Zenia Johnsen og Signe Parkins
Rökstuðningur
Per er mikilfenglegt og afar hæglátt meistaraverk um líf og dauða. Verk um umbreytingu, söknuð og sorg, og um það að sumt fólk breytist aldrei.Við munum eftir þeim sem við svíkjum, segir faðir sögumannsins og flytur burt. Hann skilur eftir sig fiskabúr með loki úr vírneti og loforð um að koma til baka og setja eitthvað í það. Eftir að hafa ekki haft samband í heilt ár birtist pabbinn á ný og tekur barnið með sér að leita að fiðrildalirfum. Við sjáum barnið fylgjast þolinmæðislega með spennuþrunginni framvindu lífsins á meðan faðirinn er aftur orðinn fjarverandi og þögull. Að lokum klekjast fiðrildin út og skilja lesandann eftir með von í brjósti fyrir hönd barnsins.Eitthvað hefur þá breyst eftir allt saman.
Zenia Johnsen skrifar meitlaðan og ljóðrænan texta í staðhæfingastíl og án tilfinningasemi. Bráðsnjallar myndir Signe Parkins spanna allt frá gáskafullri veröld lirfanna til þeirrar tilfinningar að hafa verið yfirgefinn, sem komið er til skila með litríkum en mannlausum herbergjum og svimandi smáatriðum dýrafræðinnar þar sem lesandinn stendur augliti til auglitis við sanna list og listamann.
Þetta er marglaga, svimandi gott og gjöfult verk um efni sem er óvægið, hrátt og nánast ómögulegt að koma orðum að. Eitthvað alveg sérstakt þarf til þegar listaverk á – og þarf – að lýsa hinni skjálfandi vanlíðan sem einmanaleiki framkallar í heimi barnsins, þegar barnið er sjálft ekki fært um að ljá tilfinningunni form, lit eða skilning. Hún er bara alltaf þarna.
Per er stórt verk um allra smæstu atriðin og það eru þessi smáatriði sem skáskjóta sér, streyma fram á sinn sérstæða hátt og veita barninu lífsfyllingu í hversdeginum – einmitt þau gera að því er virðist ómögulegt ástand bærilegt. Hér er á ferð raunsæ ljóðræna og nánast áþreifanlegur, teiknaður veruleiki þar sem maður þarf að teygja sig eftir einhverju sem maður hefur enn ekki kynnst í þeirri von að það geti samt – og þrátt fyrir allt – hjálpað manni.
Verkið má lesa á mörgum mismunandi plönum og í því búa jafnvel enn fleiri lög, þar sem ýmislegt sem virðist einfalt við fyrstu sýn heldur áfram að vaxa lengi með lesandanum. Texti og myndir standa í hnífskörpu jafnvægi í þessu áleitna meistaraverki mikils listafólks, verki um líðan sem getur verið nístandi fyrir börn að dvelja í. Til allrar hamingju er þetta líka verk sem reynir hvorki að vanda um við lesendur né kenna þeim neitt sérstakt – hér segir einfaldlega frá því sem er sárt, þegar það er sárt. Þetta er afrek í sjálfu sér og til marks um það hugrekki sem verkið felur í sér. Hugrekki til að segja þannig frá söknuði og sorg að siðmenningin dugi ekki lengur til og náttúran verði að taka yfirhöndina og veita von um eitthvað mun mikilfenglegra. Flögrandi fiðrildin eru svo falleg en jafnframt afar viðkvæm. Alveg eins og það að lifa, og ekki bara það að lifa af.