Marjun Syderbø Kjelnæs

Marjun Syderbø Kjelnæs

Marjun Syderbø Kjelnæs

Ljósmyndari
Sunva Eysturoy Lassen
Marjun Syderbø Kjelnæs: Karmageitin og Gentukamarið, ljóð og leikverk, Ungu Føroyar, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Karmageten („Karmageitin“, ekki gefin út á íslensku) og Gentukamarið (Stúlkuherbergið“, ekki gefin út á íslensku) er tvöfalt bókmenntaverk þar sem hvor hluti um sig hefur sinn tjáningarmáta og sérkenni. Hér mætast tvær bókmenntagreinar: ljóðabók (Karmageitin) og leiktexti (Gentukamarið). Verkin tvö má lesa í hvaða röð sem er og á milli þeirra er hvorki línulegt samband né orsakatengsl. Frekar má segja að þau falli hvort inn í annað þar sem samtöl leikverksins, hræringar ljóðanna, ýmiss konar hugarástand og áþreifanleg rými vaxa hvað inn í annað.

 

Eins og titill leikverksins, Gentukamarið, bendir til, þá er aðalpersónan kvenkyns. Það á einnig við í Karmageitinni, þar sem við fylgjumst með ljóðmælanda sem konu á miðjum aldri. Svið ljóðanna er heimili hinnar fullorðnu konu, en upptök þeirra eru í stúlkuherbergi bernsku hennar. Þaðan sprettur skynjun ljóðmælandans á heiminum og þar er að finna tengingu ljóðanna við stórfjölskylduna. Herbergið hefur ljóðmælandinn erft eftir móðursystur sína. Ljóðin yfirgefa stúlkuherbergið en snúa alltaf þangað aftur, að loknum smáum eða stórum hringjum. Í hræringum ljóðanna má greina athyglisverða þrábeiðni, útþrá og löngun til að verða hluti af heiminum, en í hverju ljóði er óskinni um að tengjast heiminum, skilja hann og verða hluti af honum, snúið á rönguna svo að hún vísar aftur heim – heim í stúlkuherbergi bernskunnar eða eldhús miðaldrakreppunnar; ekki endilega af beinni heimþrá, heldur frekar af nauðsyn. Um leið og ljóðið stefnir aftur heim er ljóðmælandinn gerður ósýnilegur og örmögnunin tekur yfir, og út úr því vex ný útþrá.

 

Í öðrum hluta verksins, leiktextanum Gentukamarið, býður textinn okkur inn í stúlkuherbergi sem gleypir okkur algjörlega. Hér er á ferð önnur og annars konar ákefð en við sjáum í ljóðahluta bókarinnar.  Margradda og á stundum manískur draugagangur; hinn fullorðni ljóðmælandi stígur inn í stúlkuherbergi bernskunnar og er ásóttur af draugaröddum móður sinnar og æsku. Hér birtast öll aldursskeið ljóðmælandans samtímis – sem barn er hún ásótt af rödd móður sinnar, á fullorðinsárum af barnsrödd sjálfrar sín, auk upphringinga frá rödd dóttur hennar og röddum goðsagna. Stúlkuherbergið leysir upp mörk og hindranir milli mismunandi aldurs- og æviskeiða ljóðmælandans. Sjálf ljóðmælandans verður að öllum þeim sjálfum sem það hefur þurft að vera: í þróun, í átökum, í ringulreið. Þversagnakennt og sundurleitt og stundum, um skamma hríð, milt og samstillt – allt þetta í senn. Stúlkuherbergið og hið stúlkulega verður að sterku afli í þessu tvöfalda verki, einhverju sem neitar að láta ávíta sig eða setja sér stólinn fyrir dyrnar.

 

Þannig vex stúlkuherbergið ásamt húsinu og garðinum í Þórshöfn og myndar tengingu við fjall af ónotuðum fatnaði í Atacama-eyðimörkinni, við eyðilögð kóralrif Íslands, við hvali sem villst hafa inn í þrengsl Miðjarðarhafsins. Í ljóðinu „Honey“ (s. 68) rennur kláði ljóðmælanda saman við klístrað matborð. Óróleiki og titringur verða að óveðri sem teygir sig til Mexíkó, að gríðarstórum fiskiflugusveimi, rymjandi bílvélum, suði í umferð og bensíndælum, og snýr loks aftur í eldhúsið þar sem það tekur sér enn á ný bólfestu í ljóðmælandanum. Óþægindin, kláðinn í húðinni og þetta klístraða eru sveimur af fiskiflugum, eru bílar og dælur og olía.

 

Marjun Syderbø Kjelnæs (f. 1974) er þekkt og mikilvirk rödd í færeyskum bókmennta- og leikhúsheimi. Hún hefur sent frá sér margs konar verk allt frá frumraun sinni árið 2000. Skriva i sandin (Bókaormurinn 2015), fékk Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2011 og White Raven-verðlaunin sama ár, og nýjasta unglingaskáldsaga hennar Sum Rótskot („Eins og rótarskot“, ekki gefin út á íslensku) var tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2021. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga og verk hennar hafa verið þýdd á norræn tungumál auk ensku, frönsku og þýsku.