Arndís Þórarinsdóttir
Rökstuðningur
Fimleikastrákurinn Álfur er ótrúlega góður vinur, frábær sonur og besti stóri bróðir í heimi. Í fyrstu virðist fátt geta dregið Álf niður, ekki einu sinni þyngdaraflið þar sem hann sveiflar sér í fimleikahringjunum. En þegar foreldrar hans byrja að ræða það í tíma og ótíma að Eiki litli bróðir sé einhverfur koma brestir í veröld Álfs og hann tregar það þegar þau voru „bara venjuleg fjölskylda.“
Kollhnís er frumleg og áhrifarík saga um erfið málefni þar sem óáreiðanlegur sögumaður er í forgrunni og þröngt sjónarhorn hans teymir lesandann áfram á hnitmiðaðan og djarfan hátt. Eftir því sem líður á söguna fer lesandann að gruna að upplifun Álfs sé ekki fullkomlega traustsins verð. Agaður frásagnarmáti Arndísar og stíll dregur listilega fram, með kímni og kærleik, hvernig sterkar tilfinningar bjaga hrekklausa sýn sögumannsins á fólkið sem hann dáir.
Í huga Álfs er hann sá eini sem er með litla bróður sínum í liði, þar sem hann leggur sig allan fram við að kenna Eika að haga sér eins og venjulegur strákur, en mamma og pabbi hafa bara gefist upp. Hann stráir kökuskrauti yfir mat Eika til að fá hann til að borða, en í raun beitir Álfur sömu aðferð á eigið líf til að dylja óbragðið af því sem hann skilur ekki. „Ég hugsa um hvernig það hefði verið ef allir þar hefðu haldið að Eiki væri einhverfur. Þá hefði fólk horft á litla bróður minn og séð eitthvað allt annað en hann. Fólkið hefði séð fötlun. … Það hefði ekki séð Eika.“ Þó Álfur sé aðeins barn sjálfur hefur hann tilhneigingu til að taka ábyrgð á þeim sem honum þykir vænt um. Sérstaklega litla bróður.
Frásögnin er manneskjuleg og skrifuð af dýpt og umhyggju fyrir meginumfjöllunarefninu: einhverfu og þeim flóknu áskorunum sem fylgja henni, bæði fyrir aðstandendur og einstaklinginn sjálfan. Kollhnís fjallar um marglaga og flókna fjölskyldudýnamík og tekur á sárum tilfinningum og meinsemdum sem þrífast í nándinni en ná sjaldan inn í íslenskar barnabókmenntir.
Afneitun Álfs á greiningu Eika myndar fjarlægð milli Álfs og foreldra hans sem eykst þegar hann tekur upp á því að heimsækja Hörpu, móðursystur sína og átrúnaðargoð í fimleikunum. Hún býr í næstu götu en foreldrarnir láta eins og hún sé ekki til. Álfur fer því leynt með samskiptin við Hörpu sem reynist eiga í fíknivanda og hann dregst inn í atburðarás sem er trúverðug en um leið ógnvekjandi.
Arndís fjallar af virðingu um áfallið sem einstaklingur upplifir þegar heimsmynd hans kollvarpast og hugmyndir hans um framtíðina þurfa að laga sig að því. Ljótum orðum og fordómafullum yfirlýsingum er gefið rými, sem vekur sannarlega upp tilfinningar hjá lesandanum, en gerir leiðina að sáttinni meira sannfærandi. Dregin er upp áhrifarík mynd af Álfi þar sem hann „gefst upp“ fyrir greiningunni rétt eins og foreldrarnir höfðu gert. Við fylgjumst með honum finna æðruleysi, í sínum eigin takti, til að horfast í augu við raunveruleikann og læra að meta sína venjulega óvenjulegu fjölskyldu.
Arndís Þórarinsdóttir (f. 1982) er rithöfundur og ljóðskáld sem hefur skrifað fjölda vinsælla barnabóka sem hlotið hafa ýmis verðlaun, auk tilnefninga til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Kollhnís hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2022.