Ný skýrsla: Stafræn væðing dómstóla styrkir réttarríkið

05.05.22 | Fréttir
Digitalization at the courts

Launch of the report Digitalization at the courts at Tallinn Circuit Court, from left to right: Christer Haglund, moderator, Nordic Council of Ministers’ Office in Estonia; Frederik Waage, professor and one of the authors of the report; and Kaidi Lippus, Courts Division of the Ministry of Justice in Estonia. Kristín Benediktsdóttir, University of Iceland, on the screen.

Photographer
Kertu Kärk

Frá kynningu skýrslunnar Digitalization at the courts í áfrýjunardómstóli í Tallinn, talið frá vinstri, Christer Haglund fundarstjóri, Norrænu ráðherranefndinni í Eistlandi, Frederik Waage, prófessor og annar höfunda skýrslunnar, og Kaidi Lippus, dómstóladeild dómsmálaráðuneytis Eistlands. Kristín Benediktsdóttir, lagadeild HÍ, á skjánum.

Þótt réttarkerfið sé í eðli sínu íhaldssamt hafa norrænir dómstólar smám saman verið að nútímavæðast og taka í notkun stafræna tækni undanfarinn áratug eða þar um bil. Danmörk stendur hinum Norðurlöndunum framar í stafrænni væðingu dómstólanna en á þó enn margt ólært af Eystrasaltslöndunum, Eistlandi og Lettlandi, sem fengu gott start þegar þau öðluðust sjálfstæði í upphafi tíunda áratugarins.

Frederik Waage, lagaprófessor við Syddansk Universitet, og Hanne Marie Motzfeldt, höfundar nýrrar skýrslu sem Norræna ráðherranefndin fjármagnar og gefur út, hafa skoðað tæknilega þróun og stöðu stafrænnar væðingar dómstólum í einkamálum, sakamálum og stjórnsýslumálum í norrænu löndunum og Eystrasaltslöndunum. Þegar skýrslan, Digitalization at the Courts, var kynnt við umdæmisdómstólinn í Tallinn í Eistlandi í dag var haft eftir honum:


„Öfugt við það sem almennt má segja um stafræna þróun innan stjórnsýslunnar náði hún árum saman að ótrúlega litlu leyti til dómstólanna og inn fyrir veggi dómsala. Í norrænu löndunum virðist stafræn væðing dómstólanna hafa verið mjög takmörkuð samanborið við Eystrasaltslöndin. Á árunum eftir fall Sovétríkjanna gripu Eistland, Lettland og Litháen einstakt tækifæri til að gera stafræna væðingu að órofa hluta af nýjum stofnunum sínum. Norrænu löndin voru auðvitað ekki í þeirri stöðu að vera að byggja upp nýjar stofnanir frá grunni við upphaf stafrænu byltingarinnar.“

Eistland í fararbroddi

Í skýrslunni er sérstök áhersla lögð á málsmeðferðargáttir sem skapa með ýmsu sniði umgjörð um það með hvaða hætti aðilar koma fyrir dómstóla. Markmiðið er að venjulegir notendur kerfisins, þ.e. dómarar, lögmenn og starfsfólk dómstóla, fái stutta kynningu á stöðu stafrænnar væðingar dómstóla í löndunum átta sem skoðuð voru.


Hvert land fær einkunn á bilinu 1 til 7, þar sem það ríki sem lengst var komið í þróuninni í desember 2021 fékk einkunnina 7 og það ríki sem styst var á veg komið hlaut einkunnina 1. Í skýrslunni er Eistland sagt hafa „afgerandi forystu“ en einnig er minnst á Lettland.

Kaidi Lippus, sem veitir dómstólasviði dómsmálaráðuneytis Eistlands forstöðu, tók þátt í kynningu skýrslunnar. Að sögn hennar hafa fjölmörg ljón verið í vegi þróunarinnar í Eistlandi og er henni ekki lokið:


„Ég trúi því svo sannarlega að stafræn væðing sé leið til að efla réttarríkið og lykilþáttur í því að bæta réttarkerfið og samstarf innan þess. Í ljósi stríðsins sem Rússland hóf í Evrópu þann 24. febrúar lít ég líka á stafræn væðingu opinbera geirans sem öryggisþátt og skyldu hvers ríkis gagnvart þegnum sínum.“

Á árunum eftir fall Sovétríkjanna gripu Eistland, Lettland og Litháen einstakt tækifæri til að gera stafræna væðingu að órofa hluta af nýjum stofnunum sínum. Norrænu löndin voru auðvitað ekki í þeirri stöðu að vera að byggja upp nýjar stofnanir frá grunni við upphaf stafrænu byltingarinnar.

Frederik Waage, Syddansk Universitet

Aukin skilvirkni

Stafrænni þróun er ætlað að flýta fyrir ferlum innan dómstólanna. Aukinni skilvirkni er ætlað að stuðla að auknu réttaröryggi. Tímaramma er fylgt betur, kostnaði er haldið niðri og mörg flókin ferli geta orðið meira eða minna sjálfvirk. Það þýðir að breyta verður aldagömlum hefðum, og það getur verið erfitt.


Kristín Benediktsdóttir, dósent við Háskóla Íslands fór yfir stöðu mála á Íslandi sem hlaut lægstu einkunn.


„Dómstólar á Íslandi eru áhugasamir um aukna stafræna þróun. Þótt réttarkerfið og dómsmálaráðuneytið vinni að því að nota stafræna tækni í auknum mæli og líti við það einkum til Eistlands og Danmerkur er um gríðarlegan kostnað að ræða fyrir litla þjóð. Góðir hlutir gerast hægt.“


Eva Storskrubb, dósent við háskólann í Uppsölum, vonast til þess að skýrslan verði til þess að ryðja frekar brautina fyrir stafræna þróun í réttarkerfinu.

„Þessi skýrsla er mjög gott framtak og nýtist bæði í fræðilegum og hagnýtum tilgangi. Ég vona líka að hún geti verið varða á leið til áframhaldandi og ítarlegri samanburðarrannsókna á þessu sviði á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum.“

Bæði Kristín og Storskrubb sátu í ráðgjafanefnd verkefnisins og viðeigandi var að þær tækju þátt í kynningunni með rafrænum hætti.
 

Áhrif faraldursins

Rannsóknin tók einnig til hugsanlegra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru sem hefur með ýmsu móti lagt sitt af mörkum til aukinnar notkunar stafrænnar tækni. Þótt ekki sjáist nein meiriháttar breyting í kjölfar COVID-19 hafa fundir oftar verið haldnir eftir rafrænum leiðum á borð við Zoom eða Teams. Samkvæmt skýrslunni má búast við því að þessi þróun haldi áfram, að minnsta kosti að einhverju marki.

Skýrslan var kynnt á blönduðu málþingi í Tallin og í kjölfarið fóru fram umræður.

 

 

Hér má lesa skýrsluna:

Myndband frá ráðstefnuninni um stafræna væðingu dómstólanna