Linn Ullmann

Linn Ullmann, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

 Linn Ullmann 

Photographer
Kristin Svanæs-Soot
Linn Ullmann: Jente, 1983. Skáldsaga. Forlaget Oktober, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Sex árum eftir útkomu hinnar frábæru skáldsögu De urolige (2015 (Hin órólegu, Bjartur 2020)) sendir Linn Ullmann frá sér býsna áhrifamikla bók: Jente, 1983 („Stúlka, 1983“, hefur ekki komið út á íslensku). Einnig í þetta sinn hefur Ullmann skrifað frásögn sem er nístandi og fögur í sínu manneskjulega næmi. Það er óhætt að segja að Ullmann sé merkur höfundur. Hún fer sínar eigin leiðir með nálgun sem kalla mætti tilfinningalega hreinskiptni. Öfugt við megnið af þeim bókmenntum sem hafa á undanförnum árum verið kenndar við raunveruleika eða „autofiction“ – bókmenntir sem byggja á lífi höfundarins sjálfs – notast Ullmann við sígildari nálgun í bókum sínum: að grandskoða sjálfa sig á svipaðan hátt og við höfum til dæmis kynnst í bókum eftir Janet Frame, Kenzaburo Oe, Iris Murdoch og Patrizia Cavalli, til að nefna fáein nöfn.

Ullmann tekst á við hið sjálfsævisögulega með einlægum og skýrum hætti – hún nýtir hið persónulega eins og ljóðskáld, eins og rithöfundur, og sneiðir af skerpu og hyggindum hjá hinu æsilega, líka þegar hún vinnur með einstaka, sláandi og áleitna atburði. Með öðrum orðum: Ullmann er fær um að flétta raunverulegar upplifanir saman við skáldskap þannig að verkið sjálft, hið innilega og margslungna eðli skáldsögunnar, njóti sín sem miklar bókmenntir fremur en sem persónulegt uppgjör eða ásökun.

Eitt af mörgu áhrifamiklu við Jente, 1983 er hvað Ullmann tekst vel upp við að stefna höfundarverki sínu inn á nýjar lendur, því að Jente, 1983 er afgerandi ólík hinni stórkostlegu Hin órólegu. Það er frelsandi að sjá hvernig Ullmann getur sleppt því að halla sér að því formi og þeim tjáningarmáta sem henni tókst svo vel upp með í síðustu skáldsögu sinni. Ullmann er greinilega ekki einn þeirra höfunda sem láta textann hvíla í því sem áður hefur gefið góða raun. Med Jente 1983 má segja að hún stigi skrefi lengra, já, það er engu líkara en það að rannsaka hina fjölbreytilegu möguleika skáldsagnaformsins hafi orðið að drifkrafti í höfundarverki hennar.

Jente, 1983 er hrífandi og grípandi skáldsaga, laus við tilfinningasemi en þó einlæg og beitt frásögn sem leyfir því ósvikna í ljóðrænum einkennum skáldsagnaformsins að renna saman við hið nærgöngula og opna eðli endurminningaskrifa. Ætti maður sem lesandi að reyna að finna kjarna þessa verks mætti kannski einfaldlega vitna í fyrstu setninguna í lokaefnisgrein hennar. Þó að það sé aldrei alveg svo einfalt má ef til vill segja að kjarninn í síðustu tveimur skáldsögum Ullmann liggi hér, í þessari angurværu setningu: „En hvað á ég af mér að gera?“