Karin Erlandsson (FI)

Pärlfiskaren
Karin Erlandsson: Pärlfiskaren. Skáldsaga, Schildts & Söderströms, 2017

Allt frá örófi alda hefur augasteinninn (Aqua ova) laðað perlukafara til sín. Girndin sem grípur perlukafarana er svo sterk að þeir yfirgefa fjölskyldur sína og heimahaga án nokkurs söknuðar. Þau sem eftir sitja finna fyrir miklum söknuði.

Perluvertíðin stendur á sínu hæsta og perlukafarinn Miranda nýtur þess að veiða gersemarnar í hafinu. Henni finnst hún vera besti kafarinn. Pabbi hennar lét glepjast af augasteininum og hvarf og síðan hefur hún kafað með vini hans. Nú er sá búinn að troða upp á hana hinni afar málglöðu og hrokkinhærðu Syrsu. Miröndu er illa við félagsskapinn og lætur Syrsu finna það.

Þegar drottningin boðar til nýrra veiða á augasteininum er Miranda sannfærð um að hún sé færust um að fanga hann. Veiðarnar geta verið hættulegar. Klíputifur (Compresa compresa) geta átt það til að umkringja perlukafarana og gleypa þá. Rósarhákarlar (Rosa heprantica) vilja þyrpast kringum perlurifin. Með blóðþyrstum og hrukkóttum kjaftinum eru þeir búnir að tæta í sundur líkama stelpnanna. Sjórinn varð rauður af blóði þegar stelpurnar misstu annan handlegginn hvor. Í textanum er ekki gert mikið úr því að stelpurnar séu einhentar. Hins vegar setur sagan spurningarmerki við að sumir líkamar þyki í lagi en aðrir ekki. Í sögunni um einhentu stelpurnar tekur Karin Erlandsson einarða afstöðu með fjölbreytninni. Tuuli Toivola gefur litríkum fantasíuheiminum yfirbragð tímaleysis með svarthvítum myndskreytingum.

Margt er að veði í hefðbundinni frásögn um að þrá, sýna samkennd og komast af. Frásagnargleðin er burðarásinn í fjölbreyttri og heildsteyptri skáldsögu um leit perlukafara að eftirsóttum augasteini sem á að svala allri þrá. Karin Erlandsson hefur góð tök á náttúruöflunum. Hún leyfir frásögninni að streyma fram. Miranda áttar sig smám saman á því að Syrsa sem henni fannst svo pirrandi er í raun og veru augasteinninn og að systrasamkennd er þess virði að sækjast eftir.

„Funduð þið augasteininn?“

„Á vissan hátt,“ svara ég. „En við fundum aðallega svolítið sem var enn betra.“

Landakort og leiðarlýsingar eru mikilvægar eins og vera ber í ævintýrum. Á leiðinni að innsæinu koma stelpurnar við hjá vitaverðinum Teklu í kafla sem minnir á bækur Tove Jansson. Næsti áfangastaður er Hildegards skólinn fyrir norðan og áfram heldur leiðin til borgar þar sem hafinu lýkur. Þar er gamli perlukafarinn Lýdía. Stelpurnar eru alltaf í forgrunni frásagnarinnar. Vonskan í ævintýrinu birtist líka í kvenpersónu. Það er hin illa Iberis sem andar köldu og ásækist augasteininn. Nístandi ógnin af græðgi hennar gengur eins og rauður þráður gegnum söguna.

Sögusviðið á hafsbotni er sefjandi. Syrsa brosir út að eyrum þegar hún fær að fara með Miröndu niður í hafsdjúpin, breitt brosið kemst næstum ekki fyrir í opi köfunarhettunnar. Stelpurnar svífa eins og krossfiskar þar til þær lenda á hafsbotni þar sem þær fylla bakpokana sína af perlum. Eitt af mörgum smáatriðum sem gera söguna sannfærandi.

Pärlfiskaren („Perlukafarinn“, óþýdd) hefur breiða og greinilega skírskotun. Hún brýtur af sér ramma hefðbundinnar ævintýraskáldsögu og ögrar viðgengnum venjum á sama tíma og bókmenntaformið er stílhreint.

Pärlfiskaren er fyrsta barnabókin eftir Karin Erlandsson. Hún sigraði handritakeppnina „Berättelsen är bäst!“ sem útgefandinn Schildts & Söderströms efndi til á árinu 2016. Hún hlaut Runeberg Junior-verðlaunin og verðlaun Hins sænska bókmenntafélags (Svenska litteratursällskapet) árið 2018. Karin Erlandsson var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Minkriket (2014) árið 2015. Hún hefur einnig gefið út spennusögurnar Pojken (2018) og Missdåd (2016) ásamt matreiðslubókinni Sött och nött (2012). Karin Erlandsson hlaut fyrstu verðlaun í Solveig von Schoultz-keppninni árið 2012 og þriðju verðlaun fyrir ljóð sín í Arvid Mörne-keppninni árið 2002.