Umhverfi fegrunaraðgerða eins og í villta vestrinu

29.06.22 | Fréttir
Injektioner
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norræna velferðarnefndin mælir með því við ríkisstjórnir Norðurlandanna að hert verði á löggjöf þannig að eingöngu fagfólki í heilbrigðisstéttum sé heimilt að gera fegrunaraðgerðir. Tilgangurinn er að auka öryggi sjúklinga.

„Sums staðar á Norðurlöndum er umhverfi fegrunaraðgerða eins og í villta vestrinu þar sem fólki án viðeigandi hæfni á heilbrigðissviði er heimilt að gera slíkar aðgerðir. Þetta getur verið hættulegt fyrir sjúklinginn og binda verður endi á þetta ástand,“ segir Eva Lindh, formaður nefndarinnar. Norræna velferðarnefndin mælir þess vegna með því við ríkisstjórnir Norðurlandanna að:

  • kanna og samræma reglur og löggjöf varðandi fyllingaraðgerðir í fegrunarskyni og aðrar fegrunarskurðaðgerðir þannig að eingöngu fagmenntuðu fólki innan heilbrigðisþjónustunnar leyfist að framkvæma fyllingaraðgerðir í fegurðarskyni, einstaklingnum til aukinnar verndar. 
     

Flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði lagði tillöguna fram og samþykkti Norræna velferðarnefndin hana á fundi sínum í Reykjavík í dag.

Öryggi sjúklinga verður að vera í fyrirrúmi.

Á nokkrum stöðum á Norðurlöndum er ekki ólöglegt að fegrunaraðgerð sé gerð af aðila sem ekki hefur heilbrigðismenntun. Ef mistök verða eða upp koma vandamál þá ná tryggingar sjúklinga ekki ekki yfir þetta. Um leið er víða á Norðurlöndum ekki eftirlit af hálfu stjórnvalda með því hver láta gera á sér slíkar aðgerðir.

Sums staðar á Norðurlöndum er umhverfi fegrunaraðgerða eins og í villta vestrinu þar sem fólki án viðeigandi hæfni á heilbrigðissviði er heimilt að gera slíkar aðgerðir. Þetta getur verið hættulegt fyrir sjúklinginn og binda verður endi á þetta ástand

 

Eva Lindh, formaður nefndarinnar

Norrænu löndin taka á málum með ólíkum hætti

Löggjöf um fegrunaraðgerðir er mismunandi í norrænu löndunum. Í Finnlandi er bótox lyfseðilsskylt og eingöngu læknum eða sérþjálfuðu heilbrigiðsstarfsfólki er heimilt að sprauta bótoxi í fólk. Ekki eru gerðar sömu hæfniskröfur varðandi aðrar fegrunaraðgerðir. Í Svíþjóð hafa stjórnvöld nýlega innleitt kröfur um skráningu aðgerða og um að aðeins læknar með réttindi, tannlæknar og hjúkrunarfræðingar megi gefa sprautur. Í Noregi má fólk með hvaða heilbrigðismenntun sem er gefa sprautur.

Norræna velferðarnefndin

Norræna velferðarnefndin fæst við norræna velferðarlíkanið. Við vinnum að því að finna hagkvæmar fjárhagslegar lausnir sem einnig eru sjálfbærar. Nefndin lætur sig varða svið á borð við umönnun barna, ungmenna og eldri borgara, fatlanir ásamt áfengis- og fíkniefnamál. Á dagskrá nefndarinnar eru einnig jafnréttismál, réttindi borgaranna, lýðræði, mannréttindamál og barátta gegn glæpum. Samlögun, fólksflutningar og málefni flóttafólks heyra einnig undir velferðarnefndina ásamt húsnæðismálum og málefnum frumbyggja á Norðurlöndum.