Marika Maijala
Ruusu er mjóhundur sem hleypur hraðar en aðrir hundar. Myndabókin Ruusun matka („Ferðalag Rósu“, óþýdd) eftir Mariku Maijala byrjar af fullum krafti í miðri hlaupakeppni. Ruusu geysist á ógnarhraða fram úr Giselle, Tessu, Lordi Lancelot og öllum hinum keppnishundunum. Þófar hundanna dynja á jörðinni þar sem þeir þjóta á eftir rafmagnshéra sem alltaf er rétt fyrir framan þá. Á bak við hundana sjást troðfullir pallar af áhorfendum sem fylgjast með sigurhlaupi Ruusu, gapandi af aðdáun.
Að keppninni lokinni tekur þó við þreyta og tómleiki. Fljúgandi ferð Ruusu og hinna hundanna lýkur með vist í þröngum búrum og stöðnuðu andrúmslofti. Í svefninum sér Ruusu skóga, engi og ósvikna héra.
Næsta dag hleypur hún aftur á eftir rafmagnshéra en í þetta sinn nemur hún ekki staðar við marklínuna heldur flýgur út í frelsið í einum gríðarmiklum spretti. Hér hefst ferðalag Ruusu í átt að tilveru á eigin forsendum.
Helsta viðfangsefni bókarinnar tengist frelsinu. Hundarnir sem hlaupa í hringi á eftir rafmagnshéranum eru í senn húsdýr sem farið er illa með og táknræn hliðstæða fyrir síendurtekið mynstur sem getur orðið þrúgandi með tímanum, fyrir börn jafnt sem fullorðna. Flótti Ruusu er hvetjandi dæmi um möguleikann á því að velja eitthvað annað og neita að sækjast eftir hlutum sem aðrir vilja að maður (eða hundur) sækist eftir.
Ruusun matka er einstaklega fallega gerð bók. Stórt brotið veitir sjónarhorn skáhallt ofan frá yfir það landslag og umhverfi sem Ruusu fer um, full aðdáunar. Myndirnar eru krökkar af áhugaverðum smáatriðum og samspil mynda og orða hvetur unga lesendur til að grandskoða myndirnar. Hvar situr maðurinn, sem minnst er á í textanum, sem er að taka myndir á farsímann sinn? Hvar er gæsin sem hristir vængina?
Vaxlitamyndir Maijala eru naívar og barnslegar. Hún leikur sér vísvitandi að sjónarhorninu og sleppir því að fínpússa útlínur og litfleti. Útkoman er einstaklega lifandi og höfðar til tilfinninga lesandans. Hún talar af hugrekki til barna á myndmáli sem þau skilja. Myndirnar af líkama Ruusu á fleygiferð skapa sterka tilfinningu fyrir hreyfingu. Texti Maijala er tilgerðarlaus og í knöppum staðhæfingastíl, en um leið ljóðrænn og afar fágaður. Ruusun matka er metnaðarfullt listaverk en um leið látlaust og aðgengilegt.
Heimurinn sem Ruusu fer á harðaspretti í gegnum er hvorki sléttur, felldur né fegraður. Þó að bæði myndir og texti séu uppfull af gleðivímu nýfundins frelsis er heimurinn utan keppnisbrautanna einnig fullur af skeytingarleysi og getuleysi til að staldra við og tengjast öðrum. Í ys og þys lestarstöðvarinnar krýpur kona og biður hljóðlega um smápeninga. Eins og sögumaður staðhæfir: „Borgin urrar eins og stórt villidýr.“ Oft tekur enginn eftir Ruusu í mannfjöldanum. Umstangið í mannmergð heimsins minnir að mörgu leyti á kapphlaup hundanna.
Í Ruusun matka fer þó allt vel að lokum. Vendipunktur bókarinnar er nærri sögulokum. Þá hættir Ruusu sínum eilífu hlaupum og hittir tvo hunda sem búa í grónum almenningsgarði. Ruusu hleypur líka með þessum nýju vinum sínum, en ekki til sigurs heldur aðeins af hlaupagleði og lagar sig blíðlega að hraða hlaupafélaganna.
Höfundur bókarinnar, Marika Maijala (f. 1974), er alþjóðlega þekktur finnskur myndskreytir. Hún hlaut Rudolf Koivu-verðlaunin 2009 og bækur með myndum eftir hana hafa tvisvar verið tilnefndar til Finlandia Junior-verðlaunanna. Ruusun matka er fyrsta bókin sem Maijala semur og teiknar myndir í sjálf og frumraun hennar sem rithöfundar. Útgefandi bókarinnar er lítið forlag að nafni Etana Editions, sem stofnað var 2014 og er einkum þekkt í heimalandinu fyrir góðar og listrænar myndabækur.