Zakiya Ajmi

Zakiya Akmi
Photographer
Simon Klein Knudsen
Zakiya Ajmi: Vulkan. Unglingabók, Gads Forlag, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Vulkan („Eldfjall“, hefur ekki komið út á íslensku) er unglingabók sem má segja að gjósi í fleiri en einni merkingu. Ekki aðeins hvað varðar málbeitingu heldur einnig sérstæða uppbyggingu, sem snýr hefðbundinni skipun atburða á haus með því að bæði hefja bókina og ljúka henni á 2. kafla. Þetta er rótlaus og áleitin frásögn um það að passa inn, og um það að hverfa frá hlutum - sögð á alveg sérstæðan hátt. Samtölum, textaskilaboðum og ruglingslegum hugsunum er blandað inn í frumlegan texta þar sem ekki einungis hræringarnar innra með okkur, heldur einnig þær í miðju jarðar, öðlast sérstaka þýðingu fyrir persónusköpun bókarinnar. Allt í sögunni er um það bil að gjósa.   

Aðalpersónan, Anna, hefur dvalið í kvennaathvarfi með móður sinni. Nú býr hún í nýrri borg, byrjar í nýjum skóla og eignast nýja vini. Allt er nýtt. Vinkonan Chili og strákurinn Idris, sem stundar parkour og er ekkert líkur Thomasi í kvennaathvarfinu sem veit allt um þyngdaraflið. Anna hefur upplifað þetta áður. Að vera rifin upp með rótum og flytja á nýjan stað í þeirri von að hér, einmitt hér, geti allt hafist upp á nýtt. Án lyga. En er mögulegt að græða sár á sálinni með því að flýja þau hvað eftir annað, bæði líkamlegum og andlegum flótta? Eins og ótal önnur börn og ungmenni í sömu stöðu þarf Anna að ganga í hlutverk verndara og umönnunaraðila móður sinnar, sem berst fyrir því að halda áfram með líf sitt, og föður sem getur ekki horfst í augu við að hann er stór hluti vandans. Líkt og brennt barn þarf Anna að ganga inn í heiminn sem kallast raunveruleiki og horfast í augu við hann. Í gegnum alla frásögnina kraumar eldfjall, líkt og nokkurs konar gangverk sem dregur hluti til sín og ýtir þeim aftur frá sér. Þungi og frjálst fall. Ekki í átt að jörðinni, heldur slokknuðum holum óendanleika og myrkurs. Pabbi Önnu reynir að vera faðir á ný, en það er hvorki hægt né skylt að fyrirgefa allt í heimi sem er um það bil að brotna í þúsund mola af því að allt titrar og skelfur. Það á einkar vel við þegar Anna fer í bæinn og reykir jónu og sitthvað á sér stað á milli hennar og kærasta Chiliar. Lífið er fullt af skekkjum. Það heldur áfram að vera það. En skekkjurnar og mistökin kenna henni líka að lifa, ekki bara að lifa af.

Vulkan er sósíalrealísk unglingabók, sögð á viðkvæman, hráan, ljóðrænan og hnyttinn hátt. Saga um það að hrasa og standa upp aftur. Í sögunni er meðal annars litið til hinnar hefðbundnu þroskasögu með sígildri uppbyggingu, þar sem það að eiga einhvers staðar heima er sett undir smásjá – því að Anna á hvergi heima, er nokkurs konar hirðingi í eigin lífi, og eirðarleysið er drifkraftur til bæði góðs og ills. Zakiya Ajmi býr yfir sjaldgæfri og heiðarlegri samsömun við trúverðugan sögumann, sem notar til allrar hamingju aldrei siðavendni eða uppfræðslutón. Sagt er að fólk læri af mistökum sínum, en það sem reynist ef til vill lærdómsríkast fyrir persónur þessarar sögu er að biðjast fyrirgefningar – og meina það.  

Unglingabókin Vulkan er eins og eldfjall. Orkan í hverri einustu setningu, og hin sérstæða berskjöldun sem býr í orðunum, tekur sér bólfestu með lesandanum og setur mark sitt á hann. Zakiya Ajmi er rithöfundur sem ætlar sér eitthvað með frásögn sinni. Hún vill hrista upp í gamla heiminum svo að við getum fengið annan, nýjan heim, þar sem má tala um allt það sem oft skortir á að sé rætt.