Loftslagsaðgerðir kalla á blandaða fjármögnun

05.12.23 | Fréttir
Benjamin Diokno and Karin Isaksson at COP28

Benjamin Diokno and Karin Isaksson

Photographer
Andreas Omvik, norden.org
Auk samdráttar í losun eru loftslagsaðlögun og fjármögnun til umfjöllunar á COP28. Á fyrsta fundardegi tókst að ná samkomulagi um hamfarasjóð (e. loss and damage fund) og markmiðið er að ná einnig saman um alþjóðleg markmið í tengslum við aðlögun. Ljóst er að fjármögnum frá einkaaðilum mun leika lykilhlutverk þegar kemur að því að fjármagna aðlögun vegna loftslagsbreytinga.

Samstarf hins opinbera og einkaaðila mikilvægt

Umræður mánudagsins í Norræna skálanum fjölluðu meðal annar sum það hvernig einkageirinn geti lagt sitt af mörkum til þess að fjármagna loftslagsaðgerðir. Ville Tavio, utanríkisviðskipta- og þróunarráðherra Finnlands, setti viðburð á vegum Norræna þróunarsjóðsins (NDF) og lagði hann áherslu á mikilvægi samstarfs opinberra aðila og einkaaðila og tengslanna á milli viðskipta og þróunar til þess að ná fram varanlegum breytingum.


„Í Finnlandi, eins og í öðrum norrænum löndum, teljum við að fjárfestingar bæði hins opinbera og einkaaðila skipti höfuðmáli varðandi umskiptin, jafnt heima fyrir sem í þróunarlöndum,“ sagði ráðherrann.

Loftslagsfjármögnun í hæstu hæðum

Loftslagstengdar fjárfestingar hafa aldrei verið meiri en eru þó ekki nægar til þess að mæta þörfinni, sérstaklega ekki í lágtekjulöndum og þeim sem viðkvæmust eru. Í Dúbaí er því kallað eftir aukinni fjárfestingu einkaaðila í tengslum við loftslagsaðlögun.
Norrænu löndin styðja við fjárfestingar einkageirans í þróunarlöndum, til dæmis með blandaðri fjármögnun, þ.e. samstarfi hins opinbera og einkafjárfesta.


„Hlutverk einkageirans er fyrst og fremst að bjóða upp á þjónustu og vörur til þess að leysa þau vandamál sem fylgja loftslagsbreytingum. Norrænu löndin geta talað fyrir blönduðum fjárfestingarleiðum og lausnum í tengslum við loftslagsmál á alþjóðavettvangi,“ segir Karin Isaksson, framkvæmdastjóri Norræna þróunarsjóðsins.

Það er allra hagur að auka viðskiptin við vaxandi hagkerfi.

Ville Tavio, utanríkisviðskipta- og þróunarráðherra Finnlands

Æ meiri áhersla á blandaða fjármögnun

Norræni þróunarsjóðurinn, sem fjármagnaður er af norrænu ríkisstjórnunum, vinnur með loftslagsaðlögun og þróunarmál í lágtekjulöndum, meðal annars í Afríku sunnan Sahara, Asíu og Mið-Ameríku. Sjóðurinn hefur í æ vaxandi mæli lagt áherslu á blandaðar fjárfestingarleiðir og tengir þannig saman einkageirann og hið opinbera. Sveigjanlegar fjárfestingar miðast bæði að loftslagsaðlögun og aðgerðum til að berjast gegn loftslagsbreytingum.


„Það er skylda okkar sem alþjóðlegs samfélags að fjárfesta í loftslagsaðgerðum í þeim löndum sem mest þurfa á því að halda,“ segir Karin Isaksson.
 

Að sögn ráðherrans Ville Tavio fylgir fjárfestingum í þróunarlöndum áhætta sem getur komið í veg fyrir fjárfestingar einkageirans á þessum svæðum. Aðgengi að svokallaðri mjúkri fjármögnun með hagkvæmum kjörum getur laðað finnsk og norræn fyrirtæki til þess að fjárfesta á mörkuðum þar sem fjárhagsleg áhætta er talin mikil, að sögn hans.


„Það er allra hagur að auka viðskiptin við vaxandi hagkerfi.“


Tavio bendir á að markmiðið ætti að vera að norrænar fjárfestingarleiðir bæti hver aðra upp.


„Í norrænu löndunum er að finna einhver bestu fyrirtæki í Evrópu á sviði hreinnar tækni. Með því að miðla tæknilausnum okkar áfram stuðlum við að uppfyllingu loftslagsmarkmiðanna og aukum um leið útflutning okkar.“