Danir taka við stjórnartaumum í norrænu samstarfi

28.10.14 | Fréttir
Helle Thorning-Schmidt og Carsten Hansen præsenterer Danmarks formandskabsprgram for 2015
Photographer
Samuel Enblom
Vöxtur, velferð, gildi og norðurskautssvæðið eru lykilorðin fyrir formennsku Dana í Norrænu ráðherranefndinni 2015.

Aðildarríkin fimm skiptast á að fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, samstarfsstofnun ríkisstjórna Norðurlanda. Árið 2015 er komið að Danmörku. Formennskuáætlun Dana fyrir árið 2015 var samin í nánu samstarfi við Grænland og Færeyjar. Helle Thorning-Schmidt kynnti áætlunina á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi 28. október að viðstöddum forsætisráðherrum hinna Norðurlandaríkjanna.

 Vöxtur

― Vöxturinn er lykilatriði ef okkur á að takast að halda í og styrkja stöðu Norðurlanda í fremstu röð, sérstaklega hvað varðar grænar lausnir, orku og loftslag. Þess vegna eru vöxtur, sköpun starfa og samkeppnishæfni megináhersluatriði í dönsku formennskuáætluninni, segir Carsten Hansen, samstarfsráðherra Danmerkur.

Í þessu skyni ætla Danir að vinna að þróun aðlaðandi, snjallra og sjálfbærra borga af því tagi sem Norðurlönd eru þekkt fyrir. Árið 2015 verður á vegum formennskunnar haldin stór norræn verkefnasamkeppni um nýjar leiðir í þróun aðlaðandi og sjálfbærra opinna svæða í borgum. 

Danir ætla jafnframt að leggja fram norræna framkvæmdaáætlun um norrænan tísku- og vefnaðarvöruiðnað með sjálfbærni og skilvirka auðlindanýtingu að leiðarljósi.

Velferðarmál

Danir ætla að efla samstarf á sviði tiltekinna velferðarsviða og tryggja að sameiginlegar auðlindir og möguleikar Norðurlanda séu nýttir til gagns fyrir almenning á Norðurlöndum, til dæmis með betri miðlun þekkingar um aðgerðir sem geta dregið úr ójöfnuði í heilbrigðismálum.

Gildi

Árið 2015 ætla Danir jafnframt að beita sér fyrir betri og skipulagðari notkun norræna vörumerkisins til að auka þekkingu á Norðurlöndum og kynna svæðið til gagns fyrir hvort tveggja hagvöxt og velferð.

„Ný norræn matargerðarlist“ hefur átt þátt í því að koma Norðurlöndum á kortið á alþjóðavettvangi. Danir ætla að halda áfram að vinna með þetta vörumerki og leggja aukna áherslu á sameiginlegt norrænt starf á vaxandi mörkuðum.

Norðurskautssvæðið

Norðurskautssvæðið fær sífellt meira vægi á norrænum og alþjóðlegum vettvangi. Þess vegna ætlar formennska Dana í samstarfi við Grænland og Færeyjar að vinna að því að efla samstarf Norðurlanda og norðurskautssvæða, sérstaklega hvað varðar loftslagsvanda norðurskautssvæðisins.

Hægt er að lesa og hlaða niður formennskuáætlunina og hægt er að fylgjast með verkefnunum á formennskuárinu á www.norden2015.dk.