðlaunahafar hljóta að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur. Eftirfarandi afhenda verðlaunin í ár:
- Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Hans hátign Hákon krónprins og hennar hátign Mette-Marit krónprinsessa afhenda verðlaunin
- Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Tónlistarkonan Kajsa Balta afhendir verðlaunin auk þess að koma fram á hátíðinni
- Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Rithöfundurinn Maja Lunde afhendir verðlaunin
- Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Leikkonan Maria Bonnevie afhendir verðlaunin
- Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Lubna Jaffery, menningarmálaráðherra Noregs, afhendir verðlaunin
Fylgist með á bak við tjöldin
Við flytjum fréttir af af verðlaunahátíðinni jafn óðum á samfélagsmiðlum. Fylgist með á bak við tjöldin og missið ekki af vinningshöfum, þakkarræðum og flytjendum á sviðinu. Við notum myllumerkið #nrpriser.
Um verðlaun Norðurlandaráðs
Bókmenntaverðlaunin eru elst verðlaunanna fimm. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Á eftir þeim fylgdu tónlistarverðlaunin, umhverfisverðlaunin, kvikmyndaverðlaunin og barna- og unglingabókmenntaverðlaunin. Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafana.