Handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023

Maija Kauhanen vinder Nordsik Råds musikpris 2023

Maija Kauhanen vinder Nordsik Råds musikpris 2023

Photographer
Magnus Fröderberg, norden.org
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur þjóðlagatónlistarkonan, söngkonan, lagahöfundurinn og kantele-leikarinn Maija Kauhanen frá Finnlandi.

Rökstuðningur dómnefndar

Þjóðlagatónlistarkonan, söngkonan, lagahöfundurinn og kantele-leikarinn Maija Kauhanen er einstaklega öflug og fjölhæf einnar konu hljómsveit sem hefur á skömmum tíma skapað sér farsælan feril á alþjóðlegum vettvangi. Hún er einleikari með meistaralegt vald á handverki tónlistarinnar og hefur gefið út tvær plötur sem hlotið hafa lof gagnrýnenda. Fyrir fyrstu plötu sína, Raivopyörä („Reiðihjólið“), hlaut Kauhanen fjölda virtra verðlauna í heimalandinu og á nýjustu plötu hennar, Menneet („Hin brottgengnu“) frá 2022, skilar persónuleg nálgun hennar sér í enn sterkari heildarmynd tónlistarsköpunar.

 

Listsköpun Kauhanen grundvalllast á tónlistarhefð Karelíu í Finnlandi, bæði hvað snertir hljóðfæraval og spila- og söngtækni. Leikur hennar á finnska strengjahljóðfærið kantele byggist á kraftmikilli og hefðbundinni tækni þar sem viðarflís er notuð á svipaðan hátt og gítarnögl til að leika á strengina. Maija Kauhanen notar hefðbundna þjóðlagasöngtækni með listilegum og skapandi hætti í bland við nýrri aðferðir og hljóðheima, meðal annars með því að nýta þætti úr popptónlist.

 

Helsta sérkenni hennar liggur í lifandi flutningi á mörg hljóðfæri sem einnar konu hljómsveit. Þá óma samtímis á sviðinu hamslaus kantele-leikur, kraftmikill söngur og tugir slagverkshljóðfæra, allt frá symbölum til bjallna, skála og ýmiss konar áhalda. Maija Kauhanen hefur fullt vald á þessari síbreytilegu heild og spinnur um leið tónlist af miklu listfengi. Útkoman er bræðingur ólíkra tímaskeiða, tæknilegra aðferða og stílbragða sem heillar áhorfendur hvarvetna með tilraunakenndum hljóðheimum.

 

Frásagnir í söngtextum leika mikilvægt hlutverk í sterkri túlkun hennar, þar sem örlög kvenna á ýmsum aldri eru fyrirferðarmikið viðfangsefni. Gömul þjóðlög eru einnig færð kunnáttusamlega inn í heim nútímans. Textarnir eru gjarnan með femínísku ívafi og segja frá erfiðleikum í samböndum, frá heimilisofbeldi og ótta – en einnig rúmast þar gleði, huggun og von.

 

Maija Kauhanen er einstakur tónlistarhöfundur og -flytjandi – enginn annar hljómar eins og hún.