Samtal um réttlát græn umskipti með þátttakendum frá öllum Norðurlöndum

01.12.23 | Fréttir
Människor som sitter vid bord och lyssnar på en talare på en konferens
Photographer
Eyþór Árnason/norden.org
Fulltrúar norrænna stjórnvalda, launafólks og atvinnurekenda komu saman á fundi í Reykjavík 1. desember til að ræða hvernig best mætti tryggja að græn umskipti á Norðurlöndum verði eins réttlát og kostur er.

Þríhliða viðræður af þessu tagi hafa tíðkast lengi á Norðurlöndum þegar takast þarf á við miklar samfélagsbreytingar en það er óvenjulegt að þessi aðferð sé viðhöfð á norrænum vettvangi. Þegar atvinnurekendur, launafólk og stjórnvöld koma að sama borði heyrast fleiri raddir.

„Ég vona að samtalið leiði til þess að Norðurlöndin finni sameiginlega fleti með framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2030 að leiðarljósi. Ég vona líka að þessi ráðstefna sé aðeins byrjunin og að samræðunum verði haldið áfram,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem bauð til ráðstefnunnar.

Svíar taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2024 og munu réttlát græn umskipti setja svip sinn á dagskrá vinnumálaráðherranna á komandi ári.

„Til að öðlast betri þekkingu og átta okkur betur á þeim áskorunum sem fylgja grænum umskiptum á vinnumarkaði verður næsti árlegi fundur vinnumálaráðherra Norðurlanda haldinn í Skellefteå en það er eitt þeirra svæða í Norður-Svíþjóð þar sem fjórða iðnbyltingin hefur verið mjög greinileg, segir Johan Pehrson, vinnumarkaðs- og aðlögunarráðherra Svíþjóðar.

Norrænt samkomulag

Vinnumálaráðherrar Norðurlanda, samtök launafólks og atvinnurekenda gerðu einnig samkomulag í tengslum við þríhliða viðræðurnar. Þar kemur meðal annars fram að félagsleg inngilding sem og að draga úr efnahagslegslegum ójöfnuði sé mikilvægt til að vinna gegn hugsanlegum neikvæðum áhrifum grænna umskipta á vinnumarkaði.

Þá er bent á að umskiptum til græns hagkerfis muni fylgja áskoranir á vinnumarkaði og að mikilvægt sé að halda samtali allra aðila opnu eigi að takast að draga úr neikvæðum áhrifum.

Munur milli svæða

Græn umskipti eru afar mislangt á veg komin á hinum ýmsu svæðum á Norðurlöndum að mati Gustafs Norlén, vísindamanns hjá Nordregio.

„Við sjáum að flest græn störf er að finna í þéttbýli á Norðurlöndum á meðan „brúnu“ mengandi störfin eru í dreifbýlinu. Íbúar í dreifbýli hafa einnig meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum.

Norlén bendir á að mikilvægt sé að hafa í huga að græn umskipti muni skapa ný störf en einnig verða þess valdandi að önnur hverfi – og að afleiðingar þeirra breytinga birtist með mismunandi hætti á Norðurlöndum.

Norræna líkanið skiptir enn máli

Í Svíþjóð er nýtt dæmi um áskorun vegna grænna umskipta. Stéttarfélög hafa tekið slaginn við bandaríska bílaframleiðandann Teslu til þess að starfsfólk fyrirtækisins í Svíþjóð fái greidd laun í samræmi við kjarasamninga.

„Á sama tíma og við þurfum á nýjum nýsköpunarfyrirtækjum eins og Teslu að halda en til að græn umskipti takist þurfum við að standa vörð um norræna líkanið með kjarasamningum til að umskiptin verði réttlát, einnig fyrir launafólk,“ segir Johan Hall frá sænska alþýðusambandinu, LO.

Ný tækni og heiðarleiki

Atvinnurekendur leggja áherslu á mikilvægi græns hagvaxtar til þess að græn umskipti megi takast á Norðurlöndum.

„Við þurfum fjárfestingu í nýsköpun og nýrri tækni. Án nýrrar tækni verða ekki græn umskipti,“ segir Mikko Vieltojärvi, frá samtökum finnskra atvinnurekenda, EK.

Þá er mikilvægt fyrir atvinnurekendur að skapa traust með því að vera heiðarleg og opin gagnvart launafólki varðandi breytingar sem standa fyrir dyrum.

„Það er er erfitt að færa starfsfólki þær slæmu fréttir að störf þeirra séu að hverfa. En heiðarleiki er mikilvægur – ef við segjum ekki frá því að þörf sé fyrir umskipti þá ýtum við bara óhjákvæmilegum breytingum á undan okkur. Með heiðarlegum samskiptum verðum við öll hluti af lausninni, til dæmis með endurmenntun,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna Utilities.

Norðurlönd sem fyrirmynd í heiminum

Í norrænu samstarfi ríkir einnig mikill metnaður til að stuðla að grænum umskiptum á heimsvísu. Cristina Martinez frá Alþjóðavinnumálastofnuninni, ILO, segir að erfitt geti reynst að innleiða norrænar lausnir í löndum sem eru skemur á veg komin.

„Það getur reynst erfitt að innleiða norrænar lausnir beint í löndum þar sem lýðræðislegir ferlar og félagslegt samráð er skemur á veg komið en á Norðurlöndum en önnur lönd í heiminum geta vafalaust sótt hugmyndir til Norðurlanda. Norræna líkanið með þríhliða viðræðum er gott dæmi um það,“ segir hún.