Hanne Højgaard Viemose

Hanne Højgaard Viemose
Photographer
Hanne Højgaard Viemose
Hanne Højgaard Viemose: HHV, FRSHWN. Dødsknaldet i Amazonas. Skáldsaga, Gyldendal, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

HHV, FRSHWN (ekki þýdd á íslensku) ber hinn óheflaða undirtitil Dødsknaldet i Amazonas („Dauðadrátturinn í Amazon“) og er hápunktur skáldsagnaflokks Højgaard Viemose þar sem Hannah/Hanne/Anne/Anita er í aðalhlutverki, en hinar bækurnar tvær eru Hannah (2011) og Mado (2015).

HHV, FRSHWN​​​​​​​ er hrá skáldsaga í frelsandi og glannalega ofsafengnum stíl, rétt eins og fyrri bækurnar sem má einnig lesa sem sjálfstæð verk. Frásögnin hoppar milli mismunandi þráða líkt og aðalpersónan með sín mörgu nöfn hoppar frá einni sjálfsmynd til annarrar.

Þeir mismunandi þræðir sem frásögnin fetar hverfast um markaleysi aðalpersónu sem lifir á jaðrinum. Samhliða hversdagslífi sem móðir tveggja drengja í Kaupmannahöfn, auk heimsókna á bráðamóttöku geðdeildar meðan börnin eru í dagvistun, lítur aðalpersónan um öxl og rifjar upp átakamikið ferðalag unga mannfræðinemans Anitu um Amazon-svæðið. Sagan er sögð í brotum og ýjað er að kynferðisofbeldi, en einnig losta og því að sigrast á sjálfum sér. Í formála kemur fram að eiginlega hafi skáldsagan átt að fjalla um eina tiltekna sögu en svo hafi hún „sogast inn í aragrúa annarra sagna og kringumstæðna, meðal annars líf mitt, höfundarins“.

Í einni þessara sagna er litið um öxl til erfiðra unglingsára í Frederikshavn sem einkenndust af drykkju og nokkurs konar vændi, án þess þó að þetta sé sett fram sem lykill að markaleysi aðalpersónunnar. Ofsafenginn taktur sögunnar sprengir utan af sér allar tilraunir til útskýringa og sýnir þess í stað viss mynstur í lífi aðalpersónu sem verður ítrekað fyrir því að farið er yfir mörk hennar. Ekki aðeins af eltihrelli og geðveikum fyrrverandi eiginmanni sem hún neyðist til að flýja, heldur einnig af sálfræðingi hennar og giftum rithöfundi sem hún heldur við. Frumleikinn í brotakenndri gerð þessarar skáldsögu felst í því að hinir ólíku þræðir stuðla að margröddun frásagnarinnar í stað þess að reyna að útskýra hana. Til dæmis verður lesandinn vitni að fjölda samtala milli sonanna tveggja en líkt og í grískum harmleik þjóna þeir hlutverki nokkurs konar kórs sem tjáir sig um framvindu sögunnar. Skáldsagan fangar með framúrskarandi hætti hinn skemmtilega en jafnframt dramatíska og heimspekilega tjáningarmáta barna.

Þræðir frásagnarinnar fléttast saman líkt og í kviksjá og sýna rannsókn skáldsögunnar á óreiðukenndu lífi aðalpersónunnar svo að örvæntingarfull leit hennar virðist enn flóknari, án vonar um friðþægingu. Hún á erfitt með að setja mörk sjálf en kærir sig heldur ekki um að halda sig innan þeirra marka eða væntinga sem ætlast er til af konum. Með sitt „galopna sjálf“ á hún erfitt með að finna sína hillu í lífinu og þráir að komast út fyrir sjálfa sig og verða umlukin annarri manneskju. Þess vegna beinir hún viðkvæmni sinni og gremju ekki inn á við, heldur út – gegnum ferðir í villtri náttúru Íslands og kynferðislega tjáningu sem tengist því að fara yfir mörk á bæði góðan hátt og slæman. Í þeirri framsetningu á sér stað frelsun konunnar og kvenlegs losta. Einmitt í ofsanum og hinu ágenga kynferði er dregin upp byltingarkennd mynd af konunni og kvenrithöfundinum sem um leið getur verið ástrík móðir. Í því sambandi skrifar Højgaard Viemose um kvenlegan losta á róttækari hátt en við höfum áður séð í dönskum bókmenntum.

Titill bókarinnar vísar í nafn og uppvaxtarstað höfundarins en fjöldi nafnanna sem hún ber og hin stöðuga margræðni gerir hugmyndir lesandans um algera samsvörun höfundar og sögumanns að engu. Með hröðum púlsi og gríðarmiklum krafti skilur þessi skáldsaga við lesandann í uppnámi, hlæjandi og spyrjandi í senn. HHV, FRSHWN​​​​​​​ er ferskur andblær í dönskum bókmenntum þar sem framsetning kvenpersónunnar markar tímamót bæði að formi og innihaldi.

Hanne Højgaard Viemose (f. 1977) stundaði nám í mannfræði og nam einnig við Rithöfundaskólann í Kaupmannahöfn. Í dag er hún búsett á Íslandi. Hún hlaut Montana-verðlaunin fyrir HHV, FRSHWN​​​​​​​, auk fjölda verðlauna fyrir fyrri bækur sínar.