Sund Vejle Fjord – Danmörk

Sund Vejle Fjord
Photographer
Sund Vejle Fjord
Endurheimt vatnssvæðis sem var hætt komið með náttúrulegum aðferðum.

Sund Vejle Fjord er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Verkefnið hefur staðið í tvö ár og allt bendir til þess vistkerfi Vejle-fjarðar, sem var að þrotum komið, sé smám saman að ná fyrri styrk. Gríðarlegt magn af marhálmi hefur verið gróðursett, stórum kræklingagörðum hefur verið komið upp og nú er verið að koma upp steinrifi. Kræklingarnir sía vatnið svo sólarljósið nær dýpra og því getur marhálmur vaxið á dýpi þar sem áður var of dimmt. Árangurinn leynir sér ekki: Marhálmur þrífst í firðinum og bindur koldíoxíð, köfnunarefni og önnur næringarefni.

Frá því hann var gróðursettur hefur hann dreift sér mikið og stærri fiskar eru farnir að finnast í marhálmsbreiðunum. Steinrif skilar sér í lygnari sjó sem bæði verndar marhálminn og skapar betri lífsskilyrði fyrir stærri ránfiska og stórþörunga. Jafnframt eru stundaðar hófsamar en árangursríkar veiðar úr gríðarstórum krabbastofni til þess að marhálmurinn geti virkilega tekið við sér.

Verkefnið á rætur sínar hjá hagsmunaaðilum á svæðinu og landinu öllu, m.a. fræðimönnum, yfirvöldum, náttúruverndarsamtökum, bændasamtökum og tómstundafélögum. Verið er að vinna aðgerðabók þar sem haldið er utan um reynslu og aðferðir sem geta nýst í öðrum fjörðum og strandsvæðum þar sem jurta- og dýralíf á undir högg að sækja.