Norðurlandaráð hefur samráð við Jorma Ollila um orkumálasamstarf

20.04.16 | Fréttir
Jorma Ollila
Photographer
Matts Lindqvist/norden.org
Norrænt átak um rafknúnar ferjur, norrænn staðall fyrir hleðslustöðvar samgöngutækja og norrænt kerfi á markaðsgrundvelli fyrir sjálfbæra orku. Þetta eru nokkrar þeirra tillagna um samstarf í orkumálum sem norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vill leggja sérstaka áherslu á.

Tillögurnar eru í skýrslu sem kynnt var af starfshópi á þemaþingi Norðurlandaráðs í Ósló, þar sem skýrslan var samþykkt af norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni.

Skýrsla hins svonefnda Orkuhóps inniheldur alls 31 tillögu um þróun orkumálasamstarfs á Norðurlöndum. Tillögurnar hafa nú verið kynntar fyrir fyrrum forstjóra Nokia, Jorma Ollila, sem vinnur að úttekt á norrænu samstarfi um orkumál að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar.

„Með skýrslunni viljum við vekja athygli á framtíðarsýn Norðurlandaráðs á norrænt samstarf um orkumál. Það er afar mikilvægt fyrir Norðurlönd að halda þeirri góðu stöðu sem við höfum á sviði orkumála og það getum við aðeins með samstarfi landanna og við ESB. Við vonum að tillögur okkar muni gagnast Jorma Ollila,“ segir Pyry Niemi, formaður hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs.

Sjö tillögur hafa forgang

Um 31 tillögu er að ræða, en þar af setur Orkuhópurinn sjö í sérstakan forgang. Hópurinn vill meðal annars að Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð vinni samræmt kerfi, byggt á markaðsgrundvelli, til að efla framleiðslu á sjálfbærri orku og að norrænu löndin þrói áætlun fyrir orkunýtni í orkufrekum iðnaði.

Auk þess vill orkuhópurinn að unninn verði sameiginlegur norrænn staðall fyrir hleðslustöðvar fyrir ýmis rafknúin farartæki, svo sem bíla og flutningabíla, með víðtækara Evrópusamstarf fyrir augum.

Með skýrslunni viljum við vekja athygli á framtíðarsýn Norðurlandaráðs á norrænt samstarf um orkumál. Það er afar mikilvægt fyrir Norðurlönd að halda þeirri góðu stöðu sem við höfum á sviði orkumála og það getum við aðeins með samstarfi landanna og við ESB.

 

Aðrar tillögur snúa að því að auka stuðning við Norrænar orkurannsóknir (NEF), stofna sameiginlegan norrænan orkumarkað fyrir endanlega neytendur og efla þróun rafknúinna ferja.

„Áhersla á siglingar sem eru rafknúnar að hluta er sérlega mikilvæg með hliðsjón af hertum kröfum um brennisteinslosun farartækja á sjó og verndun Eystrasaltsins. Tillögur okkar miða að sjálfbærum orkulausnum og endurnýjanlegri orku,“ segir Lena Asplund, formaður Orkuhópsins.

Ráðstefna með Jorma Ollila

Í tengslum við þemaþingið í Ósló fer einnig fram ráðstefna um orkumál, en þar gefst Norðurlandaráði möguleiki á að koma með athugasemdir um úttekt Jorma Ollila, auk orkuskýrslunnar. Þátttakendur á ráðstefnunni funduðu í fjórum málstofum; um rafvæðingu samgöngugeirans, umskipti til sjálfbærra orkulinda, orkunýtni í orkufrekum iðnaði og orkurannsóknir.

Jorma Ollila lofaði að taka þær athugasemdir sem hann hefur fengið frá Norðurlandaráði til greina við áframhaldandi störf sín. Ollila sagði ennfremur að ýmsar áskoranir væru í samstarfi um orkumál, einnig á Norðurlöndum.

„Ég hef mínar hugmyndir um þessar áskoranir og mögulegar lausnir á þeim, en ég mun hlusta á ykkur og aðra aðila á sviði orkumála áður en ég opinbera tillögur mínar.“

Ráðstefnan í Ósló markar upphafið að vinnu Jorma Ollila að úttektinni, sem mun taka eitt ár. Næst mun hann ferðast um Evrópu og funda með ýmsum hagsmunaaðilum á sviði orkumála.

Verkefnið sem Ollila vinnur nú að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar felst í því að gera stefnumótandi úttekt á því hvernig best er að þróa orkusamstarf á Norðurlöndum næstu 5–10 árin. Í nóvember mun Ollila kynna úttekt sína fyrir norrænu ráðherrunum á sviði orkumála í fyrsta sinn. Í ársbyrjun 2017 á úttektin að vera fullunnin.