Elsta upplýsingaþjónusta Norðurlanda fagnar 25 ára afmæli

09.07.23 | Fréttir
Mobilitet
Photographer
Yadid Levy / norden.org
Upplýsinga Norrænu ráðherranefndarinnar, Info Norden, er 25 ára. Frá árinu 1998 hefur Info Norden verið ómissandi upplýsingaveita fyrir Norðurlandabúa og hún leikur lykilhlutverk í því að raungera framtíðarsýn Norðurlanda um að verða samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030.

Evrópusambandið ákvað að taka upp evru, Svíar innleiddu nýtt lífeyriskerfi, Norðmenn tóku Gardermoen í notkun, litla hafmeyjan var gerð höfðinu styttri, Google var stofnað og Fucking Åmål var í bíó. Árið var 1998 og ráðherra norræns samstarfs í Svíþjóð, Leif Pagrotsky, opnaði formlega fyrstu norrænu símaþjónustuna fyrir Norðurlandabúa.

Kerfi norrænu landanna voru og eru enn svo ólík að erfitt getur verið að átta sig á mismunandi umgjörðum um skatta-, lífeyris-, mennta- og fjölskyldumál. Á þeim tíma vissum við að fljótlega myndi brúin yfir Eyrarsund færa milljónir manna saman og því var kominn tími til þess að hækka rána í norrænu samstarfi. Enn er mikið verk óunnið til þess að daglegt líf fólks sem býr og vinnur þvert á norræn landamæri gangi snurðulaust fyrir sig.

Leif Pagrotsky, fyrrum ráðherra norræns samstarfs

Í 25 ár hefur Info Norden veitt upplýsingar um það sem hafa þarf í huga ef maður vill búa, starfa eða stunda nám í öðru norrænu landi. Hugmyndin var að bjóða Norðurlandabúum sem ferðast á milli landanna góðar upplýsingar og um leið fá yfirsýn yfir það á hvaða sviðum fólk lendir í vandræðum og frjáls för á Norðurlöndum er skert.

Hvað brann á Norðurlandabúum þá og nú?

Fyrir 25 árum leitaði fólk eftir upplýsingum um skatta- og lífeyrismál og viðurkenningu á námi og starfsréttindum. Þessi atriði skipta Norðurlandabúa enn máli en stafvæðingin, landamæraeftirlit, stríðsátök í Evrópu og breytt ferðamynstur hafa haft í för með sér óskir um nýjar upplýsingar á hverjum degi.

Fólk vill vita hvaða reglur eigi við um almannatryggingar og skattamál þegar unnið er í fjarvinnu frá öðru landi, hvernig það geti auðkennt sig með rafrænum skilríkjum á milli landa, hvers vegna það geti ekki sótt um vist í norrænum framhaldsskóla eins og aðrir Norðurlandabúar ef grunnskólanámið fór fram í ESB-landi utan Norðurlanda og margt fleira.

Árlegar birtingar á vefsíðum Info Norden eru allt að þrjár milljónir og yfir fimm þúsund manns leita til skrifstofunnar eftir upplýsingum á hverju ári. Sífellt fleiri Norðurlandabúar óska eftir upplýsingum um hvernig þeir geti nýtt tækifæri sín á Norðurlöndum.

Info Norden setur þarfir Norðurlandabúa á dagskrá

Í 25 ár hefur Info Norden tryggt að stjórnmála- og embættismenn fái upplýsingar um þær hindranir sem eru í vegi fyrir frjálsri för á Norðurlöndum. Það geta verið smávægileg vandamál í daglegu lífi eða kerfisbundnar hindranir sem leiða til ójöfnuðar til lengri tíma.

Ár hvert tekur Info Norden saman dæmi um það sem veldur fólki vandræðum við að nýta sér sameiginlegan mennta- og vinnumarkað á Norðurlöndum. Það tengist meðal annars erfiðleikum við að nota rafræn skilríki þvert á landamæri, viðurkenningu á námi og löngum málsmeðhöndlunartíma þegar sótt er um kennitölu.

Info Norden leikur mikilvægt hlutverk í þeirri samnorrænu framtíðarsýn okkar að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Með því að skila árangri sem Norðurlandabúar finna fyrir í daglegu lífi sínu skapar Info Norden virði.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Info Norden – sérfræðingar í hreyfanleika á Norðurlöndum

Info Norden er stærsta upplýsingaveita á Norðurlöndum varðandi hreyfanleika og stöðugt er horft til framtíðar með sameiginlegum markmiðum fyrir Norðurlandabúa, Norðurlönd og norrænt samstarf þegar kemur að frjálsri för.

Með markvissri vinnu við að bæta við þekkingu og þróa stafrænar lausnir fá Norðurlandabúar betri og skjótari leið að því að velja rétt og taka réttar ákvarðanir.

Starfsfólk Info Norden þakkar notendum það traust sem þeir hafa sýnt undanfarin 25 ár. Saman stuðla íbúar og Info Norden að því að framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna um að gera Norðurlönd að samþættasta svæði heims verði að veruleika.

Um Info Norden

Info Norden

  • er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir einstaklinga sem flytja til, starfa, stunda nám eða stofna fyrirtæki í öðru norrænu landi.
  • opnaði fyrstu skrifstofuna í Stokkhólmi árið 1998 en hefur síðan opnað skrifstofur í öllum norrænu höfuðborgunum.
  • veitir upplýsingar um öll norrænu löndin auk Færeyja, Grænlands og Álandseyja á vefsíðum sínum á íslensku, dönsku, finnsku, norsku, sænsku og ensku.
  • aflar upplýsinga um stjórnsýsluhindranir og aðrar áskoranir sem íbúar standa frammi fyrir í tengslum við frjálsa för á Norðurlöndum.