Norðurlönd ætla aftur að styðja óháða fjölmiðla á rússnesku í Eystrasaltsríkjunum

Fjölmiðlastyrkir Norrænu ráðherranefndarinnar eru veittir til að efla og stuðla að stofnun og vexti óháðra fjölmiðla á rússnesku, og þar með að styrkja lýðræðisþróun og félagslega aðild í Eystrasaltsríkjum. Eins og staðan er nú fær meginhluti rússneskumælandi íbúa Eistlands, Lettlands og Litháens eingöngu fréttir og fréttatengt efni frá rússnesku ríkissjónvarpsstöðvunum.
Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Eystrasaltsríkjunum hefur umsjón með styrktaráætlununum.
Fjölbreytt styrktaráætlun
Í Eistlandi verður aftur veittur styrkur til opinberu sjónvarpsrásarinnar ETV+, sem sendir út á rússnesku. Í Lettlandi verður lögð áhersla á að veita styrki til námskeiðahalds í þeim tilgangi að auka hæfni blaðamanna, en í Litháen verður reynt að auka getu manna til að átta sig á nýrri fjölmiðlaflóru, það sem nefnt er fjölmiðlalæsi (Media Litteracy).
„Þau markmið sem við höfum sett okkur með styrkjunum samsvara beint þörf sem er til staðar í móttökulöndunum, og sá góði árangur sem hefur náðst er merki um það hversu vel samstarf okkar við Eystrasaltsríkin gengur,“ segir Kenneth Broman, starfsmannastjóri á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.
Starfsemin er öll í samstarfi við staðbundna aðila og fjármögnunin kemur frá fleiri aðilum en Norrænu ráðherranefndinni.