Þorsteinn frá Hamri: Skessukatlar

Þorsteinn frá Hamri
Photographer
Kontakt forlaget
Ljóðabók, Mál og menning, 2013

Þorsteinn frá Hamri er fæddur 15. mars 1938. Hann er meðal fremstu og þekktustu ljóðskálda Íslands og hefur verið heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands frá árinu 2006. Þorsteinn hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. hina íslensku fálkaorðu árið 1996. Hann hefur áður hlotið tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, síðast árið 1992, en sama ár hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin. Fyrsta ljóðabók Þorsteins kom út árið 1958 en eftir hann liggja alls 30 bækur, þar af 25 ljóðabækur.

Ljóðunum í Skessukötlum er skipt í þrjá hluta. Hver hluti hefur sín einkenni og umfjöllunarefni, en saman mynda þeir eina heild. Þorsteinn yrkir um náttúruna, fortíð og samtíð, æskuminningar og dauðann, en ekki síst um skáldskapinn sjálfan og efnivið hans; orðin sjálf, mátt þeirra og vanmátt. Þó gætir hvergi vanmáttar í formi eða hrynjandi ljóðanna. Skáldið hefur meistaraleg tök á því að heimfæra hefðbundin einkenni íslenskrar stuðlasetningar og bragfræði upp á frjálsara form, rétt eins og hann lætur fortíð mæta nútíð í yrkisefni ljóðanna svo að ljóðmælandinn og hinn langi vegur sögunnar verða sem eitt. Með notkun á sígildu myndmáli og vísunum í eigin höfundarverk styrkir skáldið tengingu lesandans við fortíðina og lýsir um leið efasemdum um að maðurinn geti lært af fyrri mistökum. Þrátt fyrir það gætir hvorki depurðar né fortíðarþrár í ljóðunum, heldur eru þau þvert á móti full orku og aðdáunar á list skáldskaparins og töframætti orðsins, og málfarið er undurfallegt.

Gagnrýnendur hafa sagt að með ljóðum sínum brúi Þorsteinn bil fortíðar og samtíðar, og það á einnig við um þessa bók. Undir yfirborði allra ljóðanna leynast hefðbundnir bragarhættir og er stundum svo grunnt á þeim að sé línuskiptingunni breytt, verður útkoman hefðbundið form með stuðlum, höfuðstöfum og rími. Í ljóðunum birtist heildarmynd af manneskju sem er nátengd náttúru landsins, hefðum þess og sögu en hrærist einnig í líðandi stund, sem hlýtur að byggja á hinu liðna. Orðin mynda langa keðju, sem getur orðið að dauðafjötrum en einnig að leiðarhnoða sem vísar veginn gegnum óreiðukennt núið á vit hins ókomna og óþekkta.

Samkvæmt íslenskri orðabók er skessuketill hola í bergi, „mynduð við núning steinhnullunga sem þyrlast í hringiðu“. Á sama hátt þyrlumst við í hringiðu eigin samtíma og orðin þyrlast um í huga skáldsins uns eftir er hola, eða ketill, sem kannski var gerður af skessum. Titill bókarinnar leiðir hugann að forneskju af öðrum heimi, kraftmikilli og leyndardómsfullri, og mætti orðanna. Sömu áhrif hafa hin meitluðu og persónulegu ljóð Þorsteins frá Hamri, sem fyrir tilstilli áhrifamikils myndmáls eiga greiðan aðgang að hjarta og hug lesandans. Bókin er afbragðs dæmi um hvernig þaulreynt ljóðskáld notfærir sér tungumál, myndmál og bragfræði til að miðla hugleiðingum um líf og dauða, fortíð og samtíð, hið innra og hið ytra, en ekki síst um eðli tungumálsins og skáldskaparins.