Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í Ósló 31. október

09.10.23 | Fréttir
Den norske opera & ballett
Ljósmyndari
Tord Baklund / VisitOslo
Þann 31. október fer verðlaunahátíð Norðurlandaráðs fram í Óperunni í Ósló. Veitt verða verðlaun í fimm flokkum, þ.e. umhverfis-, tónlistar-, kvikmynda-, bókmennta- og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Kajsa Balto og Nasjonalballetten UNG munu koma fram og á meðal þeirra sem afhenda verðlaunin verða norsku krónprinshjónin, leikkonan Mariu Bonnevie og menningarmálaráðherra Noregs, Lubna Jaffery.

Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála.  Landsdeild Noregs í Norðurlandaráði er gestgjafi verðlaunahátíðarinnar í ár sem haldin verður í Norska óperu- og balletthúsinu. 

„Það gleður okkur að fá að halda verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Norska óperu- og balletthúsinu. Fyrst og fremst gengur þetta út á að heiðra öll þau sem eru tilnefnd, og verk þeirra, en á sama tíma fögnum við hinu samnorræna menningarsamfélagi. Það nána samstarf sem á sér stað á sviði tónlistar, kvikmynda, bókmennta og umhverfismála skiptir miklu máli fyrir sameiginlega sjálfsmynd okkar,“ segir Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs.

Hægt verður að fylgjast með verðlaunaafhendingunni á NRK og norden.org.

Fimm sigurvegarar úr hópi 54 tilnefninga

Alls eru 54 verk, verkefni og listamenn frá öllum norrænu löndunum tilnefndir til verðlauna í ár. Þar á meðal eru skáldsögur, ljóðasöfn, sögu- og myndabækur, tónskáld, tónlistarhópar, píanóleikarar og stórsveit, auk verkefna sem fást við úrlausnarefni textíliðnaðarins í umhverfismálum. Á meðal þeirra kvikmynda sem tilnefndar eru til kvikmyndaverðlaunanna í ár er fyrsta tilnefning Grænlands nokkru sinni. 

Þessi munu afhenda verðlaunin

Verðlaunagripurinn „Norðurljós“ verður afhentur á sviði Óperunnar og hljóta sigurvegararnir einnig verðlaunafé sem nemur 300 þúsundum danskra króna. 

Eftirfarandi afhenda verðlaunin í ár:

  • Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Hans hátign Hákon krónprins og hennar hátign Mette-Marit krónprinsessa afhenda verðlaunin
  • Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Tónlistarkonan Kajsa Balta afhendir verðlaunin auk þess að koma fram á hátíðinni 
  • Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Rithöfundurinn Maja Lunde afhendir verðlaunin 
  • Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Leikkonan Maria Bonnevie afhendir verðlaunin 
  • Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023: Lubna Jaffery, menningarmálaráðherra Noregs, afhendir verðlaunin 
     

Jojk, hiphop, þjóðlagatónlist og dans

Kynnar kvöldsins verða leikarinn Kåre Conradi og tónlistarkonan Ingrid Bjørnov sem jafnframt munu setja tónlistarlegan blæ á hátíðina. Áhorfendum í sal og heima í stofu verður boðið upp á glæsileg atriði frá Kajsu Balto, sem leikur samíska popptónlist ásamt hljómsveit sinni, Nasjonalballetten UNG, sem mun flytja nýtt dansverk eftir Kumiko Hayakawa, norsk-marokkósku hiphop-stjörnunni Jonasi Benyoub, sem flytja mun „Spor i snøen“, og Stian Carstensen, sem áður hefur verið tilnefndur til tónlistarverðlaunanna en hann mun ásamt Romkameratene leiða okkur í þjóðlagatónlistarlegt ferðalag um Evrópu.

„Þetta kvöld hyllum við fyrst og fremst norræna meistara á sínum sviðum. Atriðin frá listafólkinu endurspegla norrænt menningarlíf sem ávallt er blanda af okkar eigin menningararfi og menningaráhrifum frá umheiminum sem þekkja engin landamæri. Það verður jojk og evrópsk þjóðlagatónlist, klassískur ballett og hiphop, sem er alveg í anda þema kvöldsins sem við köllum „Norðurlönd og heimurinn– heimurinn og Norðurlönd“,“segir Paal Ritter Scherven, framleiðandi og listrænn stjórnandi verðlaunahátíðarinnar.

„Ingrid Bjørnov og Kåre Conradi búa til hlýlega og skemmtilega umgjörð sem bindur saman norrænu löndin – bæði þar sem okkur þykir það sjálfsagt og þar sem okkur þykir það ekki,“ bætir hann við að lokum.

Bein útsending frá hátíðinni 31. október

Bein útsending hefst frá Norska óperu- og balletthúsinu kl. 18.30 að íslenskum tíma (19.30 að norskum tíma) og verður hægt að fylgjast með henni á NRK1 og norden.org í öllum norrænu löndunum.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs eru ein virtustu verðlaun sem veitt eru á Norðurlöndum. Bókmenntaverðlaunin eru elst verðlaunanna fimm. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Á eftir þeim fylgdu tónlistarverðlaunin, umhverfisverðlaunin, kvikmyndaverðlaunin og barna- og unglingabókmenntaverðlaunin. Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafana.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í tengslum við 75. þing Norðurlandaráðs í Ósló þar sem þingmenn, ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn frá öllum Norðurlöndunum koma saman til stjórnmálaumræðna. 

Upplýsingar fyrir fjölmiðla

Verðlaun Norðurlandaráðs 2023 verða afhent 31. október kl. 18.30 (að íslenskum tíma) í Norska óperu- og balletthúsinu í Ósló. Strax að athöfn lokinni verður hægt að taka myndir og viðtöl við verðlaunahafana. 
Eingöngu þeir blaðamenn sem skráðir eru á þing Norðurlandaráðs eiga tækifæri á að verða viðstaddir verðlaunaafhendinguna. Blaðamenn þurfa að skrá sig í síðasta lagi 27. október kl. 14 að norskum tíma (12 að íslenskum tíma). Gilds blaðamannaskírteinis er krafist.