Tomas Mikael Bäck

Tomas Mikael Bäck
Photographer
Juho Paavola
De tysta gatorna. Ljóðabók, Schildts & Söderströms, 2016.

Tomas Mikael Bäck (f. 1946) er virt skáld sem hefur sent frá sér stuttar en innihaldsríkar ljóðabækur í bráðum hálfa öld. Frumraun hans, Andhämtning, kom út árið 1972. Í fyrra gaf hann út sína tuttugustu bók, De tysta gatorna, sem nú er tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bäck hlaut Edith Södergran-verðlaunin árið 2014 og verðlaun sænska menningarsjóðsins Längmanska árið 2016.

Tomas Mikael Bäck hóf skáldferil sinn á blómaskeiði finnlandssænska módernismans og var Gunnar Björling hans helsti lærifaðir. Tjáningarmáti Bäcks varð knappari með hverju verki og á níunda áratug 20. aldar gaf hann út fjölda ljóðabóka sem innihéldu kjarnyrt einnar línu ljóð. Undanfarin ár hefur hann leyft ljóðum sínum að leggja undir sig fleiri línur og jafnframt hleypt inn í þau ævisögulegum þáttum, en þeir byggja oftar en ekki á athugunum frá Vaasa, fæðingarbæ skáldsins. Frásagnarmáti og munúðarfull, auðþekkjanleg smáatriði – ilmur, útsýni og hljóð – ljá ljóðum hans í seinni tíð afslappaðan og frjálslegan blæ. Ljóð Bäcks gera lesandann upprifinn á friðsælan hátt.

Í De tysta gatorna lýkst „sama gamla skynjunin“ upp og „hvaða upprifjun sem vera skal fær að skjóta upp kollinum“. Bäck bendir á að þegar við opnum okkur heyrum við oft eitthvað sem er hvorki tómleiki né þögn, heldur „suðið í eigin búnaði“. En einnig aukahljóð og truflanir í búnaðinum. Þessi hljóð minna ef til vill á tónlist sem enn hefur ekki verið samin, eða þögla, látlausa rigningu. Jafnvel mistök og óhöpp eru meðtekin og þeim ljáð merking:

Í lestinni fer ég í vitlausa átt.
Ég sker mig á skáphurð.
Sífellt þessi ást.

 

Ekki skortir átök í ljóðunum: þrumur ganga yfir, gleymt landslagið logar og eldingarnar mynda svart sikksakk-mynstur. Að mestu leyti spjarar Bäck sig þó án hins skæra og tilkomumikla: „Maður þarf kannski ekki fagurrauðar og grænar steintegundir þegar allt kemur til alls?“ Það sem þarf er frekar hið gráa og gullna, regnið og tónlistin og „upplifun nærveru sem ekkert fær sundrað.“ Á íhugulan og þolinmóðan hátt rannsakar Bäck holrýmin í veggjunum sem tungumálið lýkur um okkur og kemst inn að baki bannmerkja hugsunarinnar. Það sem þar er að finna setur hann í ljóð, sem ort eru af mikilli umhyggju og þrótti og viðkvæmri, dapurlegri kímni.