Lena Ollmark & Per Gustavsson (myndskr.)

Lena Ollmark & Per Gustavsson (ill.)
Photographer
Stefan Tell
Lena Ollmark & Per Gustavsson (myndskr.): Den förskräckliga historien om Lilla Hon. Skáldsaga, Lilla Piratförlaget, 2017.

Lilla Hon elskar að hoppa í rúminu. Að kúra sig í dýnum og koddum. Mamma hennar og pabbi eru alltaf upptekin og finnst Lilla Hon gera lítið annað en vera með læti og drasla til. Þess vegna er Lilla Hon hrifin af mánudagsmorgnum, þegar hún fær að fara í skólann. Hana dreymir um að fá að hoppa í koddaherberginu og blístra með stafakex í munninum. Hana langar svo að vera með hinum krökkunum og þurfa ekki að vera einmana. Hún er nefnilega hrædd, alveg dauðhrædd. Við drauga.

En hinir krakkarnir eru ekki skemmtilegir. Þeir leyfa Lilla Hon ekki að vera með í koddaherberginu. Í staðinn segja þeir henni leiðinlegar sögur um löngu liðna atburði í skólanum og um draugana sem leynast þar. Um vondan, grimman kennara sem hengdi sig uppi á háalofti, og um kokk sem var vanur að gera kássu úr nemendum sem kláruðu ekki matinn sinn og sem hlaut sjálfur dularfullan dauðdaga. Svo ekki sé minnst á hina óhuggulegu handavinnustelpu og bókasafnsstrákinn illgjarna. Þegar Lilla Hon fer að gráta af hræðslu veltast krakkarnir um af hlátri.

En á endanum fer þeim að leiðast að hræða hana. Einn góðan veðurdag ákveða þau að leyfa henni að vera með og leika í koddaherberginu. Fyrst þarf hún bara að gera eitt: fara upp á háaloft, þar sem draugarnir eru. En það á eftir að hafa hrikalegar afleiðingar…

Den förskräckliga historien om Lilla Hon eftir Lenu Ollmark og Per Gustavsson er óvenjuleg bók –ógnvekjandi draugasaga fyrir yngri börn með drungalegum myndskreytingum sem velta lesandanum upp úr óhugnaðinum. Hér eru allir þættir sígildra draugasagna til staðar í frásögn um barn sem er hunsað og lagt í einelti og sem fær að upplifa hryllingsævintýri af sjaldséðu tagi. Hér segir frá blóði, morðum og kjötöxum en einnig frá vináttu og samlyndi – og mitt í öllu þessu hryllilega og draugalega skapa spaugilegar ýkjur skakkan húmor. Í Svíþjóð er mikið skrifað af hryllings- og draugasögum fyrir börn en sjaldan hefur nokkur þó jafnast á við þessa í hryllingi.

Den förskräckliga historien om Lilla Hon er fyrsta samvinnuverkefni Lenu Ollmark og Pers Gustavsson. Þau gáfu nýlega út framhald á bókinni, Den förskräckliga historien om Lilla Han (2018) og sú þriðja í röðinni er í smíðum. Lena Ollmark er rithöfundur og handritshöfundur með mikinn áhuga á draugasögum og hryllingi. Á meðal fyrri skrifa hennar eru handrit að stuttmyndum, m.a. um litla drauginn Laban og Lilla Anna och Långa Farbrorn, auk hryllingsbarnabókaflokkanna Firnbarnen og Krabbsjögrund. Per Gustavsson er myndskreytir og myndabókahöfundur og hefur áður skrifað femínískan myndabókaflokk um Prinsessuna, sem hófst með bókinni Svona gera prinsessur (2003, ísl útg. Bjartur, 2004). Í nýjum bókaflokki sem hann skrifar ásamt Anders Sparring segir frá skálkafjölskyldunni Knyckertz. Den förskräckliga historien om Lilla Hon var tilnefnd til hinna virtu August-verðlauna 2017 í flokki barna- og unglingabóka.