„Takmarka ber togveiðar á síld í Eystrasalti“
Síldarstofninn í Eystrasalti stendur ískyggilega höllum fæti um þessar mundir.
Fyrir skömmu lagði framkvæmdastjórn ESB til að allar beinar síldveiðar í Eystrasalti og Botnvík yrðu stöðvaðar.
Vísindamenn hafa lengi varað við því að þetta yrði nauðsynlegt.
Vilja styðja við litlar útgerðir
„Við teljum að betra sé að reisa togveiðum skorður en að stöðva allar veiðar með öllu. Afli togskipanna er fyrst og fremst nýttur í dýrafóður. Við viljum standa vörð um smærri útgerðir svo við getum áfram borðað síld og gert ferðaþjónustu og menningararfinum hátt undir höfði,“ segir Simon Holmström, þingmaður frá Álandseyjum og fulltrúi í norrænu sjálfbærninefndinni.
Afgreidd í flýti
Í mars á þessu ári ræddi norræna sjálfbærninefndin tillögu um sjálfbærari síldveiðar í Eystrasalti.
Þar sem framkvæmdastjórn ESB hafði lagt til allsherjarstöðvun á veiðum afgreiddi nefndin málið eins hratt og hægt var.
Tillagan gengur út á að hvetja ríkisstjórnirnar til að semja um málið við viðkomandi aðila, þar á meðal Baltic Sea Fisheries Forum.