Magdalena Hai & Teemu Juhani (myndskr.)

Kurnivamahainen kissa
Magdalena Hai & Teemu Juhani (myndskr.): Kurnivamahainen kissa. Ævintýraskáldsaga, Karisto, 2017

Ævintýraskáldsagan Kurnivamahainen kissa („Kisan með garnirnar gaulandi“, óþýdd) eftir Magdalenu Hai fjallar um pínulitla stelpu og risastóran kött. Stelpan lifir í heimi þar sem allt er af skornum skammti nema þurrkur og fátækt. Dag einn hittir hún kött með gaulandi garnir. Smám saman áttar hún sig á því að allt í heiminum er af skornum skammti. Kötturinn með garnirnar gaulandi er búinn að éta allt, dýrin í skóginum, fiskana í sjónum, kornið í þorpunum þar til hann teygaði í sig allt vatnið í heiminum. Heimurinn allur er á góðri leið með að lenda ofan í maga kattarins hræðilega.

Að lokum gleypir kötturinn stelpuna en í heilu lagi svo hún er ómeidd. Ofan í maga kattarins er allur heimurinn og furður hans sem kisi er búin að glomsa í sig. Stelpan kemst að því hvers vegna garnirnar í kettinum gaula stöðugt. Það er herra Ós Eðjandi sem hefur tekið sér bólfestu í kettinum og gleypir allt sem lendir ofan í maga hans: Fiat Uno, hestakerrur og heysátur.

Höfundur bregður fyrir sig verkfærum allegóríunnar í þessari sögu um óseðjandi græðgi og skelfilegar afleiðingar hennar. Hvorki vottar á siðavendni né umvöndunartón í ævintýrinu því fræðsluerindið einkennist af skemmtilegri kímni. Engu að síður er siðferðisboðskapurinn mikilvægur. Auðvelt er að túlka uppétinn heiminn sem vistfræðilegar hamfarir og ævintýraskáldsagan sýnir hve illa fer þegar einhver reynir að sanka öllu að sér.

Kurnivamahainen kissa er rosalega spennandi. Einkum má nefna alætan risaköttinn og herra Ós Eðjandi sem hámar í sig niðri í maga kattarins, sannkallaðar hryllingsverur. Aðalpersónan er áræðin og snarráð stelpan sem sér til þess að spennan verður ekki óbærileg. Kötturinn reynist vera hið besta skinn. Hann hættir að háma viðstöðulaust í sig þegar honum býðst nokkuð sem er miklu betra nefnilega vinátta stelpunnar.

Saga Magdalenu Hai einkennist af djúpu innsæi og byggist á ýmsum bókmenntahefðum og goðsögnum. Kurnivamahainen kissa er fyrst og fremst hreinræktað ævintýri þar sem ýmsum minnum úr ævintýrum bregður fyrir, til dæmis sigri hins minni máttar yfir ógnvekjandi andstæðingi. Magdalena Hai endurnýjar ævintýrahefðina á afar frumlegan hátt og bætir ýmsu nýju við.

Ein goðsögn sem bregður fyrir í verkinu er biblíusagan um Jónas í hvalnum en hún er algeng í menningu Vesturlanda, til dæmis í finnska kvæðabálkinum Kalevala. Höfundur tekur einnig siðaleiki miðalda að láni þar sem dyggðir og lestir mannfólksins eru persónugerðir. Í Kurnivamahainen kissa er það herra Ós Eðjandi sem er græðgin holdi klædd.

Einnig er sótt í smiðju fjarstæðubókmennta. Birtist það í sífelldum leik að stærðarhlutföllum. Aðalpersónan er pínulítil en kötturinn með garnirnar gaulandi ýmist stækkar eða minnkar: „Kötturinn hljóp og hljóp þar til hann var á stærð við heiminn, síðan á stærð við háhýsi, þar á eftir á stærð við fíl og að lokum á stærð við hest.“ 

Þrátt fyrir að höfundur þekki þær bókmenntahefðir sem hún notfærir sér þarf lesandinn ekki að kunna bókmenntasögu Vesturlanda til að geta notið verksins. Kurnivamahainen kissa er sjálfstætt listaverk sem höfðar til lesenda á ýmsum aldri.

Svarthvítar strikteikningar Teemus Juhani eru mikilvægur þáttur af heildarverkinu. Gamansamar myndskreytingarnar fylgja hraðri atburðarásinni, fullar af hreyfingu, athöfnum og fínlegum smáatriðum. 

Magdalena Hai (f. 1978) er finnskur rithöfundur. Hún hefur gefið út barna- og unglingabækur frá því á árinu 2012. Meðal verka hennar eru vísindaskáldsögur, hrollvekjur og barnabækur. Kurnivamahainen kissa hefur verið tilnefnd til ýmissa verðlauna í Finnlandi (Arvid Lydecken 2017, Runeberg Junior 2017 og Tulenkantaja 2018).

Teemu Juhani (f. 1987) er finnskur myndskreytir, teiknisögulistamaður og grafískur hönnuður sem starfar í Lundúnum um þessar mundir.