Ragnar Helgi Ólafsson

Ragnar Helgi Ólafsson

Ragnar Helgi Ólafsson

Ljósmyndari
Art Bicknick
Ragnar Helgi Ólafsson Laus blöð, ljóðabók, Bjartur, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Titill ljóðabókarinnar Laus blöð er snúinn og slær tón sem vakir í bókinni. Allt er öðru vísi en það virðist vera og við höldum yfirleitt að við séum önnur en við erum. Ljóðabókin Laus blöð er þar ekki undanskilin. Blöðin í bókinni eru ekki laus. Þau eru bundin inn til þess að þau glatist síður. Það er útskýrt á pappírsstrimli sem fylgir með. Auk þess fylgir hverju eintaki sérprentað bókamerki með númeraskrá yfir blaðsíðutöl og fyrirmælum um það í hvaða röð beri að lesa ljóðin í því tiltekna eintaki. Bókin er með öðrum orðum ekki bundin í „lestrarröð“! Það er skemmtileg lestrarreynsla að fá uppgefið blaðsíðutal og þurfa að leita að ljóðinu sem á að koma næst. Svolítið eins og leikur eða fjársjóðsleit.

 

Fyrstu línuna í númeraskránni á bókamerkinu ber að lesa frá vinstri til hægri, síðan niður í næstu röð talna sem lesin er frá hægri til vinstri, næsta röð er svo lesin frá vinstri til hægri og þannig áfram.

 

Í bókinni er efnisyfirlit sem ekki fylgir tilmælum bókamerkisins. Ekkert er það sem það sýnist. Kvæðum inni í bókinni er raðað samkvæmt efnisyfirlitinu í bókinni svo kvæðin koma til okkar í tveimur röðum. Þær gætu kallast birtingarröð og lestrarröð en þar að auki er bókinni skipt í kafla og röð kaflanúmera er óvenjuleg. Fyrst kemur þriðji hluti, svo fyrsti, þá fjórði o.s.frv.

 

Bókin er mjög falleg. Hún er myndverk og leikurinn með ljóðaraðir er eins og framhald þeirrar sköpunar og minnir á að hér er ekkert tilviljunum háð. Hið óvænta kemur í stað þess staðlaða og fyrirsjáanlega. Hugsun ljóðanna er byggð inn í prentgripinn á mjög útsjónarsaman hátt.

 

Ljóðin í bókinni eru á breiðum skala, sýna bæði blíðu og skarpa hugsun. Oftast og mest ber þó á því þema sem áður var nefnt. Það er ekki allt sem sýnist þegar nánar er að gáð og kannski er það eitt helsta viðfangsefni ljóðlistar bæði fyrr og síðar að minna okkur á hve margt er okkur hulið. Það er áhugavert viðhorf í nútímanum og neysluhyggjunni þar sem stöðugt er æpt á torgum að allt sé einmitt eins og það sýnist, og jafnframt best.

 

Í bókinni Laus blöð er gamanið alvara, og öfugt Meðal þeirra mynda og hugmynda sem sitja eftir hjá lesanda eru þessar: Hin eina og sanna falska vitund er vitundin sjálf.

 

Hin eina og sanna falska vitund er vitundin sjálf. Hvers vegna þarf skáldskapurinn að endurspegla heiminn? Er það til þess að eiga backup? Ekki má rugla saman flugáhugamanni og áhugaflugmanni, enda getur það verið spurning um líf og dauða. Sama á við um sekt og sektarkennd! Draumar eru staðreyndir í þessari bók, ljóðmælandinn á sér tvífara, - og er líklega hann sjálfur. Hárið er rótfast í hársverðinum og máttlaust í vindinum og þess vegna er hreyfing þess fögur. Séð að ofan minnir borgin á þversnið af mannsheila.

 

Það er kannski í eðli ljóða að leita í það sem ekki verður staðfest eða höndlað í vitundinni. Það getur tekið á sig hátíðlegar og alvarlegar myndir en líka einfaldar og sniðugar. Hér er lítið ljóð úr bók Ragnars Helga. Það er ekki einu sinni hægt að treysta ljósmyndum:

 

Ljósmynd

kannski

er ástæða þess

að mér finnst svona skrýtið

að þú eigir þessa ljósmynd

af þessum sofandi manni

að ég er maðurinn

og ég hef aldrei

séð hann sofa.