Jon Fosse: Trilogien: Andvake. Olavs draumar. Kveldsvævd

Jon Fosse
Ljósmyndari
Tom A. Kolstad
Skáldsaga, Samlaget, 2014

Jon Fosse (f. 1959) hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem leikskáld, en verk hans hafa verið sett á svið í fleiri en eitt þúsund mismunandi leikgerðum í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum. Þá hafa skáldsögur Fosses vakið mikla athygli í heimalandi hans, Noregi, en þar ber helst að nefna Morgon og kveld (sem var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2001) og Det er Ales (2004).

Trilogien samanstendur af þremur sögum um ungt par, Asle og Alidu. Í fyrsta hlutanum, Andvake, eru þau á ferðalagi gegnum Björgvin í Noregi, sem er umvafin þykkri þoku, í leit að húsnæði þar sem Alida getur alið barn þeirra. Sögutími er óljós: brátt virðist sem við séum stödd á 19. öld, skömmu síðar verður ekki betur séð en að siðir miðalda séu við lýði. Slys – eða var það glæpur? breytir stefnu atburðarásarinnar, en það er ekki fyrr en í öðrum hluta, Olavs draumar, sem lesanda verður fyllilega ljóst hverjar afleiðingarnar eru fyrir parið og nýfæddan soninn. Í lokahluta þríleiksins, Kveldsvævd, hittum við aftur Alidu, sem reynir að hefja nýtt líf. Gegnum afkomendur Alidu og Asle fær lesandinn svo að vita hvað kom fyrir þau og barnið.

Á hinum tæplega þrjú hundruð síðum bókarinnar eru dregnar upp meitlaðar myndir í sögu sem teygir sig yfir nokkrar kynslóðir og aldir. Verkum Fosses hefur verið lýst sem endurtekningasömum og langdregnum, en líkt og aðrir textar hans rúma þessar þrjár stuttu frásagnir ógrynni dramatískra atburða. Hér eru dauðsföll og morð, börn og fullorðið fólk sem missa hvert annað, fólk í opinberum stöðum sem beitir ofbeldi, en ofbeldi í nánum samböndum kemur einnig fyrir. Aðalpersónurnar verða fyrir ofbeldi og eru ekki yfir það hafnar að beita því gagnvart öðrum þegar nauðsyn krefur.

Bókarhlutarnir þrír mynda heildstæða, sérstaka atburðarás sem er í senn einföld og margslungin. Glæpurinn sem framinn er í fyrsta hluta, glæpasögustíll í bland við stælingu á guðspjallinu; allt fær þetta annað yfirbragð þegar öll sagan hefur verið sögð: hún á sér hvorttveggja stað uppi á sviði draumkenndrar ljóðrænu og kirfilega niðri á jörðinni.

Öll verk Fosses einkennast af þessari sérstæðu blöndu hins einfalda og margbrotna. Þetta kemur ekki síst fram í því hvernig hann beitir klifun, stílbragði sem hann er þekktur fyrir. Persónur endurtaka sömu setningarnar, líkt og töfraþulur, við mismunandi aðstæður. Þetta má túlka sem birtingarmynd þess hve fáum og takmörkuðum orðum og orðasamböndum við ráðum í raun yfir, eða þess hvernig sagan endurtekur sig. Sé nánar að gáð kemur í ljós að þótt setningar séu endurteknar er samhengi notkunarinnar annað; það sem gerst hefur í millitíðinni ljáir orðunum nýjan merkingarauka. Þannig kallar klifunin fram flókinn vef merkingar, auk þess að vera einfaldlega endurtekning á eilífum og óhagganlegum sannindum.

Bókin er auðug af vísunum í önnur bókmenntaverk og menningarsögu. Andvakevísar í frásögn guðspjallsins af verðandi foreldrum í leit að þaki yfir höfuðið. Í Olavs draumar má finna beina skírskotun í kristnar leiðslubókmenntir, einkum hið norska miðaldasöngljóð „Draumkvæði“. Í Kveldsvævd er sagan leidd til lykta með undirliggjandi vísunum í dulmagn kristninnar.

Ýmislegt er þó enn óljóst. Sögulokin virðast til dæmis færa frásögnina nær samtímanum og nátengja hana sögu höfundarins sjálfs. Þegar rýnt er í smáatriði virðist túlkun á sögunni sem ljóðrænni fjölskyldusögu þó ekki ganga upp; tímaröð atburða og kynslóða myndar ekki ævisögulega heild heldur er frekar verið að kalla fram hugrenningatengsl til að særa fram fortíðina sem marglaga sögur og örlög, tengingar sem ýmist eru torræðar eða augljósar, en hér eru komin helstu stef verksins. Trilogien er stundum á slóðum melódrama en stundum á slóðum dulhyggju. Slík blanda hins hefðbundna og nýstárlega er einkennandi fyrir verk Fosses og hér mætast báðar þessar formgerðir í persónu sem bindur verkið saman og er gegnumgangandi í öllu höfundarverki hans: hljóðfæraleikaranum.

Sterkastur er þríleikurinn þegar höfundi tekst með kraftmiklum hætti að halda þeim sviðum sem frásögnin snertir – listinni, trúnni, fjölskyldunni og mannkynssögunni – opnum og á hreyfingu. Samspil allra frásagnanna þriggja, sem einnig kallast greinilega á við fyrri verk höfundar, myndar heild sem er stærri en einstakir hlutar hennar. Með formlegri stílfágun sinni og gaumgæfilegri söguskoðun er Trilogienstórviðburður í norskri nútímaskáldsagnagerð.