Auður Jónsdóttir

Auður Jónsdóttir
Photographer
Johann Pall Valdimarsson
Auður Jónsdóttir: Ósjálfrátt. Skáldsaga, Mál og menning, 2012. (Dönsk þýðing: Kim Lembek).

Auði Jónsdóttur hefur á síðastliðnum tíu árum tekist að komast í hóp helstu skáldsagnahöfunda Íslendinga.  Skáldsaga hennar, Fólkið í kjallaranum (2004), var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta og hún hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita fyrir barnabók um Halldór Laxness. Fyrsta skáldsaga Auðar, Stjórnlaus lukka, kom út árið 1998 og síðan þá hefur hún gefið út fimm skáldsögur og fjórar barnabækur.

Skáldsagan Ósjálfrátt sem nú hefur verið tilefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs er sjálfsævisöguleg skáldsaga. Þó að persónur bókarinnar beri önnur nöfn en Auður og fjölskylda hennar gera í raunveruleikanum hefur hún ekki dregið dul á að það er líf hennar sjálfrar sem liggur til grundvallar söguþræðinum.

Ósjálfrátt segir frá Eyju, ungri konu sem hefur lent í ógöngum. Snjóflóð fellur í þorpinu þar sem hún hefur dvalið hluta af unglingsárunum. Í kjölfarið flytur hún þangað og giftist drykkfelldum sjómanni sem er tuttugu árum eldri en hún. Mamma hennar og amma (móðurafinn er merkur rithöfundur sem eitt sinn hlaut „fínu bókmenntaverðlaunin“ í Svíþjóð) ákveða að bjarga Eyju frá því lífi sem hún hefur valið og frá sjálfri sér. Hún á að fara til Svíþjóðar með gamalli vinkonu móður sinnar, „Skíðadrottningunni“ ævintýralegu af Vestfjörðum, sem á að reka sumarbúðir fyrir íslensk börn í Svíþjóð. Eyja á að hjálpa til með börnin en fyrst og fremst á hún að fá tíma til að skrifa fyrstu skáldsögu sína.

Skilnaðurinn og ferðin til Svíþjóðar er hugsað sem nýtt upphaf en er líka tilefni til að gera upp við fortíðina, við fortíð Eyju sjálfrar og við foreldrana. Hún er alin upp af róttækum hippaforeldrum sem hafa flesta þá kosti og galla sem einkenna kynslóð þeirra. Hún nýtur ástríkis en hefur alist upp við stöðug veisluhöld og áfengismisnotkun. Þegar hún mörgum árum síðar situr andspænis erlendum blaðamanni sem ætlar að taka við hana viðtal um skáldsögurnar hugleiðir hún að svara: „Ég skrifa af því að ég hef alltaf staðið nærri fólki sem þjáist af óstöðvandi þorsta. Það þambar áfengi eins og hvítvoðungur brjóstamjólk. Og ég þráði að skilja af hverju. Ekki misskilja mig, ég er þakklát þessu fólki. Það hefur gefið mér allt. Án þess væri ég ekki ég.“  Á margan hátt er barnæska Eyju dæmigerð fyrir norræn ungmenni á áttunda og níunda áratugnum og heil kynslóð kannast við ákveðna þætti í henni.

Það sem gerir Ósjálfrátt að einstakri skáldævisögu er fyrst og fremst tvennt: Annað er hvað höfundurinn hefur einstaklega góð tök á máli og stíl. Málfarið er hýlegt og tilfinningaríkt en felur einnig í sér ákaflega góða og fínlega kaldhæðni. Hitt atriðið er það sem skiptir sköpum fyrir bókina, en það er ótrúlegur hæfileiki sögumanns til þess að setja sig í spor annarra. Í bókinni er fjöldinn allur af ákaflega fallegum, samsettum og heiðarlegum persónulýsingum á fólki úr lífi rithöfundarins, ekki síst kvenlýsingarnar; kynslóðirnar þrjár; Eyja, mamma hennar og móðuramma, eru sterkar konur en jafnframt viðkvæmar. „Skíðadrottningunni“ Rúnu er líka einstaklega vel lýst. Hún er yfirþyrmandi og ófyrirleitin, á mörkum þess að vera fáránleg og skrípaleg en um leið miðstöð hlýju og tilfinninga.

Ósjálfrátt er skáldsaga um að verða fullorðinn og það að gerast rithöfundur, uppgjör án biturleika, með samkennd og djúpan skilning sem meginþemu.

Jón Yngvi Jóhannsson