Pia Juul: Avuncular. Onkelagtige tekster

Pia Juul
Ljósmyndari
Karolina Zapolska
Ljóðabók, Tiderne Skifter, 2014

Hvers vegna eru bara frændar og frænkur í Andabæ en ekki foreldrar, hvað einkennir monsieur Hulot í Mon oncle eftir Jacques Tati, og hvað léði Dan Turèll frændalegt yfirbragð í hlutverki Dannys frænda? Hafi lesandinn ekki velt „hinu frændalega“ fyrir sér fyrr veitir Avuncular, nýjasta ljóðabók Piu Juul, svo sannarlega tilefni til þess..

Pia Juul gaf frumraun sína út árið 1985 og hefur síðan skapað sér nafn sem eitt markverðasta ljóðskáld sinnar kynslóðar í Danmörku, auk þess sem hún hefur gert tilraunir með formgerðir óbundins texta og skrifað vinsælar skáldsögur og smásögur. Níunda ljóðabók hennar, Avuncular, hverfist um fyrirbæri sem allir þekkja – frændann í bókstaflegri merkingu, en einnig „hin frændalegu“ tengsl, sem eru jafn blátt áfram og þau eru áleitin. Í undirtitli bókarinnar kemur orðið fyrir eins og heimatilbúin lýsing á bókmenntagrein; „frændalegir textar“. Kápuna prýðir klippimynd sem inniheldur ljósmyndir úr einkasafni skáldkonunnar, m.a. af mönnum sem líkast til eru frændur hennar, en einnig myndir af öðrum dönskum rithöfundum; Thomas Kingo, Jeppe Aakjær, Carl Ewald, Jørgen Gustava Brandt og Dan Turèll, sem þarna birtast innan um Cary Grant, Frank Sinatra, Díönu Ross og Sám frænda.

Hvað á allt þetta fólk sameiginlegt? Hér þjónar það því hlutverki að veita hugmyndinni um frændann sjónrænt form, meðan textinn í bókinni – blanda af prósa og ljóðmáli – reynir að koma orðum að „hinu frændalega“. Í upphafi bókarinnar hvetur ljóðmælandi lesanda til að fletta orðinu upp í orðabók, en brestur því næst á með óði til hins frændalega: „frændi er fjarri öllum uppflettingum / þrá eftir öruggu augnabliki í / bernsku en ekki persónu sem er / ástand í orðinu, kannski í o / kannski í bókstafnum o sem er borinn fram eins og ó. O. Ó. O, frændi. / O, frændi minn. Ó, frændi.“

Notkun höfundar á úrfellingarmerkjum er lýsandi fyrir hinn kímna lofsöng til frændleikans sem er miðlægur í Avuncular. Allt frá upphafi bókarinnar er dregin upp mynd af „hinu frændalega“ sem eiginleika sem helgast ekki af kynferði, líffræðilegum, orðabókar- eða lagalegum skilgreiningum. Öllu heldur er hann hljóð sem táknar væntumþykju og þá ávölu öryggistilfinningu sem býr í tungumálinu – einnig í málbeitingu Piu Juul, en í henni má greina frændalegt bergmál úr textum annarra skálda. Ólíkt röklegu samhengi feðraveldisins, sem leggur mest upp úr valdi, ábyrgð og samkeppni, býður hið frændlega ljóðmælandanum griðastað og trú á að hann geti átt einhvers staðar heima, án skuldbindingar.  

Orðið „frændalegur“ lýsir samjöfnuði og skyldleika sem í sjálfum sér ljóstrar upp um eitt af ljóðrænum grundvallaratriðum bókarinnir, sem felst í því að leita „frændleikans“ og fikra sig nær honum, meðal annars með því að stæla hann en einnig með því að afneita honum. Griðastaður frændleikans er andstæða „hryllingsstaðanna". Margir slíkir eru í bókinni – meðal birtingarmynda þeirra eru stríð, skotgrafir, hryðjuverkahótanir og „sjálfmorðsseinkaðar“ lestir, sem valda óróa og eirðarleysi.

Að lokum víkja þessar efnislegu vangaveltur fyrir hugleiðingum um tímavídd hins frændalega. Þar spilar inn í sú tilfinning hverfulleika sem fylgir því að hafa eitt sinn átt frænda, en vera nú sjálfur orðinn frændi eða frændalegur. Vitundin um hverfulleikann umlykur ljóðmælanda í lokaljóðinu, sem er í endurminningarstíl, þar sem hið frændalega verður að eins konar kefli sem á að ganga til komandi kynslóða: „Mundu frændur þína. Mundu börnin þín. Mundu börnin þín sérstaklega / sem börn, þau hverfa. En frændurnir hverfa fyrst. / Og skyndilega er maður það sjálfur. Frændi, klár og indæll og þolinmóður og fulltrúi gamalla tíma (…) Nú er það ég sem segi Hvað þú hefur stækkað, frænka litla. Og ég sem segi / fimmaurabrandara í fermingarveislum.“ Með því að halda vissri fjarlægð gefur ljóðmælandi hinu frændalega masi merkingu; það er eins og galdraþulur, munnleg undirstaða veikburða kerfis og boð um einhvers konar huggun.

Innan um frændurna á bókarkápunni gefur einnig að líta mynd af Piu Juul. Og frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu þjónar persóna frændans hlutverki stórbrotinnar grímu fyrir höfundinn, sem afvopnar lesandann með fjarlægð og listilegri málbeitingu meðan hún rannsakar „hið frændalega“ – frændleikann sem kennd og sem (jaðar)menningarlegt fyrirbæri, í senn fyllilega almennt og fyllilega jaðrað. Hér er skrifað af næmni en sneitt hjá tilfinningasemi, og af bölsýni sem þó verður aldrei að hörku eða kulda. Næmnin og bölsýnin takast á og skapa frumlegt, ljóðrænt rými þar sem helstu grunnstef lífsins – það að eldast, deyja og vera berskjaldaður – geta verið til umræðu án minnsta votts af tilgerð.